21.04.1982
Efri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4044 í B-deild Alþingistíðinda. (3585)

286. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal gjarnan svara fsp. hv. þm. um þetta mál. Ég hef áhuga á að hraða setningu löggjafar til endurskoðunar á löggjöfinni um hitunarkostnað. Hins vegar hef ég verið að bíða eftir nál. því ég hef ætíð hugsað málið þannig, að ef nefndin næði samstöðu um veigamestu atriðin, sem snerta þessi mál, væri eðlilegt og raunar sjálfsagt að byggja löggjöf á því áliti, á þeirri stefnu sem þar kemur fram.

Nú hef ég ekki, eins og ég gat um áðan, fengið nál. formlega í hendur. Ég er með handrit af því og var að sjá það fyrir nokkrum mínútum þannig að ég hef ekki haft tækifæri til að kynna mér það, en mun að sjálfsögðu gera það gaumgæfilega. En ég vil engu lofa hv. þm. um að ég styðji það frv. sem hann hefur lagt fram hér á þinginu. Ég vil engu lofa um það á þessu stigi málsins. Ég mun athuga gaumgæfilega nál. og byggja mínar tillögur væntanlega á því. Þó vil ég ekki alveg gefa yfirlýsingu í þeim efnum í öllum atriðum. Ég þarf að sjálfsögðu að lesa nál. áður en ég hef tækifæri til að tjá mig um þetta. En ég hef áhuga á að flýta setningu nýrrar löggjafar um þetta mál.