21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (3609)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hafði ég í hyggju að leggja fram fsp. til hæstv. viðskrh. og hæstv. samgrh., en þar sem þeir voru báðir staddir erlendis gat ekki orðið úr því. Hins vegar hét hæstv. forseti deildarinnar því, að 3, umr. þessa máls færi ekki svo fram að ekki gæfist tækifæri til að leggja fsp. fyrir hæstv. ráðh.

Við 2. umr. vakti ég athygli á því, eins og öllum þdm. er kunnugt raunar, að í upphafi var þessi skattur lagður á af ríkisstjórn þeirri er tók við störfum 1. sept. 1978, og þá var samviskan ekki betri en svo, að það var ítrekað tekið fram að þessi skattur væri aðeins til bráðabirgða á lagður og mundi ekki standa lengi. Ég vakti athygli á ýmsum ummælum og aths. sem fram höfðu komið varðandi þessa skattlagningu.

Í fyrsta lagi rifjaði ég upp ummæli formanns Kaupmannasamtaka Íslands, Gunnars Snorrasonar, í málgagni Kaupmannasamtakanna, Verslunartíðindum, þar sem hann gerði grein fyrir því, að þessi skattlagning leiddi til þess, að húsnæði verslunarmiðstöðva nýttist ekki í upprunalegum tilgangi til þeirrar þjónustu fyrir íbúa nálægra hverfa sem ætlast hefði verið til. Hann minnti á að eigendur fasteigna, verslunarsamstæða. kysu heldur að leigja húsnæðið til annars en verslunarrekstrar og þannig kæmi það fyrir að hlið við hlið væri starfsemi rekin og önnur greiddi hærri húsaleigu eða skatt sem svaraði skattlagningu samkv. þessum lögum, en hin væri undan því þegin. Með þessum hætti væri hætta á að verslunarbyggingar, sem reistar væru sem verslunarmiðstöðvar, gegndu ekki því hlutverki, sem ætlast væri til. til hagsbóta fyrir íbúa. Á þetta jafnt við verslunarbyggingar hér í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

Í öðru lagi minnti ég á það, að á ráðstefnu Verslunarráðs Íslands um framtíð miðbæjarins hér í Reykjavík hefði komið fram að óhófleg skattlagning á húsnæði á miðbæjarsvæðinu gerði að verkum, að miðbærinn innti ekki af höndum það hlutverk sem honum bæri, og þar með væri einnig stöðvuð sú þróun sem nauðsynleg væri í uppbyggingu miðbæjarins svo að hann stæði undir því hlutverki sem miðbæ á höfuðborgarsvæði væri ætlað.

Í þriðja lagi vildi ég vekja athygli á því, að ályktanir, bæði samtaka innan sambands verslunarinnar, samvinnu verslunarinnar og Kaupmannasamtaka, hafa verið á þá lund að þessi skattur væri ekki síst óréttlátur gagnvart verslun í strjálbýli, sem þessi samtök telja standa sérstaklega höllum fæti.

Í fjórða lagi hlýt ég að leggja áherslu á þá hættu, sem er samfara slíkum skatti sem þessum, á að opnuð sé leið spillingar þar sem mjög erfitt er að greina á milli þess húsnæðis, sem nýtt er til verslunar- eða skrifstofuhalds annars vegar, og ýmiss konar annarrar starfsemi hins vegar.

Í fimmta lagi vil ég leggja áherslu á það, eins og ég gerði við 2. umr. þessa máls, að þessi skattur byggist á þeim rótgróna misskilningi að verslunarrekstur og starfsemi á skrifstofum séu að einhverju leyti miður til þess fallin að efla þjóðarhag en önnur atvinnustarfsemi. Þessi skattur gerir versluninni sem atvinnugrein lægra undir höfði en öðrum höfuðatvinnugreinum landsmanna, en það er orð að sönnu, að sú króna, sem sparast við hagkvæmari innkaup eða hagkvæmari sölu útflutningsafurða okkar, er jafnverðmæt og sú króna sem aflast í frumframleiðslugreinum eða vinnslugreinum. Allt þetta ber að sama brunni, að þessi skattur er ekki réttlátur.

Þennan skatt ber að afnema og því er það undravert að þetta frv. skuli enn á ný borið fram og ríkissjóður ætli að byggja tekjur sínar á svo ranglátum skattalögum. En því fremur er þessu svo varið, sem ég nú hef lýst, að hæstv. ráðherrar, annars vegar hæstv. samgrh„ formaður Framsfl., og hins vegar hæstv. viðskrh., ritari Framsfl., hafa báðir lýst yfir að þeir séu í raun þeirrar skoðunar, að þennan skatt beri að afnema. Samt sem áður er þetta frv. hér fram komið.

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta vitna til, ummæla hæstv. samgrh. í umr. um stefnuræðu forsrh. 23. okt. 1980, þar sem hæstv. samgrh. kemst svo að orði:

„Í því sambandi leggjum við framsóknarmenn mikla áherslu á niðurfellingu nýbyggingargjalds, eins og ráð er fyrir gert og fullt samkomulag um“ en heldur síðan áfram: „Við teljum einnig skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði vafasaman nú þar sem dregið hefur úr þenslu á því sviði og upphaflegum markmiðum með honum því náð.“

Ég vitna enn fremur í ummæli hæstv. viðskrh. í umr. nm fjárlög fyrir árið 1981 í Sþ. 6. nóv. 1980, þar sem hann kemst svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við umr. um skattamál hér á hv. Alþingi á s.l. vetri lét ég þau orð falla, að ég fylgdi því að framlengja skatta á skrifstofu- og verslunarhúsnæði á þessu ári, en væri þó þeirrar skoðunar, að þetta mál þyrfti að taka til endurskoðunar á yfirstandandi þingi. slík skattlagning kemur þungt niður á bæði samvinnuverslun og annarri verslun, sérstaklega þó í strjálbýlinu, en þar hefur verslun barist í bökkum á undanförnum árum.“

Af tilefni þessara ummæla hæstv. ráðh., sem þeir hafa efnislega síðar endurtekið án þess að eftir væri fylgt með endurskoðun þessa skatts, vil ég spyrja hæstv. samgrh., formann Framsfl., hvort hann sé sömu skoðunar og 23. okt. 1980, að þessi skattur sé vafasamur og upphaflegum markmiðum með honum náð, og ef svo er, hvers vegna hann standi þá að flutningi frv. um framlengingu þessa skatts. Ég leyfi mér enn fremur að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann sé sömu skoðunar og 6. nóv. 1980, að taka þyrfti þetta mál til endurskoðunar og hvaða tilraunir hann hafi gert í þeim efnum á þingi s.l. vetur og hvaða árangur hafi orðið af viðleitni hans í þeim efnum, a.m.k. á yfirstandandi þingi. Ég spyr hæstv. viðskrh. hvort hann sé sömu skoðunar og áður, að þessi skattlagning komi þungt niður bæði á samvinnuverslun og annarri verslun, sérstaklega þó í strjálbýlinu, en þar hefur verslun barist í bökkum á undanförnum árum, eins og hæstv. ráðh. komst að orði.

Ef hæstv. ráðherrar eru sömu skoðunar og þeir voru og hafa raunar endurtekið síðan í okt. og nóv. 1980 af öðrum tilefnum, þá gegnir furðu, að þeir skuli standa að frv. sem þessu, og hlýtur að vera ástæða til þess að krefjast skýringa á því. Er skýringin sú, að þeim hafi ekki orðið ágengt við endurskoðun þessa máls? Og þá er spurningin: Hver stendur í vegi fyrir því, að þeir fái vilja sínum framgengt? Ég trúi því ekki, að það séu ráðherrar úr hópi sjálfstæðismanna sem standa í vegi fyrir niðurfellingu þessa skatts. En leggist þeir á eitt, ráðh. úr hópi sjálfstæðismanna og þessir ráðh. Framsfl., þá ættu þeir ekki að vera svo valdalausir innan ríkisstj. að geta ekki komið í veg fyrir að þetta frv. sé flutt sem stjfrv. Sé það hins vegar svo mót von minni er það aðeins ein sönnun þess til viðbótar, hver það er sem ræður ferðinni í núv. hæstv. ríkisstj., þ.e. Alþb. En umfram allt ber þetta frv. því vitni, að núv. hæstv. ríkisstj. veit ekki sitt rjúkandi ráð til að afla ríkissjóði tekna. Það er gripið niður á hinum ólíklegustu og óréttlátustu stöðum, eins og þetta frv. ber vitni um, eins og nýframlag frv. hér á Alþingi um skyldusparnað ber vitni um og önnur frumvörp til aukinnar skattheimtu, sem ríkisstj. stendur að, bera vitni um.