05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

41. mál, tölvustýrð sneiðmyndatæki

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég taka það fram vegna ummæla hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar, að samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu, sem sett voru 1973 og seinna endurskoðuð 1978, á að setja reglugerð um verkaskiptingu sjúkrahúsa. Þessi reglugerð hefur ekki verið sett, en það hefur verið unnið að henni núna í tæplega eitt ár. Ég geri mér vonir um að samstarfsnefnd um heilbrigðismál, sem hefur starfað í framhaldi af heilbrigðisþingi, muni fljótlega fyrir sitt leyti geta gengið frá tillögum að reglugerð um verkaskiptingu sjúkrahúsanna í landinu. Ég tel að þessi reglugerð um verkaskiptingu sjúkrahúsa sé ákaflega þýðingarmikið spor í þá átt að tryggja að þjónusta sjúkrahúsanna í landinu sé sem eðlilegust og best.

Varðandi Borgarspítalann og niðurfellingu tolla af því tæki, sem Borgarspítalinn keypti og hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson spurði um áðan í eins konar framhaldsfyrirspurn af sinni hálfu, er því til að svara, að engin ákvörðun hefur verið tekin um að fella niður tolla af þessu tæki og ekki hefur heldur borist erindi um það. Það verður að skoða í samhengi við annað áður en ákvarðanir verða teknar í þeim efnum. Ég tel að mér sé ekki fært og það væri ekki rétt að gefa neinar yfirlýsingar á þessu stigi um það mál.

Hv. 1. landsk. þm. sagði að það hefði átt að óska eftir því við forráðamenn spítalanna, að þeir kæmu sér saman, ella mundi ráðh. fella sinn úrskurð í málinu. Það var einmitt það sem var gert. Það var óskað eftir að þeir kæmu sér saman, en það tókst ekki. Þess vegna varð rn. að fella sinn úrskurð í málinu um það, hvar þetta tæki ætti að vera. Þegar deilt var um, hvar tækið ætti að vera, var aldrei einvörðungu verið að tala um tæki sem tekur aðeins höfuðmyndir, heldur tæki sem tekur myndir af líkamanum öllum, svokallaðan Whole-body scanner. Það var það tæki sem deilt var um á hvorum staðnum ætti að vera. Ég tel út af fyrir sig að það sé ekkert óeðlilegt við að einhvern tíma í framtíðinni — ég veit ekki í hvað langri framtíð — væri komið fyrir höfuðtækjum víðar en á einum stað. En ég taldi óeðlilegt að þessum stóru og dýru tækjum yrði komið fyrir á fleiri en einum spítala til að byrja með. Á því byggist sú ákvörðun sem heilbrmrn. tók.

Af því að það er nú orðin talsverð samkeppni um hljóð hér í ræðustólnum ætla ég ekki að bæta hér miklu við. Ég vil þó aðeins segja það frekar út af fsp. hv. þm. Þorv. Garðars, að ég aflaði mér upplýsinga um það frá manni í stjórnarnefnd ríkisspítalanna eftir að þessar umr. hófust, að það var talið mjög skynsamlegt að tryggja bakábyrgð framleiðandans á þessum tækjum áður en frá samningum var gengið. Það er það ör tækniþróun í þessum efnum — geysilega ör tækniþróun er í öllum lækningatækjum og sérstaklega þessum tölvustýrðu tækjum — að það þótti skynsamlegt að fá. bakábyrgð framleiðandans. Menn telja að sú töf, sem hefur orðið af þessum ástæðum einum, hafi frekar orðið til góðs en hitt í þá veru að tryggja að þessi tæki veiti bestu þjónustu sem hægt er að gera kröfur um.