21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4057 í B-deild Alþingistíðinda. (3611)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Reykv. hefur lagt nokkrar spurningar fyrir mig í sambandi við það frv. til l. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sem hér er til umr., og hefur fyrst og fremst spurt mig að því, hvort ég hafi skipt um skoðun á þessu máli. Ég get sagt honum það strax að ég hef ekki skipt um skoðun. Ég er sömu skoðunar og ég var 6. nóv., að ég hygg 1981, þegar verið var að ræða skattamál í sambandi við fjárlögin.

Þegar menn taka þátt í stjórnarsamstarfi koma saman flokkar með mismunandi stefnur, mismunandi skoðanir, m.a. í skattamálum. Þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar var mynduð, haustið 1978 gerðu Alþfl. og Alþb. kröfu til þess að tekin yrði upp sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Rökstuðningurinn fyrir þessari skattlagningu var einmitt sá sem hæstv. samgrh. gat um áðan, að það væri lagður skattur á slíkt húsnæði til að hægja á fjárfestingu á því sviði. Þetta var tekið inn í stjórnarsamning þeirrar ríkisstjórnar og skatturinn lagður á í fyrsta sinn árið 1979, eins og kunnugt er. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að þegar menn starfa saman í samsteypustjórnum verða menn að taka tillit til þeirra sem menn starfa með. Svo var að sjálfsögðu þegar þessi skattur var settur á og hefur verið svo fram á þennan dag.

Þegar fjárlög voru til lokaafgreiðslu í ríkisstj. á seinasta hausti gerði ég óformlegan fyrirvara í sambandi við skattamál og nefndi þar að Framsfl. hefði áhuga að fella niður þennan skatt eða lækka hann, gera það í áföngum, lækka launaskatt og lækka fleiri skatta á atvinnulífið og það mál yrði svo athugað nánar þegar ríkisstj. fjallaði um efnahagsráðstafanir í kringum áramótin. Niðurstaðan varð sú, eins og kunnugt er, að það náðist samkomulag um að lækka launaskattinn úr 3.5% í 2.5% í iðnaði og fiskvinnslu, lækka stimpilgjöld af afurðalánum úr 1% í 0.3% og síðan yrði veitt heimild til að samræma álagningu aðstöðugjalds. Það náðist hins vegar ekki samkomulag um að lækka þennan skatt. Við í Framsfl. töldum þýðingarmeira, eins og málum er háttað, að lækka launaskattinn með tilliti til þeirrar hörðu samkeppni sem íslenskur samkeppnisiðnaður og útflutningsiðnaður verður að heyja við erlendan iðnað í fríverslunarsamstarfinu. Við lögðum því meiri áherslu á það í þetta sinn, að þessir skattar yrðu lækkaðir en skatturinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Við höfum hins vegar ekki breytt um skoðun varðandi þennan skatt. Hann verður þó væntanlega framlengdur á þessu ári, en það hefur verið svo um hann að hann hefur verið lagður á eitt ár í senn, e.t.v. með tilliti til þess, að hann sé ekki hugsaður sem langtímaskattur.

Hv. 1. þm. Reykv. spurði mig einnig að því, hvort ég hefði breytt um skoðun á ástæðunum fyrir því, að skatturinn væri skaðlegur. Ég hef ekki breytt um skoðun á því. Ég tel að hann sé óheppilegur, alveg sérstaklega fyrir dreifbýlisverslunina í landinu sem hefur barist í bökkum, a.m.k. æðivíða, sérstaklega þó í mesta strjálbýlinu. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar enn, að þetta sé ekki heppilegur skattur þótt við höfum tekið aðrar skattalækkanir fram yfir þessa í þessari lotu í sambandi við samkomulag um ráðstafanir í efnahagsmálum.