21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að fjölmenn ráðstefna var haldin nýlega hér í miðborginni, nánar tiltekið á Hótel Borg, og hefðu aðilar að ríkisstj. haft gott af því að sitja þá ráðstefnu og hlusta á það sem fram fór þar, þau varnarorð sem voru töluð af sérfróðum mönnum um málefni Reykjavíkurborgar og þá sérstaklega vandamál miðborgarinnar, — þau varnarorð, sem þar voru töluð, og þau ráð, sem þar voru gefin. Það var líka rétt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég var þar ráðstefnustjóri og til mín var beint þeim skilaboðum að mér væri treyst til þess, að málið færi ekki hljóðalaust í gegnum þingið, og var þá átt við það frv. sem hér er til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Athugasemdir, sem þar komu fram eru náttúrlega mótmæli gegn 1. gr. þessa frv. sem ég held að öllum fundarmönnum hafi fundist afskaplega ósanngjörn. Það voru ekki aðeins uppi mótmæli gegn of háum fasteignagjöldum í Reykjavík. Það var almennt talið að hin háu fasteignagjöld og hið háa lóðamat í miðborg og miðborgarkjarna höfuðborgarinnar komi í veg fyrir framkvæmdir og komi í veg fyrir að borgin byggist eðlilega upp, komi jafnvel í veg fyrir það,, að það verði búið í miðborginni, og sé aðalástæðan fyrir því, að miðborg Reykjavíkur, höfuðborgarinnar, er að deyja út. Það er stutt í að íbúðir fyrirfinnist ekki í miðborginni. En í 1. gr. segir svo, með leyfiforseta:

„Eigendur þeirra fasteigna, sem nýttar eru við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds, skulu á árinu 1982 greiða sérstakan eignarskatt til ríkissjóðs.“

Það er ekki nóg að greiða eignarskatt, heldur þarf að greiða „sérstakan eignarskatt“. Það þarf að greiða eignarskatt A og eignarskatt B. Svona heldur skattheimtan áfram undir annaðhvort nýjum nöfnum eða nýjum töluliðum.

Hæstv. samgrh. sagði hér áðan að skattheimtan hefði verið til þess að draga úr fjárfestingunni. Það var, ef ég má orða það þannig „mótíverað“ í upphafi að það mundi verða til góðs fyrir þjóðfélagið að draga úr fjárfestingu og þá helst í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. En er það rétt? Er það til góðs? Er hæstv. ráðh. gersamlega blindur á að við svona stefnu verður fjárfesting í verslunar- og atvinnuhúsnæði erfið og jafnvel illmöguleg nema þá með dýru lánsfé sem ekkert fyrirtæki stendur undir í dag, enginn rekstur stendur undir? Halda hæstv. ráðh. í ríkisstj. að það sé leiðin til að skapa ný atvinnutækifæri að gera fjárfestingu í atvinnuvegunum hvað erfiðast fyrir? Nei, ég held að það komi í veg fyrir, að ný atvinnutækifæri séu sköpuð á vegum atvinnuveganna, að nýir og nýir skattar eru lagðir á ofan á aðra skatta sem fyrir eru. Hæstv. ríkisstj. verður einfaldlega að takmarka útgjöld sín, en ekki auka skattbyrðina á þann hátt á fyrirtækjum frekar en einstaklingunum.

Skatturinn er því ekki bara ranglátur, hann er hættulegur. Hann er stórhættulegur og kemur — ég undirstrika það — í veg fyrir að ný atvinnutækifæri séu sköpuð. Þess vegna á að leggja hann niður. Það á ekki áð samþykkja þetta frv.

Hæstv. viðskrh. var enn þá athyglisverðari í ræðustól áðan. Hann byrjaði á því að lýsa yfir að hann væri gegn sérsköttun þessari á verslunina og atvinnureksturinn, en sagði beinum orðum að hann og þá Framsfl. hefðu samþykkt þennan skatt til að þóknast Alþb. í samsteypustjórn. Þetta eru stór orð og furðuleg. Það er skilyrði í málefnasamningi að Framsfl. skuli láta af sinni lífsskoðun, láta af því, sem hann trúir á, og gera það, sem hann trúir að sé ekki rétt. Þetta er alveg furðuleg yfirlýsing, ef svo mætti að orði komast.

Ég held að það væri rétt af Framsfl. að taka í þessu tilfelli höndum saman við Sjálfstfl. og fella þetta frv., miðað við að það er komið fram hjá tveimur ráðherrum að þeir séu í eðli sínu á móti þessari skattlagningu, en verði að samþykkja hana til að halda stjórnarsamstarfi og samvinnu áfram við Alþb. Þetta er mjög athyglisvert. Ég mundi ráðleggja þeim hæstv. ráðh. að vera trúir sinni lífsskoðun, þeirri lífsskoðun sem þeir hafa báðir lýst hérna á móti þessum skatti, en ekki að selja sálu sína fyrir áhrif í stjórnmálum.