21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4064 í B-deild Alþingistíðinda. (3616)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég skal ekki bæta miklu við þessa umr.

Ég heyrði að hv. 1. þm. Reykv. talaði um skattagleði Framsfl. Ég man vel eftir því, að þegar ég var fjmrh. hugsaði ég meira um þessi mál, skattamálin, sérstaklega. Þá var ég stundum að rekja hvað skattbyrðin væri mikil. Þá var skattbyrðin í kringum 29% til ríkisins af þjóðartekjunum-kringum það, en nú líklega rúmlega 28%, ef ég man rétt. En ég benti oft á það í dellum um þessi mál, sérstaklega varðandi skattagleðina, að á árinu 1975, þegar hv. 1. þm. Reykv. var forsrh. og fjmrh. var úr hópi Sjálfstfl., námu ríkisútgjöldin yfir 31%, ekki 28.5 eða 29%, heldur yfir 31%. Sé það skattagleði að leggja á þjóðina skatta sem nema rúmlega 28% af þjóðartekjunum, þá er það vissulega skattagleði að hafa í einn tíma ríkisútgjöld sem námu yfir 31%.

Varðandi málið að öðru leyti er það svo í samsteypustjórnum og samsteypustjórnarsamstarfi flokka, að menn verða auðvitað að velja og hafna. Annars verða engar samsteypustjórnir. Menn þurfa að samþykkja mál sem þeir eru ekki að stefnu til fylgjandi og mundi ekki samþykkja ef menn hefðu einir meiri hl., en verða að taka tillit hver til annars. Sjálfstfl. hefur t.d. allajafna haft geysilega mikinn áhuga á því að koma á frjálsu verðlagi í landinu. Ég minnist þess, að þegar hann var í stjórnarsamstarfi við Alþfl. í kringum 1970, 1969 var það, gerðist það að búið var að undirbúa frv. til l. um verðlag og samkeppnishömlur o. fl. sem Sjálfstfl. taldi gífurlega mikið „prinsip“-mál af sinni hálfu að næði fram að ganga. Þá minnist ég þess að það var fellt af einum þm. og raunar þáv. ráðh. Alþfl. á sínum tíma og málið gekk ekki fram. Sjálfstfl. sleit ekki stjórnarsamstarfinu þrátt fyrir það að þetta mál væri mjög þýðingarmikið mál fyrir flokkinn — ákaflega þýðingarmikið. Þetta er aðeins dæmi um að auðvitað verða flokkar, þegar þeir taka þátt í samsteypustjórnum, að gera ýmislegt fleira en það sem mönnum gott þykir. Væri auðvitað hægt að nefna tugi og hundruð dæma af þessu tagi. (Gripið fram í: Hver var afstaða hæstv. ráðh. þá?) Ég var ekki á þingi þá, en ég hef alltaf verið fylgismaður frjálsara verðlags. Ég hef verið það og hef marglýst því yfir, en var ekki á þingi þá, ef ég man rétt.

Ég vil að lokum aðeins endurtaka það og undirstrika, að í sambandi við samninga nú um ráðstafanir í efnahagsmálum töldum við framsóknarmennirnir þýðingarmeira, eins og málum er háttað, að lækka launaskattinn, að lækka stimpilgjald, sem er verulegur útgjaldaliður fyrir ýmsar atvinnugreinar, og síðan að fá samkomulag um yfirlýsingu um að samræma aðstöðugjaldið. Ég hef ekki hugmynd um hver er t.d. afstaða Sjálfstfl. í sambandi við aðstöðugjaldið, hvort hann er sammála þeirri yfirlýsingu ríkisstj., að það skuli samræmt. Ég veit það ekki. En það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv. að það verður ekki á þessu ári. Eigi að síður er það stefna ríkisstj. og hún hyggst sitja lengur en þetta ár, eins og margoft hefur verið yfirlýst af hæstv. forsrh.