21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4069 í B-deild Alþingistíðinda. (3625)

107. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt, enda var hæstv. ráðh. svo hógvær og hæverskur í tali sínu og umfjöllun um brtt. okkar að ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um. Í raun er hann sammála þeim öllum. Það eina, sem hann hefur á móti þeim, er að hann vill ekki festa þau atriði í lög um almannatryggingar. Nú má segja sem svo, að það er ekki það sem við erum að leggja til. Þetta er ákvæði til bráðabirgða sem er lagt til að verði með frv. sem hann sjálfur flytur um breytingu á þessum ágætu lögum. Við erum því ekkert að gera meira en kveða nánar á um hvað gera eigi. Hæstv. ráðh. segir að þetta sé allt í gangi. Nú er ekki víst að hann verði alltaf viðstaddur og gæti hrökklast úr ráðherrastól sínum jafnvel á næstu mánuðum eða misserum og þá væri gott fyrir komandi ráðh. að hafa þetta aðhald í sínú starfi, að þetta eigi að gera. Ég vænti þess, að hæstv. núv. heilbrrh. taki undir þá skoðun mína, að það sé ekki mjög víst að allir, sem eiga eftir að setjast í þetta sæti, sitji það jafnvel og hann gerir.

Varðandi Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og þau orð, sem hann lét falla um það, heyrði ég aldrei, og er þó í þeirri nefnd sem um þetta mál fjallaði, getið um neitt annað sjúkrahús, sem líkindi væru á að færi inn í fjárlög á næstunni, en þetta eina sjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Ef ekki liggur meira á en að þetta megi bíða enn frekar fæ ég ekki séð annað en það megi bara afgreiða það á einfaldan hátt við afgreiðslu fjárl. á komandi hausti. Er vel hægt að hugsa sér að það mætti þá taka fleiri sjúkrahús inn samkv. þeirri reglu að afgreiða þau í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. Við getum því hreinlega, þegar gengið verður til atkv. um þessi ákvæði til bráðabirgða, gengið til atkv. um þau þannig að 1. tölul. verði borinn upp sér. Hæstv. ráðh. telur hann óþarfan og eiga ekki heima, en hins vegar er hann að framkvæma hina tvo. Eins og ég segi tel ég að með því sé hann efnislega að taka undir þá og ég treysti því, að þeir fái þá góðan framgang í atkvgr. hjá þm. á eftir.