21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (3632)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt í Ed. og hefur gengið í gegnum þá deild og kemur hingað til þessarar hv. deildar óbreytt frá því sem það var lagt fram hér á þinginu fyrr í vetur. En ég vil geta þess, að þetta frv. um Blindrabókasafn var samið af nefnd sem skipuð var af ráðh. 12. febr. 1979. Nefndin skilaði áliti 28. apríl 1981 og síðan var frv. hennar tekið óbreytt upp af mér og flutt á þessu þingi í hv. Ed.

Frv. þetta felur í sér grundvallarbreytingu á eignarhaldi og rekstri bókasafns fyrir blinda í landinu. Kjarni málsins er sá, að bókaþjónusta fyrir blinda og sjónskerta og aðra, sem ekki geta lesið venjulegar bækur vegna fötlunar, verði sérstök starfsemi á vegum ríkisins og leysi af hólmi núverandi hljóðbókasafn Blindrafélags Íslands og Borgarbókasafns í Reykjavík, en það er stofnun sem starfað hefur síðan 1975.

Ég vil geta þess, að samtök blindra hófu bókagerð á blindraletri fyrir rúmlega hálfri öld eða í kringum 1930. Hins vegar hefur útgáfa á blindraletri verið ákaflega erfið og auk þess hefur það sýnt sig, að margt fólk, t.d. gamalt fólk, á erfitt með að læra blindraletur og tiltölulega fáir sem það kunna.

Í sambandi við þetta, að koma bókmenntum til blindra og sjónskertra, hafa viðhorf mjög verið að breytast á undanförnum árum með tilkomu segulbanda og nýrri upptökutækni og möguleikum til þess að dreifa lestrarefni á segulbandsspólum. Hefur aðstaðan auðvitað gerbreyst í þessum efnum, og í flestum menningarlöndum í nágrenni við okkur hefur verið leitast við að nýta þessar tækniframfarir í þágu þeirra sem ekki geta lesið venjulegar bækur vegna fötlunar. Íslendingar hafa fylgst með þessu að sínu leyti, og Blindrafélagið hefur reyndar sjálft haft forgöngu um að farið var að hljóðrita bækur vorið 1957 og kom þannig upp fyrsta vísi að hljóðbókasafni. Þessi starfsemi er nú orðin þegar 25 ára og hefur smám saman verið að aukast.

Í kringum 1970, fyrir 10–12 árum, fór Borgarbókasafn Reykjavíkur að viða að sér hljóðrituðum sögum frá Ríkisútvarpinu, og jafnframt því hafa nokkrar bækur verið lesnar sérstaklega á vegum safnsins. Lengi hefur þetta staðið þannig, að Borgarbókasafnið annast dreifingu hljóðbóka og greiðir ein laun tæknimanns, en Blindrafélagið leggur til tækjabúnað og húsnæði og efniskostnaði er skipt á milli þessara tveggja aðila. Þetta er sá háttur sem nú viðgengst um Hljóðbókasafn. Með þessu frv. er meiningin að breyta þessu þannig, að Hljóðbókasafn Borgarbókasafns og Blindrafélagsins verði lagt niður, en ríkið taki að sér þessa þjónustu. Það hefur greinilega komið í ljós á þessum 25 árum og vel það, sem þessi þjónusta hefur starfað, að mjög mikil þörf er fyrir þessa starfsemi, og það er engan veginn hægt að fullnægja eftirspurninni. Þess vegna er kominn tími til að efla starfsemina og finna henni nýjan grundvöll. Með þessu frv. er einmitt stefnt að því. Með framtaki Blindrafélagsins og fyrir áhuga forráðamanna Borgarbókasafnsins í Reykjavík hefur verið unnið ómetanlegt brautryðjendastarf á þessu sviði, en nú sýnist okkur kominn tími til þess, að ríkið veiti meiri og fastmótaðri liðveislu í því að halda uppi bókaþjónustu fyrir blinda.

Ég vil leyfa mér að benda á það, að allt fram á síðustu ár hefur ríkið ekki veitt þessari starfsemi neitt umtalsvert fé. Framtak í þessum efnum hefur fyrst og fremst orðið fyrir frjálsa félagastarfsemi og fyrir góðan skilning Borgarbókasafnsins í Reykjavík. Auk þess hefur Ríkisútvarpið lagt þessu máli alveg ómetanlega liðveislu. Eins má segja að íslenskir rithöfundar hafi sýnt mikla tilhliðrunarsemi í sambandi við höfundarrétt og gefið hann yfirleitt, og þessi starfsemi hefur verið framkvæmd fyrir sérstaka hjálpsemi fjölda sjálfboðaliða.

Ríkissjóður hefur, eins og ég segi, veitt mjög óverulegt fé til bókagerðar fyrir blinda, gerði það nokkuð að styrkja útgáfu bóka á blindraletri, en það er ekki fyrr en árið 1978 sem Blindrafélagið fær styrk á fjárlögum, sem þá var 1.2 millj. gkr., til hljóðbókagerðar. Árið 1979 féll þetta framlag niður. Á fjárlögum fyrir 1980 voru veittar 4 millj. gkr. til hljóðbókagerðar, og á fjárlögum fyrir árið 1981 var þessi upphæð komin í 80 þús. Á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er fjárveitingin 222 þús. kr., þannig að þessar tölur hafa smám saman verið að hækka nú allra síðustu árin.

Í þessu frv. segir í 8. gr. að kostnaður við starfsemi Blindrabókasafns skuli greiðast úr ríkissjóði eftir því sem fé verður veitt í fjárlögum. Ég vil því benda á að hér er ekki verið að marka stefnu um bundnar fjárhæðir, heldur er fjárveitingavaldinu ætlað að ákveða frá ári til árs hversu miklu fé skuli varið í þessu skyni. Og þó að í 4. gr. sé gert ráð fyrir að stjórn Blindrafélagsins geri framkvæmdaáætlanir og beri ábyrgð á starfsemi og fjárreiðum stofnunarinnar, þá er auðvitað alveg ljóst á 8. gr. að fjárráð og framkvæmdageta hlýtur að miðast við fjárveitingar hverju sinni. Það er þess vegna ekki hægt að halda því fram, að hér sé verið að binda ríkinu ófyrirséða bagga, og augljóst að það er í höndum fjárveitingavaldsins að koma þessu máli áfram, sem ég tel reyndar mjög brýnt að verði og sé kominn tími til þess að heimildarlög séu til um þetta málefni. Hér er um mjög mikið — ég vil ekki segja endilega mannúðarmál, heldur er hér

um að ræða sjálfsagða þjónustu við það fólk sem er fatlað, sem er blint eða á einhvern hátt þannig fatlað, að það getur ekki lesið bækur, og það er því miður allstór hópur manna, ekki síst margt gamalt fólk. Og eins og ég sagði fyrr hefur komið í ljós að gamalt fólk á mjög erfitt með að tileinka sér blindraletur, en aftur á móti yfirleitt fullt gagn af því að nota svokallaðar hljóðbækur.

Ég held, herra forseti, að ég hafi þessi orð ekki fleiri nú. Ég gerði miklu rækilegri grein fyrir þessu máli í framsögu fyrir því í Ed. Auk þess eru ítarlegar athugasemdir sem fylgja frv., og ég vísa til þess sem þar stendur. Einnig vil ég minna á það, sem áður hefur komið fram, að hv. Ed. hefur fjallað um málið mjög ítarlega og samþykkt frv. óbreytt eins og það var lagt fyrir. Þannig liggur það nú fyrir þessari hv. deild. Ég vænti þess, að þetta frv. fái góða afgreiðslu í þessari hv. deild eins og var í Ed. þó stutt sé til þingloka. Ég vænti þess, að málinu verði vísað til 2. umr. og menntmn. þegar umr. er lokið.