21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4074 í B-deild Alþingistíðinda. (3639)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. menntmn. og brtt. nefndarinnar við frv. til laga um námslán og námsstyrki, sem er 155. mál Nd. Er frv. á þskj. 192, nái. á þskj. 667 og brtt. á þskj. 668.

Nefndin hefur rætt frv. á allmörgum fundum og leitað eftir og fengið umsagnir um það frá ýmsum aðilum. Einnig hefur hún fengið menn til viðtals út af einstökum atriðum frv. Nefndin hefur orðið sammála um að gera nokkrar breytingar á frv. eins og sést á þskj. 668.

Hæstv. dómsmrh. Friðjón Þórðarson gat ekki verið viðstaddur afgreiðslu málsins. Einnig gat hv. þm. Guðrún Helgadóttir ekki verið viðstödd lokaafgreiðslu málsins vegna opinberra erinda erlendis, en hefur óskað að þess yrði látið getið hér, að hún væri samþykk frv. með þeim breytingum sem á því voru gerðar meðan hún gat setið fundi nefndarinnar. En ég mun síðar gera grein fyrir því, hver breyting var gerð á fundi eftir að hún hafði ekki lengur tækifæri til þess að tjá sig endanlega um það, og er hún að sjálfsögðu óbundin af þeirri breytingu.

Nefndin gerir brtt. við 2. mgr. 3. gr., að hún orðist eins og stendur á þskj. Greinin fjallar um lífeyrisréttindi þeirra sem lán fá frá lánasjóði. Brtt. hnígur í þá átt, að þeir, sem taka ekki lán til náms eða framfærslu sér, eigi þess kost að taka lán til iðgjaldagreiðslu til lífeyrissjóðs, sem í þessu tilfelli er gerð till. um að verði Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda er þegar starfandi, og þar sem ekki er vitað til hvers lífeyrissjóðs námsmenn komi til með að greiða í framtíðinni, þegar þeir hafa lokið námi, þótti nefndinni að þetta væri eðlilegur sjóður, sem þeir greiddu í þar til þar að kæmi, að þeir færu út á vinnumarkaðinn og þeirra lífeyrissjóður yrði ákvarðaður.

Nefndin gerir einnig till. um breytingu á 7. gr. frv. Er hún í tveimur stafliðum. Í frv. er sagt að ábyrgð ábyrgðarmanns samkv. 3. mgr. 6. gr. falli niður þegar fyrsta greiðsla hefur að fullu verið greidd. Eftir það er lánþegi einn ábyrgur fyrir greiðstu heildarskuldar.

Nefndinni þótti ekki eðlilegt að þessi háttur væri hafður á með skuldara, að öll ábyrgð vegna tekinna lána félli niður. Það tíðkast yfirleitt ekki í þjóðfélaginu, að menn geti tekið lán og á einhverjum ákveðnum tíma féllu allar ábyrgðir niður og síðan verið við hann einan að eiga hvort greiðsla tæri fram eða ekki. Þess vegna hefur nefndin gert það að till. sinni, að í stað tveggja síðustu málsliða 3. gr. komi: „Ábyrgð ábyrgðarmanns samkv. 3. mgr. 6. gr. getur fallið niður þegar fyrsta greiðsla hefur að fullu verið innt af hendi, enda setji lánþegi aðra tryggingu fyrir lánum, sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.“ Ég sé ekki að þessi till. þarfnist frekari skýringa.

Í b-lið þessarar till. leggjum við til að einu orði verði bætt inn í. Í frv. stendur: „Sjóðsstjórn er heimilt að veita námsmönnum lánsaðstoð til bráðabirgða með víxilkaupum gegn venjulegum víxilvöxtum, sbr. 1. mgr. 6. gr.,“ en við gerum að till. okkar að greinin verði þannig: „Sjóðsstjórn er heimilt að veita námsmönnum lánsaðstoð til bráðabirgða með víxilkaupum gegn venjulegum víxilvöxtum og ábyrgð tveggja manna.“ Við erum sem sagt þarna sama sinnis, að það sé eðlilegt að við þessar lántökur eins og allar aðrar lántökur sé ábyrgð viðhöfð.

Einnig gerum við till. um breytingu á 8. gr. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir var ekki við þá afgreiðslu og ber þar af leiðandi ekki ábyrgð á þeirri breytingu. Er þar gerð sú breyting að í stað endurgreiðslutíma á 30 árum komi 40 ár. Það hefur sýnt sig á þeim útreikningum, sem á endurgreiðslu lána hafa verið gerðir, að ef lán eru há og farið eftir þeim endurgreiðslureglum sem frv. gerir annars ráð fyrir, þá vantar mjög mikið upp á að þessi lán greiðist að fullu. En eitthvað ætti þetta að lagast ef bætt væri við þennan árafjölda, enda gefur 8. gr. að mati nefndarinnar fullnægjandi heimildir til handa stjórninni að veita undanþágur frá fastri ársgreiðslu. Ef um það væri að ræða, sem vel gæti verið, ekki síst nú eftir að menn eru farnir að fara í svo og svo langt nám, fullorðnir menn, að aldur gæti þarna verið til trafala greiðslu, telur nefndin að 8. gr. gefi stjórn sjóðsins fullnægjandi heimildir til að undanþiggja viðkomandi endurgreiðslu ef aldur hamlar.

Þá gerir nefndin að lokum brtt. við 12. gr. frv., 3. málslið. Hún hljóðar þannig í frv.: „Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðsstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánaheimild má veita honum styrk úr sjóðnum“ o.s.frv. Við gerum till. um að skotið sé þarna inn í: má veita honum aukalán eða styrk úr sjóðnum o.s.frv.

Fleiri till. hefur nefndin ekki gert við .frv. og það er samdóma álit nefndarinnar, eins og kemur fram í nál., að hún mælist til þess, að það verði samþykkt með þessum breytingum.

Eins og hæstv. menntmrh. gerði grein fyrir í framsögu með frv. felur frv. í sér endurskoðun á gildandi lögum um námslán og námsstyrki, nr. 57/1976. Frv. er í 17. greinum og að auki ákvæði til bráðabirgða. Hefur nefndin gert fimm brtt. En það verður að segjast eins og er, að það efni, sem hér er fjallað um, er á engan hátt einfalt eða auðveldlega ákvarðað hvernig með skuli farið, þar sem misjöfn sjónarmið eru í þjóðfélaginu um gildi menntunar, mat menntunar gagnvart viðkomandi einstaklingi og gagnvart þjóðfélaginu í heild.

Nefndin hallast að því sjónarmiði, að menntun eigi að vera einstaklingnum og þjóðfélaginu til heilla og hagsældar og því beri að styðja við bakið á þeim sem til þess eru færir og til þess hafa vilja að afla sér menntunar. Jafnframt gerir nefndin allmiklar kröfur til þeirra, sem styrks eða fyrirgreiðslu njóta frá samfélaginu, um endurgreiðslu og leggur nokkra áherslu á, eins og brtt. bera með sér, að sú fyrirgreiðsla, sem þjóðfélagið veitir þeim sem menntunar njóta, verði endurgreidd að verulegum hluta.

Þessi atriði, þ.e. að hve miklu leyti kostnaður við menntun skuli greiddur úr hinum sameiginlega sjóði og að hve miklum hluta af viðkomandi einstaklingi, verða eflaust um langa framtíð deiluefni meðal manna, hópa og þjóða. Menntmn. hefur — eflaust af veikum mætti reynt að meta þessi atriði á sinn hátt. Er niðurstaða hennar ljós á meðfylgjandi brtt. og einnig því, að hún mælir með samþykkt frv.

Nefndinni þykir eðlilegt að ekki séu gerðar snöggar eða örar breytingar á þessu sviði. Þá gætu komið upp atvik sem enginn óskaði eftir eða engan óraði fyrir. Með þeim brtt., sem nefndin gerir við frv., þykir henni að farið sé hógværlega í sakirnar og tillit sé tekið til hinna ýmsu tilvika sem upp geta komið og eflaust koma upp þegar árin liða.

Nefndin hefur reynt, eftir því sem kostur var, að meta hag þjóðfélagsins og einstaklingsins í sambandi við menntun.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til 3. umr.