21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4076 í B-deild Alþingistíðinda. (3640)

155. mál, námslán og námsstyrkir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var mjög gott samkomulag í nefndinni um þetta mál, og ég hygg að með þeim breytingum, sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv.; sé það þannig úr garði gert, að það geri hvort tveggja í senn: að fullnægja þeim tilgangi, sem gera verður til námslána og námsstyrkja, og tryggja sæmilega vel að eðlilegar endurgreiðslur geti átt sér stað hjá þeim lánþegum sem hafa fjárhagsleg skilyrði til þess að endurgreiða námslánin, — á hinn bóginn séu fullnægjandi fyrirvarar í frv. varðandi þá aðila sem missa heilsu sína eða af öðrum orsökum hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að standa í skilum við lánasjóðinn.

Ég vil jafnframt við þetta tækifæri lýsa því yfir, að það hefur orðið mjög ánægjuleg þróun í sambandi við innheimtu gjaldfallinna lána hjá lánasjóði, og þetta frv. er spor í þá átt að svo geti áfram haldið.

Ég vil við þetta tækifæri aðeins lýsa yfir, að sú skoðun kom fram í nefndinni, að nauðsynlegt væri að sú skipan, sem verið hefur á svokölluðum dreifbýlisstyrkjum, verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar og samræmd reglum lánasjóðsins. Það er ekki fyrir það að synja, að á stundum koma dreifbýlisstyrkirnir þannig út að þeir verka sem átthagafjötrar á fátæka námsmenn vegna þeirrar samræmingar sem orðið hefur á framhaldsskólanum og eins og að þessum málum er staðið.

Ég hygg að námslán og námsstyrkir og dreifbýlisstyrkir þurfi allt að vera undir einum hatti, samræma þurfi reglurnar betur svo að betri heildarsýn fáist.

Ég held, herra forseti, að óþarfi sé að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti þess, að málið nái fram að ganga á þessu þingi.