21.04.1982
Neðri deild: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (3644)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar. Kirkjuráð var stofnað samkv. lögum nr. 21 frá 1931 að tillögu kirkjumálanefndar þeirrar sem skipuð var 1929. Hefur kirkjuráð nú starfað um hálfrar aldar skeið. Til kirkjuþings var stofnað með lögum nr. 43 frá 1957. Hefur það nú starfað nálega aldarfjórðung. Þessar tvær stofnanir þjóðkirkjunnar hafa leyst af hendi mikilvæg störf sem horft hafa til heilla fyrir kirkjuna. Býr kirkjuþing enn við fyrstu lögin, lítið breytt, sem um það voru sett. Lögin um kirkjuráð frá 1931 voru endurskoðuð í tengslum við frv. til laga um kirkjuþing. Voru ákvæðin um kirkjuráð felld inn í kirkjuþingslögin og komu þau í stað laga nr. 21 frá 1931.

Endurskoðun sú, sem nú hefur farið fram á lögum nr. 43 frá 1957, eins og þeim var síðar breytt, er reist á afstöðu kirkjuþings, eins og hún lýsir sér í frv. um breytingar á lögum þessum, er samþykkt var 1976, og í ályktunum þess í nóv. 1980 um tímabærar breytingar á lögunum. Kirkjuráð hefur einnig fjallað um frv. og samþykki það. Þess skal og getið, að starfsháttanefnd þjóðkirkjunnar vann mikið verk við athugun m.a. á kirkjulöggjöf og samdi drög að frv., þ. á m. varðandi kirkjuþing og kirkjuráð.

Helstu breytingar skal ég nefna í örfáum orðum.

1. Lagt er til að kjörnum kirkjuþingsmönnum verði fjölgað um fimm. Bætt verði við tveimur í Reykjavíkurprófastsdæmi (1. kjördæmi) og myndað verði nýtt kjördæmi, Kjalarnesprófastsdæmi, og verði þá 2. kjördæmi skipt í tvö kjördæmi, þ.e. Kjalarnesprófastsdæmi, er verður 2. kjördæmi, og Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi, er verður 3. kjördæmi. Enn fremur er lagt til að guðfræðikandídatar og prestar, sem gegna föstum störfum í þágu þjóðkirkjunnar án þess að bera ábyrgð á prestakalli, kjósi úr sínum hópi einn aðalmann og tvo varamenn til setu á kirkjuþingi. Verður þessi hópur þá kjördeild með sama hætti og guðfræðideild að sínu leyti.

Breyting sú á kjördæmunum, sem hér var reifuð, styðst við augljós rök. Reykjavíkurprófastsdæmi er langfjölmennasta prófastsdæmi landsins með rösklega 21/2 sinnum fleiri íbúa en næststærsta prófastsdæmið, Kjalarnesprófastsdæmi, en það er aftur nálega tvisvar sinnum mannfleira en þriðja stærsta prófastsdæmið, Eyjafjarðarprófastsdæmi. Hefur lengi verið ljóst að fulltrúatala úr Reykjavíkurprófastsdæmi hefur verið of lág og að nauðsyn bæri til þess, að Kjalarnesprófastsdæmi yrði sjálfstætt kjördæmi við þingkosningar. Hefur náðst samstaða á kirkjuþingi um þá tilhögum þessara mála sem greinir í frv.

Lagt er til að kjörtímabilið verði 4 ár, en ekki 5 ár eins og nú er.

2. Í 2. gr. frv. er lagt til að vígslubiskupar eigi rétt til fundarsetu á kirkjuþingi. Með því nýtist starfsreynsla þeirra í þágu kirkjuþings.

3. Lagt er til í 1. gr. frv. að kirkjuþing komi saman ár hvert, en ekki annað hvert ár eins og verið hefur. Starfstími verði hins vegar styttur, verði nú allt að 10 dögum en ekki allt að hálfum mánuði eins og nú er.

Ýmis vandkvæði eru því samfara, að þingið starfi aðeins annað hvert ár. T.d. er þá ógerlegt að leita umsagnar þingsins um ýmis mál sem upp kunna að koma milli þinga, og þingið getur ekki markað stefnu í málefnum þjóðkirkjunnar með jafnskilvirkum hætti og þörf er á og fylgt henni eftir. Eðlilegt er að kirkjuþing móti í megindráttum stefnu í tillögugerð um fjárveitingar til þjóðkirkjunnar, en þess er ekki kostur miðað við þann starfsgrundvöll sem nú er lögmæltur. Yfirleitt er það almenn regla, að fulltrúasamkomur haldi fundi a.m.k. einu sinni á ári, og reynslan sýnir að þess er þörf ef slík þing eiga að geta valdið hlutverki sínu til hlítar.

4. Til viðbótar þessu felast svo í frv. ýmsar smærri breytingar, þ. á m. um ýmislegt er varðar kosningu til kirkjuþings. Verður vikið að þeim athugasemdum síðar ef þörf krefst.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta frv., en legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.