23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4082 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

217. mál, jarðalög

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breytingu á jarðalögum er fylgifrv. þess frv. um breytingar á ábúðarlögum er ég mælti fyrir næst á undan síðasta dagskrárlið.

Frv. gerir ráð fyrir þeim breytingum á jarðalögum, að jarðanefndum verði ætlað það verkefni að gera tillögur um land eða landssvæði til byggingar sumarbústaða einstaklinga, orlofshúsa stéttarfélaga og almennra útivistar ef sóst er eftir landi í því skyni. Einnig geti jarðanefnd heimilað not landa undir rekstur orlofshúsa fyrir félagsmenn stéttarfélaga ef óskir komi fram um það og ekki er álitið að það muni rýra til muna kosti hlutaðeigandi jarða til búskapar.

Þetta er það efni sem í frv. felst og um það var fullt samkomulag þeirra aðila sem að undirbúningi málsins unnu. Ég vænti þess, að hv. deild sjái sér fært að afgreiða málið eins og það er lagt fram. Frv. hefur hlotið afgreiðslu hv. Nd. eins og það var lagt þar fram fyrr á þessu þingi.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr. og til hv. landbn.