23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4084 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

281. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu í þessari hv. deild leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Frv. þetta er flutt fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl.

Þingmenn flokksins í stjórnarandstöðu hafa ítrekað flutt frv. og brtt. um skattamál á undanförnum þingum. Þetta frv. er einvörðungu um tekju- og eignarskatt og felur í sér nokkuð fá og afmörkuð grundvallarstefnumið sem Sjálfstfl. hefur fyrr og síðar lagt áherslu á sem áfanga í átt til gagngerrar breytingar og einföldunar á tekjuöflunarkerfi hins opinbera og þar með skattalögum. Þessi grundvallarstefnumið eru:

Í fyrsta lagi að jaðarskatti sé svo stillt í hóf að hann lami ekki athafnaþrá og vinnuframlag manna. Hér er gerð tillaga um að skattar af síðustu tekjum fari ekki fram úr 40% til ríkisins og verði því ekki hærri en rúmlega 50% að meðtöldu útsvari — í stað þess að vera talsvert yfir 60% — og nú eftir að frv. til l. um verðtryggðan skyldusparnað er komið fram er ætlunin að ríkið ráðstafi 70% af síðustu tekjum skattborgaranna samkv. lögum.

Annað grundvallarstefnumiðið er að tekjuskattur á almennar launatekjur verði felldur niður í þessum áfanga. Nánari skilgreining er sú, að kvæntir verkamenn og iðnaðarmenn með meðaltekjur verði tekjuskattsfrjálsir til ríkisins, svo sem fram kemur í útreikningi Þjóðhagsstofnunar í fskj. með frv.

Þriðja meginatriðið er að eignarskattar verði stórlega lækkaðir. Eignarskattar eru nánast sérstakur skattur á sparnað fyrri ára í flestum tilvikum. Eignarskatta til ríkisins, t.d. á eigin íbúðir, á því að afnema. Hér er lagt til að skattstigar og skattleysismörk eignarskatta verði þau sömu og 1977 og lækki skattbyrðina í það sem hún var áður en vinstri stjórnin breytti skattalögunum haustið 1978.

Fjórða meginatriðið er að fólk verði hvatt til beinnar þátttöku í atvinnulífinu með því að skattleggja arð af hlutabréfum á sem hliðstæðastan hátt og annan sparnað, t.d. í formi ríkisskuldabréfa.

Fimmta meginatriðið er að allt atvinnulíf verði örvað með því að létta af því sköttum að nokkru marki og lækka skattstiga í 53% af félögum, eins og gilti þegar sjálfstæðismenn báru ábyrgð á ríkisfjármálum.

Að sjálfsögðu koma mörg önnur atriði til greina við endurskoðun skattalaga og vísast um sum þeirra til tillögugerðar flokksins á fyrri þingum og einstakra þm. á yfirstandandi þingi. Þess er nú á hinn bóginn freistað að setja fram framangreind fá og afmörkuð grundvallaratriði í skattamálastefnu Sjálfstfl. til umfjöllunar og afgreiðslu á þessu þingi.

Við afgreiðslu fjárlaga var því lýst yfir af hálfu Sjálfstfl., að hann mundi flytja tillögu fyrir þinglok um lækkun tekju- og eignarskatta. Þá þegar lá fyrir að tekjuhækkun milli áranna 1980 og 1981 yrði 52–53% og tekjuskattar og útsvarsstofn hækka samkv. því. Flest bendir til að svo verði. T.d. hækka tekjur í Reykjavík um 54% milli áranna 1980 og 1981 samkv. nýjustu áætlunum. Auk þess hefur Þjóðhagsstofnun nýverið gefið út bækling um ástand og horfur í efnahagsmálum og þar kemur fram að nýjustu áætlanir eru að tekjur hækki um 53% milli ára á hvern framteljanda. Engu að síður var skattvísitala einungis hækkuð með atbeina stuðningsliðs ríkisstj. um 50% og þar með skattstigar og frádráttarliðir einungis hækkaðir um það hlutfall. Útreikningar sýna að tekjuskattur, sjúkratryggingagjald og eignarskattur verða um eða yfir 100 millj. kr. hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir vegna þessara breyttu forsendna að óbreyttum skatttekjum og skattvísitölu.

Samkvæmt fjárlögum og lauslegum útreikningum Reiknistofnunar Háskólans sundurliðast þessi hækkun skatta þannig: Innheimtur tekjuskattur hækkar um 109 millj. kr., sjúkratryggingagjald um 1.5 millj. og eignarskattur um 3 millj. kr. Samtals yrði þessi hækkun því um 113.5 millj. kr. Skylt er að geta þess, að samkvæmt viðtölum við sérfræðinga Þjóðhagsstofnunar gæti þessi skattahækkun orðið nokkru minni í reynd. Verður hér reiknað með að álagning tekju- og eignarskatts gæti orðið 80–90 millj. kr. meiri en fjárlög gera ráð fyrir að óbreyttum lögum og skattvísitölu.

Eftir að fjárlög hafa verið afgreidd hefur ýmsum ákvæðum laga, er varða tekjuöflun ríkissjóðs, verið breytt svo sem kunnugt er og nýir skattar lagðir á og aðrir boðaðir en lækkun orðið á öðrum. Nýjustu upplýsingar benda til þess, að í heild yrði skattheimta ríkisins af þessum sökum um 150 millj. kr. meiri en fjárlög gera ráð fyrir. Er þá ekki meðtalinn verðtryggður skyldusparnaður, en frv. um það efni liggur fyrir Alþingi svo sem kunnugt er. Þessi niðurstaða fæst á eftirfarandi hátt: Tollafgreiðslugjald er áætlað 54 millj. kr., söluskattur ofan á tollafgreiðslugjald 19 millj. kr., framleiðslugjald á sælgæti og kex 8 millj. kr., skattar á innlánsstofnanir 50 millj. kr., tekju- og eignarskattur 90 millj. kr. Á móti vegur að lækkaður er launaskattur um 30 millj„ stimpilgjöld um 20 millj. og lækkun tolla 22 millj. kr. Hækkunin nemur nettó 149 millj. kr.

Eftir þessar tilfæringar frá því að fjárlög voru samþykkt um áramót kemur svo frv. um 6% skyldusparnað, eins og ég gat um áðan, en gert er ráð fyrir að það gefi 35 millj. kr.

Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar voru meðaltekjur í fyrra, sem skattar leggjast á, hjá kvæntum verkamanni 128 þús. kr. og hjá kvæntum iðnaðarmanni 140 þús. kr. Að óbreyttum lögum greiddi kvæntur iðnaðarmaður með tvö börn 4866 kr. í tekjuskatt og 19 953 kr. í heildartekjuskatta af þessum tekjum með útsvari og sjúkratryggingagjaldi. Samkv. frv. yrði hann nánast tekjuskattslaus til ríkisins og heildarskattar hans lækkuðu um 4350 kr. Kvæntur verkamaður með tvö börn greiddi 1086 kr. tekjuskatt og 13 074 kr. í heildattekjuskatta. Samkvæmt frv. yrði hann tekjuskattslaus til ríkisins og skattar hans lækkuðu í heild um 3810 kr. Í grg. með frv. er nákvæmur útreikningur Þjóðhagsstofnunar á þessum dæmum.

Sé litið á heildarskattbyrðina mundi hún minnka samkv. frv. um nálægt 325 millj. kr. í tekjusköttum og 75 millj. kr. í eignarsköttum. Samkvæmt lauslegri áætlun um tekjuskatta á félög lækkuðu þeir um 20 millj. kr. og eignarskattur þeirra um 30 millj. Tekjutap ríkissjóðs yrði því um 450 millj. kr. brúttó samkv. þessum tillögum. Skattahækkun frá fjárlögum er á hinn bóginn 150 millj. kr. samkvæmt framansögðu. Niðurskurðarvandinn yrði því nálægt 300 millj. kr., sem er hliðstæð upphæð aukningu niðurgreiðslna sem ríkisstj. áformar á þessu ári.

Fordæmi eru fyrir því, að launþegasamtök hafi fallist á lækkun verðbóta á laun vegna skattalækkana. Slíkt gerðist t.d. í desember 1978. Ekki virðist úr vegi að ríkisstj. ræddi þá leið við launþegasamtökin að lækka skatta a.m.k. að hluta í stað þeirrar hrikalegu aukningar niðurgreiðslna sem áformuð er. Sjálfstæðismenn hafa áður lýst sig reiðubúna til samstarfs í fjvn. og á Alþingi um að skera niður ríkisútgjöld í því skyni að ná fram fyrrgreindum grundvallarsjónarmiðum og skattalækkun sem þetta frv. felur í sér.

Samkvæmt þessu frv. hækka skattleysismörk verulega, eins og að líkum lætur, og í grg. frv. eru sett fram dæmi um það. Skattleysismörk einhleypings eru nú aðeins 57 600 kr., þannig að maður, sem er með hærri tekjur en það, lendir í tekjuskatti af aðeins 57 600 kr. En samkv. frv. hækkuðu þessi mörk í 67 þús. kr. sem dæmi. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þessi dæmi frekar þar sem þau eru rakin mjög ítarlega í grg.

Sjálfstfl. hafði á hendi, sem kunnugt er, forræði ríkisfjármála frá 1974 og fram á haust 1978, en þá tók við önnur vinstri stjórnin á síðasta áratug. Ég sé ástæðu til að rifja upp í örstuttu máli stefnuna í skattamálum sem ríkt hefur síðan:

Frá því vinstri stjórnin kom til valda haustið 1978 hefur nýjum og hækkuðum sköttum rignt jafnt og þétt yfir almenning. Sú ríkisstj. hóf feril sinn með því að leggja á afturvirka skatta. Álagningu tekju- og eignarskatta var lokið, en með brbl. ákvað ríkisstj. að bæta 50% viðauka á tekju- og eignarskatta einstaklinga með meiru. Þessir viðaukaskattar hafa síðan verið innifaldir í tekju- og eignarsköttum og skattbyrði þessara skatta hefur þyngst mjög.

Samkv. upplýsingum þjóðhagsstofnunar hefur skattbyrði eignarskatta aukist sem hér segir frá 1977 — þá voru þeir 0.29 % — sem hlutfall af tekjum greiðsluárs: 1978 0.37%, 1979 0.38% og 1982 má gera ráð fyrir að þeir verði 1.58%, þ.e. að skattbyrði eignarskatta hefur tvöfaldast á þessu tímabili á mælikvarða tekna á greiðsluári. Tekjuskattar einstaklinga til ríkisins voru 1977 3.9% sem hlutfall af tekjum greiðsluárs, en verða nú 1982 6.1 %. Samkv. því hefur skattbyrðin aukist um 50% í hlutfalli af tekjum þess árs þegar skattarnir eru greiddir.

Vinstri stjórnin lagði á fjölda nýrra skatta jafnframt hækkun tekju- og eignarskatta: gjald á ferðalög til útlanda, skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, aðlögunargjald, auk þess sem hún hækkaði söluskatt um 2%, úr 20 í 22%, haustið 1979 og vörugjald um 6% á sama tíma. Vinstri stjórnin hóf einnig þá skattahækkun á bensín umfram verðlagshækkanir sem hefur aukist síðan án þess að nokkuð sem nemi af þeirri skattahækkun hafi farið til vegamála.

Núv. ríkisstj. hefur viðhaldið öllum vinstristjórnarsköttunum nema nýbyggingargjaldi, sem var hverfandi lítið, auk þess sem aðlögunargjaldið er ekki innheimt lengur, en það var fyrst og fremst markaður tekjustofn til iðnþróunar. Hún lagði á „orkujöfnunargjald“, sem í raun er 1.5% söluskattur, og kom söluskatti þar með í 23.5%. Það eitt eykur skattbyrði á þessu ári um 192 millj. kr., en það jafngildir rúmlega 400 þús. gkr. skatti á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þannig hefur hæstv. núv. ríkisstj. haldið fram stefnu vinstri stjórnarinnar í skattamálum.

Sé gerður upp skattreikningur ríkisstjórna síðan 1978 og dregnar frá þær lækkanir á sköttum sem hafa verið framkvæmdar á þessum tíma, fyrst og fremst niðurfelling á söluskatti á matvörur á sínum tíma og lækkun tolla, þá kemur út úr dæminu að skattahækkunin jafngildir rúmlega 20 þús. nýkr. eða 2 millj. gkr. viðbótarálögum á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu vegna ákvarðana þessara ríkisstjórna síðan 1978. Þá er ótalin hækkun á útsvörum til sveitarfélaga sem núv. ríkisstj. heimilaði og má giska á að leggi um 150 millj. kr. viðbótarskatt á almenning umfram það sem að framan er talið.

Þegar þessar gífurlega auknu skattaálögur eru hafðar í huga er ljóst að með þessu frv. er einungis stigið örstutt skref í þá átt að minnka skattheimtu og ríkisumsvif nú þegar útlit er fyrir að þjóðin í heild hafi minna til skiptanna í raunverulegum verðmætum á þessu ári. Eins og kunnugt er mun líta svo út sem þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur minnki. Í stað þess áð ríkið gangi þá á undan með góðu fordæmi og dragi úr eyðslu sinni og skattheimtu er ætlunin að auka hana.

Að lokum, herra forseti, vil ég gera að umtalsefni hvað skattkerfið er orðið flókið og hvað dýrt er að innheimta suma skatta sem lagðir eru á nú.

Fjöldi tekjustofna er orðinn gífurlega mikill og hann fer sífellt vaxandi. Sem dæmi um það, hvað dýrt er að innheimta suma þessa tekjustofna, mun áætlað að það kosti 33% af byggingariðnaðarsjóðsgjaldi að innheimta það gjald, ýmis tryggingagjöld kosti frá 3–25% af gjöldunum að innheimta þau, matvælaeftirlitsgjald kosti 22% af gjaldinu að innheimta, lestargjald kosti 12%, vitagjald kosti 14%, skipaskoðunargjald kosti 20% af skattinum að innheimta og síldarsölugjald kosti 73%. Þetta eru nokkur dæmi um hvað fáránlegt er að leggja á sum gjöldin, sem í dag eru lögð á, og hvað það kostar gífurlega mikið að innheimta þau.

Tekjustofnar, sem eru markaðir til sérstakra verkefna í lögum, eru nú 31. Þeir, sem ekki eru markaðir sérstaklega í lögum, eru nú 32. Það eru tekjuskattur einstaklinga, eignarskattur einstaklinga, kirkjugarðsgjald, tekjuskattur félaga, eignarskattur félaga, sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, sjúkratryggingagjald, almenn aðflutningsgjöld, innflutningsgjald af bifreiðum, gjald af gas- og brennsluolíu, sérstakt vörugjald, söluskattur, orkujöfnunargjald, jöfnunargjald af innflutningi, launaskattur, ferskfisksgjald, síldargjald, iðnaðargjald, iðnlánasjóðsgjald, stimpilgjald, skoðunargjald bifreiða, skrásetningargjald bifreiða, lestargjald, leyfisgjald af gjaldeyrissölu, skattur af ferðamannagjaldeyri, hvalveiðigjald, prófgjald, prófgjald iðnnema, rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunarinnar. Og nú nýverið hefur komið einn nýr skattur, sem er illframkvæmanlegur að mér skilst, svokallað tollafgreiðslugjald. Fyrir utan þessa skatta eru svo útsvör, aðstöðugjöld, landsútsvar, fasteignagjöld og gatnagerðargjöld.

Markaðir tekjustofnar eru þó snöggt um fleiri en hér hefur verið talið upp eða 36. Alls eru því lagðar á á milli 70 og 80 tegundir af sköttum og gjöldum, sem sum hver er mjög dýrt að innheimta. Eitt af því, sem er grundvallaratriði í skattamálum, er því að samræma og einfalda þetta skattkerfi. Þetta frv. gengur hins vegar einungis út á það að leiðrétta nokkuð skattaálögurnar í tekju- og eignarsköttum eins og ég sagði áðan.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Ítarleg grg. fylgir frv. Ég geri tillögu um að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.