05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

332. mál, fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1982

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. beindi til mín spurningu úr þessum virðulega ræðustól, ekki til mín sem alþm., heldur bankaráðsformanns eins af aðalviðskiptabönkum undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar. Spurningin hljóðaði eitthvað á þessa leið, ég veit ekki hvort ég skrifaði hana orðrétt: Ætla bankarnir að fjármagna atvinnuvegina? Og hann tiltók held ég tvær eða þrjár undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar. Ég get svarað þessu með einu litlu neii. En ég vil færa með nokkrum orðum rök fyrir því, að sú fjármögnunarleið við atvinnuvegi og þá sérstaklega undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sem hingað til hefur verið notuð, er að mergsjúga bankakerfið að því marki, að viðskiptabankarnir hafa ekki svigrum til að gegna eðlilegu hlutverki sínu. Þá á ég við þá viðskiptabanka sem ég þekki best til, en Útvegsbankann fyrst og fremst.

Ég ætla að undirstrika það sem allir hv. þm. hljóta að vita, að það hvílir bindiskylda á bönkunum. Hún er 35% af öllu innlánsfé bankanna. Því til viðbótar fara oft meira en 30, jafnvel 35% í afurðalán sem eru tekin án þess að bankinn veiti leyfi. Þau eru sjálftæk. Því til viðbótar kemur krafa um að fjármagna hina ýmsu fjárfestingarsjóði. Hvernig í ósköpunum getur nokkur maður ætlast til þess, að með því, sem afgangs er þá, standi bankakerfið undir þeim þörfum hins almenna borgara, viðskiptalífsins og undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar? Það er gjörsamlega útilokað.

Þegar talað er um okur í bankakerfinu, eins og fram kom hér í ræðu hjá einhverjum hv. þm. í gær, þá er það okur hjá Seðlabanka Íslands og það þarf að stöðva. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, að viðskiptabanki — eins og t. d. sá sem hv. Alþingi hefur kosið mig til að veita forstöðu — sé milliliður í því að færa peninga þaðan, sem þeir eru til, í Seðlabanka Íslands. Ég segi það vegna þess að það hafa ekki, a. m. k. ekki síðan ég gerðist bankaráðsformaður, verið settar neinar hömlur á það eða hámarksupphæðir sem viðskiptabankar geta yfirdregið í Seðlabanka Íslands.

Næsta skref hlýtur að vera, og það er eins gott að ég upplýsi hv. Alþingi um það í dag, að á næsta bankaráðsfundi Útvegsbanka Íslands mun ég leggja til að bankastjórunum verði ekki heimilt að veita eitt einasta sjálfvirkt lán hér eftir, ekki verði heimilt að nota þá peninga sem bankinn á ekki, aðeins vera milliliður milli Seðlabanka Íslands og þeirra, sem þurfa á peningunum að halda, og borga fyrir það yfir 40% vexti. Seðlabankinn virðist eiga nóga peninga. Það eru engar hömlur á því, hvað viðskiptabankarnir mega yfirdraga þar svo lengi sem þeir borga yfir 40% vexti, vegna þess að ég er að tala um mismuninn á því fé, sem viðskiptabönkunum er gert að skyldu að eiga inni í Seðlabankanum á lágum vöxtum, og því sama fé, sem þeim er lánað og umfram það á okurvöxtum. Ég sé enga ástæðu til að vera þar milliliður. Viðskiptavinirnir geta farið beint þangað sem peningarnir eru til. Þeir eru í Seðlabankanum. Ég get upplýst það líka, að bankaráð Útvegsbankans hefur þegar tekið þessa ákvörðun. Við höfum þegar tilkynnt ríkisstj. það með bréfi fyrir nokkrum mánuðum. En nú er komið að framkvæmd og ég legg til að sú framkvæmd taki gildi þegar í stað eftir næsta bankaráðsfund.

En það sem er spurning í mínum huga er þetta: Hvernig stendur á því, að Seðlabankanum líðst að taka gengismun frá þeim sem eiga kröfur sem greiddar eru gegnum hann? Hvernig stendur á því, að Seðlabankinn afhendir ekki 100% það gengi sem eigandi að erlendum kröfum á rétt á, þegar gengisbreyting verður frá því að krafan er skrifuð og send til innheimtu og þangað til hún er greidd? Af hverju líðst Seðlabankanum að taka af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar þennan mismun? Það er ekki tekið af neinum öðrum sem fær þjónustu hér á landi greidda í erlendum gjaldeyri. Ef ég eða einhver annar fær senda þóknun fyrir störf sem eru unnin hér fyrir erlenda aðila sem umboðsaðili, þá er greitt á því gengi sem er þann daginn sem peningarnir berast. En undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar fá ekki nema hluta af því. Seðlabankinn safnar mismuninum í sjóð. Til hvers? Til þess eins að geyma peningana og telja okkur trú um að það sé öryggi þjóðarinnar fyrir bestu að taka peninga í geymslu og nota þá ekki, sem þýðir ekkert annað en að það þarf að lækka gengið svo að undirstöðuatvinnuvegirnir fái það sem þeir þurfa til rekstrarins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hef gefið hér upplýsingar og ég hef gefið svo miklar upplýsingar vegna þess að ríkisstjórn og Seðlabanki standa frammi fyrir þeirri staðreynd, að svo lengi sem Alþingi trúir mér fyrir Útvegsbanka Íslands, þá borga ég ekki 40% fyrir það eitt að vera milliliður milli þeirra, sem þurfa á peningunum að halda, og þeirra, sem eiga þá. Því svara ég spurningunni neitandi. Svo lengi sem ég get haft áhrif á það mun viðskiptabanki sá sem mér er trúað fyrir ekki taka þátt í að fjármagna atvinnuvegina með slíku lánsfé.