23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

285. mál, tollskrá

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 617 frv. til laga um breytingu á lögum um tollskrá. Frv. gerir ráð fyrir því að tollar af vélum til landbúnaðarins verði felldir niður. Það er kunnara en frá þurfi að segja að að þessu leyti býr landbúnaðurinn við óréttlæti þar sem aðrir aðalatvinnuvegirnir, eins og sjávarútvegur og iðnaður, hafa fengið niðurfellda tolla af sambærilegum innflutningi til sinna þarfa. Það hefur komið greinilega fram, m.a. í skýrslu starfsskilyrðanefndar, að að þessu leyti er hlutur landbúnaðarins — og reyndar á fleiri sviðum — miklu lakari en annarra atvinnuvega í landinu.

M.a. með hliðsjón af þessum rökum er hér um réttlætismál að ræða. En hér kemur fleira til. Að landbúnaðinum steðja um þessar mundir miklir erfiðleikar, eins og reyndar öðrum atvinnurekstri í landinu, vegna mikils tilkostnaðar. Þetta kemur m.a. fram í því, að kjör þeirra, sem stunda þennan atvinnuveg og byggja afkomu sína á honum, eru mjög misjöfn. Veldur því m.a. hinn mikli fjármagnskostnaður í þessum atvinnuvegi á hinum allra síðustu árum og sú verðtrygging sem nú er upp tekin jafnt í landbúnaði sem annars staðar í viðskiptalífinu. Ég held að það sé óumdeilanlegt, að það er viss viðleitni fyrir hendi til að bæta hér úr og reyna að snúa ofan af þessu óréttlæti frekar en að láta það safna utan á sig.

Í grg. frv. kemur fram hvað hér er um að ræða. Ekki er um háar upphæðir að ræða að því er varðar tekjutap hjá ríkissjóði, og þegar á það er litið, að með því að draga úr framleiðslukostnaði er þó frekar a.m.k. spyrnt fótum við verðhækkun á landbúnaðarvörum, þá er til efs að hér verði um að ræða það tekjutap sem í er horfandi.

Ég geri mér ljóst að á þessu þingi verður erfitt og kannske útilokað að fá þetta mál afgreitt. Alþm. hafa átt von á því, að málefni landbúnaðarins yrðu rædd hér á Alþingi með skýrari hætti en gert hefur verið og að leitast yrði við að móta hér stefnu, helst sameiginlega stefnu í málefnum þess atvinnuvegar. Það er nú augljóst að svo verður ekki á þessu þingi. Þess vegna m.a. er þetta frv. lagt fram til að sýna að vilji er fyrir breytingu sem þessari. Og þótt þetta mál gangi ekki fram núna verður það tekið upp á næsta Alþingi til frekari áherslu og—að því er ég vænti — afgreiðslu.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til fjh.- og viðskn.