23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4090 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

296. mál, loðdýrarækt

Flm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 659 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 53 frá 29. maí 1981, um loðdýrarækt. Flm. að þessu frv. ásamt mér eru hv. þm. Stefán Jónsson, Eiður Guðnason, Egill Jónsson og Davíð Aðalsteinsson.

Tilgangurinn með flutningi frv. þessa er sá, að inn í lög um loðdýrarækt komi ákvæði um að fella skuli niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjöld af efni og búnaði til loðdýrabúanna svo og vélbúnaði og tækjum til fóðurstöðva og pelsverkunar og hvers konar öðrum sérhönnuðum búnaði til loðdýraræktar. Fjárfestingar í upphafi eru erfiðastar fjárhagsafkomu í loðdýrarækt svo og öðrum atvinnurekstri, ekki síst eftir að tekin var upp sú stefna að verðtryggja lánsfé.

Um alllangt skeið hefur mönnum verið ljóst að auka beri fjölbreytni atvinnulífs í sveitum. Byggja þarf upp nýjar búgreinar og renna fleiri og styrkari stoðum undir afkomumöguleika bænda. Hefðbundnar búgreinar hafa átt við vaxandi örðugleika að stríða í markaðsmálum. Stöðugt hefur breikkað bilið milli þess verðs, sem bændur þurfa að fá fyrir framleiðsluvörur sínar, og þess verðs, sem fáanlegt er fyrir þær erlendis. Þessu bili hefur verið mætt með útflutningsuppbótum. Er um það ákvæði í lögum að greiða vissa upphæð af framleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða í útflutningsuppbótum, en á undanförnum árum hefur það ekki dugað og sífellt þurft að gera sérstakar ráðstafanir til þess að bæta við það fjármagn. Í fréttum undanfarna daga hefur einnig komið fram að enn er vissulega þörf á auknu fjármagni til þess að mæta þeim vanda, að bændur fái fyrir framleiðsluvörur sínar það verð sem þeim er ætlað, enn vanti fjármagn til útflutningsuppbóta.

Á síðustu 2–3 árum hefur reynst óhjákvæmilegt að draga mjög úr framleiðslu mjólkur og mjólkurafurða og er nú nær eingöngu miðað við innanlandsneyslu. Horfur á útflutningi dilkakjöts á þessu ári eru tvísýnar og getur þurft einnig að draga úr framleiðslu sauðfjárafurða eins og nú horfir í markaðsmálum. Mjög brýnt er að reyna að leita allra leiða til þess að finna nýja markaði fyrir dilkakjötið, því að við þurfum á ullinni og gærunum að halda til að geta haldið uppi þeim iðnaði sem byggist á þessum hráefnum.

Árið 1979 varð samkomulag um breytingar á jarðræktarlögum í þá veru að draga úr fjárveitingum til jarðræktar og annarra framkvæmda sem fyrst og fremst þjónuðu hinum hefðbundnu búgreinum, en verja í þess stað auknu fjármagni til nýrra búgreina og hagræðingar í landbúnaði og auðvelda á þann hátt þá stefnubreytingu sem menn voru sammála um að þyrfti að eiga sér stað í landbúnaðinum, þ.e. að draga úr framleiðslu í hinum hefðbundnu búgreinum og reyna í þess stað að leita nýrra leiða. Því miður vantar mikið á að staðið hafi verið að fullu við þau fyrirheit, sem gefin voru í þessu samkomulagi árið 1979, og fjármagn til hagræðingar hefur verið skorið niður. Þar af leiðandi hefur þróunin frá hefðbundnum búgreinum inn á nýjar brautir orðið hægari en æskilegt væri, miðað við þau skilyrði sem fyrir hendi eru í markaðsmálunum. Nokkur þróun hefur þó orðið í fiskræki og loðdýrarækt. Á undanförnum árum hafa risið nokkrar fiskræktarstöðvar víða um land, sem vissulega lofa góðu, og stofnuð hafa verið allmörg minka- og refaræktarbú, einkum þó á tveimur til þremur seinustu árum.

Refarækt var stunduð allvíða hér á landi rétt fyrir síðustu heimstyrjöld, en lagðist niður þegar verðfall varð á skinnum í lok stríðsins. Árið 1969 voru samþykkt lög um loðdýrarækt. Hófst minkaræki hér á landi upp úr 1970. Stofnuð voru átta minkabú. En því miður átti þessi nýja starfsemi við ýmsa erfiðleik að etja. Stofnkostnaður var mikill og búin urðu fyrir áföllum þannig að nokkur þeirra hættu starfsemi. Nú munu aðeins vera starfandi fjögur minkabú, en áhugi manna á þessari starfsemi aftur mjög vaxandi. Refarækt hófst að nýju fyrir þremur árum. Er því ekki mikil reynsla komin á þá starfsemi enn þá, en óhætt mun að segja að upphafið lofi góðu. Sú hætta er hins vegar enn fyrir hendi, að mikill stofnkostnaður og hár fjármagnskostnaður leiði til þess, að íslensk loðdýrarækt eigi erfitt uppdráttar og verði ekki samkeppnisfær á þeim mörkuðum, sem keppa þarf á við þróaða framleiðslu frá nágrannaþjóðunum, og sagan upp úr 1970 endurtaki sig.

Mikil áhersla er nú á það lögð af hálfu Stéttarsambands bænda; Búnaðarfélags Íslands og Sambands ísl. loðdýraræktenda að loðdýraræktin verði framtíðarbúgrein á Íslandi. Jafnframt verði búið þannig um hnútana að hún geti létt undir með hefðbundnum búgreinum vegna þess samdráttar sem þegar hefur átt sér stað og enn virðist blasa við, eins og ég hef getið um áður, og á þennan hátt megi betur tryggja afkomu bænda og styrkja búsetu í dreifbýli. Á nýafstöðnu Búnaðarþingi voru ítrekaðar fyrri samþykktir Búnaðarþings um að loðdýraræki verði fyrst og fremst stunduð sem aukabúgrein á bændabýlum og skapi þannig aukið öryggi og komi í sem mestum mæli í veg fyrir röskun er leiða kynni af samdrætti í hefðbundnum búgreinum. Í ályktuninni segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingið telur brýnt að leiðrétt verði samkeppnisstaða loðdýraræktarbænda gagnvart svipuðum erlendum atvinnugreinum með niðurfellingu á söluskatti og aðflutningsgjöldum á aðföngum og þjónustu þessara búgreina þannig að loðdýrabúskapur njóti hliðstæðra kjara og gilda um útflutningsgreinar í samkeppnisiðnaði.“

Í grg. með þessari ályktun Búnaðarþings er lögð áhersla á það áhugamál loðdýraræktenda, að skinnaframleiðslunni séu sköpuð sem líkust skilyrði og gerist með erlendum samkeppnisaðilum. Með fullri sanngirni má benda á að mjög er líkt á komið með þessari framleiðslugrein og ýmsum greinum svonefnds samkeppnisiðnaðar eins og þær eru skilgreindar. Má þar nefna ullar- og gæruiðnað, úrvinnslu sjávarafla o.fl. Það verður að teljast fullkomlega eðlilegt að loðskinnaframleiðendur njóti sömu kjara og fyrirgreiðslna og þessir aðilar hvað snertir eftirgjöf á kostnaði við öflun aðfanga.

Margt bendir til þess, að loðdýrarækt sé æskileg búgrein hér á landi. Íslenskur landbúnaður hefur ávallt byggt á kvikfjárrækt fyrst og fremst. Eru því líkur á að bændur hér geti fljótt náð tökum á þessari grein búskapar. Þá má einnig nefna að hér fellur til mikið af góðu hráefni frá sláturhúsum og fiskvinnslustöðvum sem vel er fallið til fóðurgerðar handa loðdýrum. Loðdýraræktin getur nýtt mikið magn af verðlitlum fiskúrgangi frá frystihúsunum og sláturúrgang og feitmeti frá sláturhúsunum, sem að öðru leyti er tiltölulega verðlítið, en nýtist mjög vel sem fóður í loðdýrarækt. Einnig má benda á að veðurfar hér á landi er talið mjög ákjósanlegt, þar sem ekki er hætta á miklum hitasveiflum, t.d. á gottíma á vorin, en víða þar sem loðdýrarækt er stunduð er þetta mikið vandamál. Vegna þess, hve skinn eru létt, er flutningskostnaður frá framleiðanda til uppboðshaldara erlendis óverulegur hluti miðað við verðmæti skinnanna. Þurrkuð loðskinn má selja og flytja milli allra landa tollfrjálst.

Loðdýraræktin er að því leyti frábrugðin hefðbundnum íslenskum landbúnaði, að afurðir hennar eru seldar á erlendum uppboðsmörkuðum. Þar ríkir hin fullkomna samkeppni við skinnaafurðir annarra þjóða. Á sama hátt og orðið samkeppnisiðnaður er notað um þær greinar íslensks iðnaðar sem keppa við erlendan iðnað, innanlands sem utan, er réttnefni að kalla íslenska loðdýrarækt samkeppnislandbúnað. Skinnaframleiðendur á Íslandi hafa sannað að þeir geta framleitt skinn með fullkomlega sömu gæðum og starfsbræður þeirra í öðrum löndum. Vissar forsendur benda jafnvel til þess, að hægt sé að framleiða skinn í hærri gæðaflokkum hér en annars staðar ef vel er búið að þessari atvinnugrein. Því þarf að búa loðdýraræktinni samkeppnishæfa stöðu gagnvart erlendum keppinautum og ekki lakari en gerist með útflutningsiðnaðinum.

Í nágrannalöndum okkar, Bretlandi og Norðurlöndunum, hefur verið mikil gróska í loðdýrarækt tvo til þrjá síðustu áratugina. Í þessum löndum er lögð áhersla á að skapa loðdýrarækt sem hagstæðust skilyrði. Þannig eru danskir loðdýraræktendur undanþegnir greiðslu hvers konar opinberra gjalda af búnaði og húsum sem til framleiðslunnar þarf.

Þó reynsla af loðdýrarækt hér á landi sé ekki mikil hefur hún samt þegar leitt í ljós að það er eitt og annað sem þarf að lagfæra og betur má fara, svo að starfsskilyrði þessarar búgreinar, sem nú er að ryðja sér hér til rúms að nýju, verði sem ákjósanlegust. Undirstaða þess, að vel geti tekist með uppbyggingu þessarar búgreinar, er næg fræðsla og leiðbeiningar um meðferð og fóðrun dýranna. Loðdýrarækt er eins og hver önnur búfjárrækt, hún tekst því aðeins að sá, sem stundar hana, hafi þekkingu og áhuga á starfi sínu og sé nærfærinn við hirðingu dýranna og geri hvert verk á réttum tíma. Hann þarf að vera nákvæmur og samviskusamur í vinnubrögðum, sem reyndar á að sjálfsögðu við um öll störf.

Gæta þarf þess, að verðlagning á hráefni í fóðurgerð sé sanngjörn og eðlileg. Hráefnið er úrgangur að mestu leyti frá sláturhúsum og fiskvinnslustöðvum. Verður að teljast óeðlilegt, þegar möguleikar finnast til að nýta þetta hráefni eða þennan úrgang, að verðið sé þá hækkað til muna. Forráðamenn fóðurstöðva loðdýrabúanna hafa orðið varir við tilhneigingu til að hækka fóðurhráefnið. En við verðum að gæta þess, að fóðurverð sé hér eins lágt og framast er unnt, og eigum að hafa til þess alla möguleika.

Þá verður einnig að horfast í augu við það vandamál sem komið hefur í ljós, að minkastofninn, sem upphaflega var fluttur til landsins, var sýktur af svokallaðri „aleutian“-veiki, sem er smitandi veirusjúkdómur og hefur mikil áhrif á frjósemi og skinnagæði og dregur dýrin að lokum til dauða. Veiki þessi er nú komin á það hátt stig að sýking er orðin allt að 90% í stofni þriggja minkabúa norðanlands. Að mati kunnáttumanna er talið ógerlegt að útrýma veiki þessari á svo háu stigi nema með skipulegum niðurskurði og sótthreinsunaraðgerðum og síðan með kaupum á heilbrigðum stofni. Er því líklegt að Alþingi verði að setja lög um skipulagðan niðurskurð á alimink hjá þeim búum, þar sem dýr eru sýkt af þessari veiki, og veita aðstoð þeim bændum sem endurnýja þurfa dýrastofn sinn vegna niðurskurðar.

Ljóst er að eitt af frumskilyrðum þess, að loðdýrarækt nái að festa rætur og verða trygg atvinnugrein hér á landi, er að starfsemin fáist viðurkennd sem „samkeppnisbúgrein“ hliðstæð samkeppnisiðnaði, eins og ég hef vikið að hér á undan. Frv. því, sem hér er flutt, er ætlað að koma til móts við framangreind sjónarmið. Tekjutap ríkissjóðs af frv. þessu, ef að lögum verður, er mjög óverulegt þar sem hér er um tiltölulega nýja starfsemi að ræða, svo að ríkissjóður hefur ekki enn haft tekjur sem neinu nemur af þeim aðflutnings- og sölugjöldum sem hér er lagt til að fella niður. Samband ísi. loðdýraræktenda hefur lagt mikla áherslu á þetta atriði og gert það að einu af sínum aðalbaráttumálum, svo sem fram kemur í bréfi sambandsins til Búnaðarfélags Íslands sem fylgir með grg. þessari merki fskj. l. Er þar lögð áhersla á kröfur þeirra og óskir um endurgreiðslu aðflutningsgjalda og endurgreiðslu söluskatts eða sölugjalds.

Á fskj. II með grg. frv. eru taldir upp þeir vöruflokkar sem helst kemur til álita að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjöld af. Listi þessi er þó ekki tæmandi, en gefur vísbendingu um hvað þarna er um að ræða. Af listanum má sjá að sumt af vörunum er nú þegar í lágum tollflokki, jafnvel tollfrjálst, en annað er í allt að 70–80% tolli. Vörugjald og jöfnunargjald er á sumum þessum vörutegundum, ekki þó á öllum, en söluskattur fellur á allar vörurnar. Hér er um að ræða vörur í sjálf loðdýrabúin, svo sem vírnet og ýmislegt annað sem til þeirra þarf, tæki og áhöld til skinnaverkunar, blöndunarvélar í fóðureldhús, fóðrunarvélar, drykkjarker og brynningarkerfi, hreiðurkassa svokallaða og ýmsar aðrar vörur sem nauðsynlegar eru við þessa búgrein. Sumt af þessum vörum er e.t.v. svo sérhæft að ekki verði notað til annarrar starfsemi en þeirrar sem hér um ræðir og mætti því fella niður aðflutningsgjöld og sölugjaldið, en með annað er þannig háttað, að það eru vörur sem geta nýst við margvíslega aðra starfsemi. Verður þá að koma til endurgreiðsla á gjöldunum. Má í því sambandi hafa hliðsjón af því, að Þjóðhagsstofnun hefur metið svokallaðan uppsafnaðan söluskatt sem hlutfall af veltu fyrirtækja í iðnaði og síðan gefið fjmrn. ársfjórðungslega upplýsingar um útflutningsverðmæti iðnfyrirtækjanna. Trúlegt er að hafa verði hliðstæðan hátt á hér, þ.e. að meta hversu mikið hlutfall viðkomandi gjöld eru af framleiðslukostnaði í loðdýraræktinni og endurgreiða síðan aðflutningsgjöldin og söluskattinn í hlutfalli við það.

Þar sem hér er um að ræða ákvæði er varða tekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum og sölugjaldi og þannig háttar til, að um endurgreiðslu á sköttum yrði að ræða í sumum tilvikum, þykir rétt að fjmrh. setji reglugerð um framkvæmd þessarar lagagreinar.

Ég vil að lokum leggja áherslu á mikilvægi þess að efla og treysta grundvöll loðdýraræktarinnar. Ég er þess fullviss, að á komandi árum muni hún verða stærri og stærri hluti af íslenskum landbúnaði og muni á þann hátt koma til með að létta verulega undir í þeim erfiðleikum sem okkar hefðbundnu búgreinar virðast nú eiga við að etja.

Ég vænti þess, að ákvæði frv. eigi skilningi að mæta hjá hv. alþm. og málið fái skjóta afgreiðslu í meðförum þingsins. Að lokum legg ég til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.