23.04.1982
Efri deild: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4112 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

290. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt til breytinga á lögum nr. 51/1980, um Húsnæðistofnun ríkisins, er í öllum meginatriðum byggt á tillögum frá húsnæðismálastjórn, — till. sem hún er sammála um að leggja til og eru nauðsynlegar lagfæringar á þeim lögum sem nú gilda um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég ætla ekki að fara ítarlega ofna í þetta frv. En það eru nokkur atriði, 3–4 atriði, sem mig langar til að drepa sérstaklega á, sem hér eru fram sett.

Í 7. gr. frv. er fjallað um það, að ef lántaki er orðinn 70 ára eða eldri og fjárhag hans þannig varið að sýnt þyki, að hann fái ekki staðið undir afborgunum af lánum, sé heimilt að fresta afborgunum ótiltekinn tíma. Félmn. Alþingis hefur borist bréf frá Sjálfsbjörgu, landssambandi fatlaðra, þar sem vakin er athygli á þessu og óskað eftir að í ákvæðunum, sem felast í 7. gr. frv., sé tekið tillit til málefna fatlaðra eða þau ákvæði, sem þar eru um aldraða, séu einnig látin ná til fatlaðra. Einnig finnst mér að megi athuga hvort ekki sé rétt að láta önnur atriði í frv. ná til málefna þessa fólks og hugsanlega veita því forgang við lánveitingar, t.d. því fólki sem er hreyfihamlað, e.t.v. bundið við hjólastól og hefur ekki sömu tekjuöflunarmöguleika og aðrir þjóðfélagsþegnar. Ég vil að þetta komi hér fram í umr. án þess að ég hafi þó neina fullmótaða till. í því efni á þessu stigi.

Í 9. gr. frv. eru ákvæði sem ég vil sérstaklega taka undir. Þar er kveðið á um það að húsnæðismálastjórn sé heimilt, að fengnu samþykki félmrh., að ákveða hærra lánshlutfall til þeirra sem enga íbúð eiga og hafa ekki átt íbúð eða aðra sambærilega eign á síðustu tveimur árum.

Þá er einnig í þessari grein ákvæði um að lán til þeirra, sem byggja á lögbýlum, séu ekki bundin við fjölskyldustærð eingöngu, eins og hefur verið, því að vissulega er það svo að þar verða eigendaskipti ekki eins tíð. Fólki, sem býr í sveit, er ekki kleift að skipta um íbúðir eftir því sem fjölskyldustærð breytist. Hér er komið til móts við það sjónarmið. Ég fagna því og tel það vera mjög til bóta. Það kemur að vísu ekki fram í frv., hversu langt skal ganga í þessu efni, en sagt að aldrei verði þetta lán lægra en lán samkvæmt staðli 2 á sama ársfjórðungi. Hér er vitnað til reglugerðar varðandi staðalíbúðir og þarf að athuga nánar hversu rúmt þetta ákvæði er.

Í 17. gr. frv. segir: „Innkaupsverð íbúðar“ — þ.e. þegar verkamannabústaðakerfið leysir aftur til sín íbúð — „sem byggð er eða endurseld samkvæmt lögum þessum má ekki vera hærra en upphaflegt kostnaðarverð hennar eða síðasta söluverð að viðbættri hækkun samkv. vísitölu lánskjara.“ Hér tel ég að athuga þurfi þá sérstöðu sem skapast getur í einstökum sveitarfélögum ef verð á húsnæði fylgir ekki eftir almennum verðlagshækkunum í landinu, t.d. ef atvinnumál í viðkomandi sveitarfélagi hafa verið með þeim hætti að verðlagið fylgir ekki eftir almennu verðlagi annars staðar. Þá þarf á einhvern hátt að taka tillit til þess og gæta þess, að íbúðarverð á þeim stöðum sé ekki samkvæmt þessu ákvæði laganna miklu hærra metið í verkamannabústað heldur en almennt gerist.

Þegar ég ræði um verkamannabústaðina langar mig líka að nefna ákvæði er varðar réttindi þeirra sem fyrirgreiðslu eiga að njóta úr Byggingarsjóði verkamanna. Ég tel að það þurfi að koma inn ákvæði þess efnis, að allir landsmenn sitji við sama borð varðandi lánafyrirgreiðslu úr þeim sjóði, einnig bændur, svo fremi að viðkomandi uppfylli önnur sett skilyrði, svo sem um tekjumörk. Á þessu munu vera nokkur vandkvæði, ég geri mér það fyllilega ljóst, varðandi einmitt kaupskylduákvæði sveitarfélagsins og ýmsa aðra þætti, ef byggja á verkamannabústaði á lögbýli, en ég tel, að þetta atriði verði að skoða, og vil leggja áherslu á það í þessum umr.

Ég tel líka réttar þær breytingar sem hér er lagt til að verði gerðar á ákvæðum um skyldusparnað. Það er mjög brýnt að treysta það sparnaðarform, auka tiltrú ungs fólks á því sparnaðarformi. Þetta er tvímælalaust, eins og fram kom hjá hæstv. félmrh., besta sparnaðarform sem til er í dag. Það er fullverðtryggt samkvæmt lánskjaravísitölu, það ber sömu vexti og útlán frá Byggingarsjóði ríkisins, það er að sjálfsögðu undanþegið sköttum eins og annar sparnaður, en það er líka frádráttarbært frá tekjum, sem mest munar um í þessu sambandi. Það er frádráttarbært frá tekjum, sem sagt undanþegið tekjuskatti og útsvari. Þetta er veigamikið atriði. Og ég trúi því ekki, að með herferð, sem gengur í þá átt að gera fólki ljósa grein fyrir ágæti þessa sparnaðar, megi ekki efla hann meir en tekist hefur á undanförnum árum. Ég tel rétt að lagfæra ákvæði laganna einmitt með tilliti til þess, að hann sé traustari stofn fyrir húsnæðiskerfið.

Þá vil ég taka undir orð hæstv. félmrh. sem hann lét falla um þá breytingu sem orðið hefur í lánamálum vegna verðtryggingarákvæða. Hér er um slíka grundvallarbreytingu að ræða að það hlýtur að vera öllum ljóst, að veruleg breyting verður í uppbyggingu húsnæðiskerfisins. Það þarf algerlega að breyta hér hugsunarhætti. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að félagslegar íbúðarbyggingar hljóta að taka í auknum mæli við af því kerfi sem áður ríkti, þegar verðbólga sá um svo og svo mikið af skuldabagga manna þegar þeir byggðu eða keyptu sér húsnæði. Nú gerist það ekki lengur. Nú verða menn að endurgreiða sín lán að fullu.

Þá er auðvitað ljóst að hér er slík breyting á ferðinni að það verður að takast á við þau vandamál, sem skapast, með ákveðnum og róttækum aðferðum. Ég tel að sú breyting, sem orðið hefur að undanförnu, þ.e. að stórauka félagslegar íbúðabyggingar, sé einmitt liður í þeirri baráttu stjórnvalda, þeirri breytingu sem stjórnvöld vilja beita sér fyrir og telja nauðsynlega til lausnar húsnæðisvanda landsmanna. Öðruvísi verður það ekki gert. Og auðvitað er það erfitt meðan það er að ganga yfir, verður mikið átak fyrir okkur, en nauðsynlegt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara öllu fleiri orðum um þetta frv. Ég veit að það verður athugað rækilega í félmn. Alþingis. Ég vonast til þess, að þau atriði, sem ég hef hér bent á sérstaklega, verði tekin þar til athugunar og umfjöllunar og að frv. verði breytt í samræmi við það.