23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4114 í B-deild Alþingistíðinda. (3684)

230. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til laga um breytingu á kosningalögum til Alþingis, nr. 52 14. ágúst 195), sbr. lög nr. 90 31. des. 1981. Efnislega fjallar sú breyting, sem hér er á dagskrá, um að það komi aðlögunartími á það, að stimplar verði alfarið notaðir við utankjörstaðarkosningar. Ástæðan fyrir því, að þetta er lagt til er að í ljós hefur komið að nokkur vandkvæði munu vera á því að afla þess stimplafjölda sem þyrfti. Einnig er þarna um nokkurt fjárhagsatriði að ræða, en þó er það fyrst og fremst hið fyrrnefnda sem veldur því, að þetta frv. er fram komið. Nefndin hefur orðið sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Ed.