23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4119 í B-deild Alþingistíðinda. (3701)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er einkennilegur tónn í mörgum hv. þm. gagnvart brtt. okkar hv. þm. Jóhanns Einvarðssonar. (Gripið fram í: Og fleiri.) Já, og fleiri, sem eru einnig hv, þm., herra forseti. Í hverju skyldu nú þessar brtt. vera fólgnar? Hafa menn ekki lesið þær? Mér heyrðist á hv. þm. Vilmundi Gylfasyni að hann hefði alls ekki lesið brtt. Hann talar um að við séum að binda tekjur hljómsveitarinnar af aðgangseyri við 12%. Það er agalegur misskilningur. Það sýnir og sannar að hann hefur ekki lesið brtt. og þaðan af síður skilið þær. Ég er ekkert hissa þó það komi fyrir hv. þm. Halldór Blöndal að hann lendi í þeirri gryfju að geta hvorki lesið né skilið, en mig undrar að hv. þm. Vilmundur Gylfason skuli gera það.

En í hverju eru brtt. fólgnar? Fyrri hlutinn er um að taka upp till. hæstv. menntmrh. og ríkisstj. Í frv. sjálfu, sem nefndarmenn virðast ekki hafa lesið heldur, stendur í lok 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Sinfóníuhljómsveitin skal kappkosta að afla sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi og stefna að því að eigi minna en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar fáist greidd af slíkum tekjum hennar.“

Og hvernig er brtt.? Hún er nákvæmlega eins. Það erum við, þessir fjórir hv. þm., sem leggjum til að koma sjónarmiðum hæstv. menntmrh. á framfæri. Við erum þeir einu sem styðjum hann og ríkisstj. Hinir afneita henni. Hvernig stendur á að menn turnast svona í þessum efnum? Við erum að leggja til að standa við það sem ríkisstj. hefur ákveðið, og er nú orðið bágt ef hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason hefur ekki fleiri eða menningarlegri stuðningsmenn en mig og hv. þm. Jóhann Einvarðsson og fleiri.

Herra forseti. Hver skyldi nú vera síðari brtt. og hvernig stendur á því, að hún er flutt? Það er ósköp einfaldlega vegna þess að í 6. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta, að stjórn Sinfóníuhljómsveitarinnar ráði hljóðfæraleikara, að fengnum tillögum framkvæmdastjóra, í minnst 65 stöðugildi. Hvað þýðir það? Þeir gætu þess vegna orðið 165. Það er enn ekkert þak á þessari vitleysu hjá þeim. Það má ráða eins marga og sýnist. Þetta er lágmarkið. Auðvitað er þetta fjarstæða. Hverjum dettur í hug að leyfa slíkt í lögum? Þetta kostar peninga eins og annað. Menn reika um í einhverri þoku og sjá ekki fótum sínum forráð í þessum efnum, eru eitthvað viðkvæmir fyrir þessu og hræddir við þetta, en svo blindir hélt ég að menn væru ekki. að þeir væru að ganga frá lögum þar sem væri sagt að mættu vera eins margir í Sinfóníuhljómsveitinni og verkast vildi og í allra minnsta lagi 65.

Við, sem flytjum þessa brtt., og sú fyrri er stuðningur við hæstv. ráðh. Ingvar Gíslason og hæstv. ríkisstj. og ekkert annað, viljum halda fast við það sem í frv. var ákveðið. En í seinna lagi lítum við á að sú brtt. sé leiðrétting. Hún er um það, að við viljum takmarka föst stöðugildi við 65. Hv. þm. eru beðnir um að taka eftir því, því að þeir sem töluðu gegn þessum brtt. fóru rangt með. Þeir fóru allir rangt með og ósköp einfaldlega vegna þess að þeir hafa ekki viljað lesa brtt. og hafa viljað gleypa þetta hrátt án þess að smakka á því. Við leggjum til að það verði heimilt að ráða í 65 föst stöðugildi, en ef vantar fleiri hljóðfæraleikara er heimilt samkv. þessari brtt. að ráða þá. Það er ekkert sem bannar það. Þess vegna fara menn rangt með, eins og hv. þm. Halldór Blöndal, og var það svo sem engin furða. Hann sagði að þessir menn mættu ekki vera fleiri en 65. Það er rangt, enda stendur það svart á hvítu í brtt. okkar fjórmenninganna. Hvernig stendur á að menn vilja grípa til rangfærslna hérna til að hafa fram sínar skoðanir? Ég tel það algjört lágmark af hv. þm. að segja satt og lesa rétt það sem þeir eru að gagnrýna, en ekki vísvitandi rangt, því að þskj. 612 liggur fyrir og þar má lesa þetta svart á hvítu. Þar er ekki um neinn vafa að ræða.

Það er kyndugt þegar menn gagnrýna þessi 12%, sem eigi að stefna að, á þeim forsendum, að það gæti orðið betra og þess vegna væri ekki rétt að binda þetta. Auðvitað er það ekki bundið, heldur skal stefnt að því. En hvað greiða neytendur sinfóníutónlistarinnar mikinn hluta af kostnaði eins og er? Það er innan við 7%, 6.9% af kostnaði. Hins vegar er líklegt að þessi tala rjúki langt umfram 12, en það gerir ekkert til, því bæri auðvitað að fagna.

Allt er þetta rugl og rakalaust þvaður hv. þm. sem hafa mótmælt þessum brtt„ og er sýnilegt að þeir hafa ekki lagt í það vinnu einu sinni að lesa brtt. sjálfa, hvað þá frv.

Herra forseti. Við hv. þm. fjórir, Jóhann Einvarðsson, Árni Gunnarsson, ég og Jósef H. Þorgeirsson, leggjum til að stefnt skuli að því að eigin tekjur hljómsveitarinnar skuli eigi vera minni en 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar, sem er till. ríkisstj. og hæstv. menntmrh. Við leggjum til að heimili sé að ráða í 65 stöðugildi, en ekki ótakmarkaðan fjölda, og bæta við hljóðfæraleikurum ef þá vantar.

Herra forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, þrátt fyrir allt í þessu máli, eins og stundum áður kannske, að lesa hreinlega upp brtt. fyrir þm. sem virðast ekki hafa tíma eða þá getu til að lesa rétt.