23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka menntmn. þessarar hv. deildar fyrir ágæta afgreiðslu og meðferð þessa máls. Ég hlýt að nefna að þetta frv. var lagt fram sem eitt af fyrstu málum þessa þings í Ed. og var þar ítarlega um það fjallað að mínum dómi. Allmargar brtt. voru fluttar í Ed. við þetta frv. Ýmsar þeirra voru samþykktar, eins og hér hefur komið fram, þó að sumar þeirra væru það ekki.

Ein af þeim brtt., sem var samþykki í Ed. fyrir tilstilli menntmn. þar, hygg ég, var að fella út úr 3. gr. það ákveðna prósentustig sem varðar um eigin tekjur hljómsveitarinnar. Það var upphaflega í frv., eins og ég lagði það fyrir, gert ráð fyrir að reynt yrði að stefna að því að a.m.k. næðust 12% af útgjöldum hljómsveitarinnar af eigin tekjum. Hins vegar kom það nú fram, bæði í frumræðu minni fyrir þessu máli og eins í grg. sem var fyrir frv., að mjög mætti um það deila, hvort svona ákvæði hefði verulegt gildi. Þó var það niðurstaða þeirra, sem mest unnu að frv. áður en ég lagði það fram, að það mundi sennilega vera heppilegra að hafa slíka viðmiðun, í þeirri trú að það væri hvatning fyrir stjórn hljómsveitarinnar að ná þessu marki. Ég held að það sé afskaplega erfitt að finna nákvæmlega það rétta út í þessu máli, hvort þetta verður til hvatningar eða ekki, og ég vil ekki gera allt of mikið úr þessu, eins og komið er, og tel ekki ástæðu til að hafa uppi mikið karp um þetta.

Það má reyndar ekki síður segja um hina brtt. á þskj. 612, að það er býsna mikill munur á hvort við festum þarna töluna 65 stöðugildi eða hvort við notum, eins og verið hefur, allt að 65 stöðugildi. Á þessu er talsvert mikill munur óneitanlega. Ég get lýst yfir því, að það stendur ekki til að hafa hljómsveitarmenn fleiri en 65 sem þarna er rætt um. En ég held að það væri við hæfi, úr því að við á annað borð eftir svo langan tíma, má segja að sé 32 ár, erum loks að lögfesta reglur um rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar, að gera það þokkalega og sæmilega myndarlega, eins og þarna er þó reynt að gera. Eins og hér hefur verið bent á, m.a. í ræðum í dag, er það álit kunnáttumanna í þessum efnum að 65 manna hljómsveit sé í raun og veru sú minnsta hljómsveit sem hugsanlega er hægt að nefna því nafni að vera sinfóníuhljómsveit. Ég veit að ef þetta frv. hefði verið lagt fram fyrir allmörgum árum, við skulum segja 10 árum eða fyrr, má vel vera að við hefðum hugsað svolítið öðruvísi. En tíminn líður, hljómsveitin eflist, hún er þegar 32 ára, og ég held að úr því að við höfum dregið svo lengi að lögfesta reglur um hljómsveitina ættum við að standa sæmilega myndarlega að því og vera ekki að draga svo mjög úr þessari tölu.

Það, sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði áðan, kom mér á óvart, ef Reykjavíkurborg og forráðamenn Reykjavíkurborgar vita ekki hvað stendur í þessu frv. Ég get ekki tekið það sem góða og gilda vöru að svo sé. Þetta frv., eins og ég lagði það fram núna í haust, var einnig lagt fram á síðasta þingi og það var endurtekið á þessu þingi óbreytt. Ég verð að segja að það kemur ákaflega spánskt fyrir ef Reykjavíkurborg veit ekki um hvað stendur í þessu frv. Ég get ekki tekið það sem góða og gilda vöru. Ég vona satt að segja að hv. þm. átti sig á að Reykjavikurborg hefur mjög miklar skyldur við Sinfóníuhljómsveitina. Ég nefni m.a. það sögulega í sambandi við Sinfóníuhljómsveitina, að það voru í raun og veru forráðamenn Reykjavíkurborgar sem hvað mest stuðluðu að því í kringum 1950 að Sinfóníuhljómsveitin var yfirleitt stofnuð. Reykjavíkurborg er sá aðili sem langlengst hefur staðið að rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hins vegar hefur hlutur borgarinnar í rekstrinum farið minnkandi. Nú er gert ráð fyrir að hann verði 18%. Það eru ekki mörg ár síðan Reykjavíkurborg samþykkti að taka þátt í 25% af kostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar, en þetta hefur breyst svo núna að það er komið niður í 18% sem Reykjavíkurborg er ætlað að standa undir. Það kemur mér ákaflega mikið á óvart ef forráðamenn borgarinnar eru sér ekki meðvitandi um þessa tölu.

Þó að ég geti að vissu leyti fallist á það, sem fram kom í ræðum hv. flm. brtt. á þskj. 612, að e.t.v. ríður það ekki Sinfóníuhljómsveitinni að fullu þó að till. þeirra væru samþykktar, — það er út af fyrir sig rétt að það mun ekki gera það, — þá held ég hins vegar að það væri hyggilegra fyrir þessa hv. deild að taka mið af því, sem samþykkt hefur verið í hv. Ed., og taka einnig mið af því, sem er till. menntmn. í þessari hv. deild um þetta atriði, sem sagt að standa myndarlega að afgreiðslu þessa máls loksins þegar við eygjum þó nokkra von um að Alþingi geti staðið saman að samþykkja lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands. En auðvitað verða menn að eiga um þetta við sjálfa sig.

Ég hef ekki miklu meira um þetta mál að segja. Ég vænti þess hins vegar, að hv. þd. samþykki frv. eins og það kom frá Ed. og að málið geti orðið að lögum sem fyrst.