23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4123 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að hæstv. menntmrh. hafi ekki áttað sig á hvað er að gerast í fjármálum sveitarfélaga. Ég held að hann hafi ekki minnstu hugmynd um það. (Gripið fram í.) Jú, jú, segir hæstv. ráðh. Veit hæstv. ráðh. að síðasta fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar undir stjórn vinstri flokkanna þurfti á 40 millj. kr. láni að halda frá peningastofnunum til að ná saman? Veit hæstv. ráðh. að það er komið yfir 80% af heildartekjum borgarinnar í rekstrarkostnað við borgina og stofnanir hennar, hefur aldrei nokkurn tíma verið svo hátt? Veit hæstv. ráðh. að af því fé, sem þarf til eignabreytinga á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar koma yfir 20% frá sektarvöxtum Gjaldheimtunnar? Gerir hæstv. ráðh. sér enga grein fyrir því í hvaða klemmu sveitarfélögin eru fjárhagslega? Þessi kostnaðarliður, sem ég er að ræða hér og nú um, Sinfóníuhljómsveitin, er íþyngjandi að enginn getur upplýst hvað hún kemur til með að kosta. Það er prósentuálagning á borgarsjóð, sem er óþekkt tala, ofan á þau vandræði sem ég nú gat um og eru ný dæmi frá gerð fjárhagsáætlunar síðast. Ætlar núv. vinstri ríkisstj. að halda áfram á þessari sömu braut?

Ég verð að leiðrétta hæstv. menntmrh. Framlög Reykjavíkurborgar voru aldrei ákveðin fyrir fram. Það var aldrei samþykki nein prósenta. Það fór eftir því, hvað við höfðum efni á að samþykkja hverju sinni, hvað við samþykktum hátt framlag til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Það var ekki lögboðið. Það komu óskir til borgarstjórnar Reykvíkinga um aukaframlag vegna umframkostnaðar við Sinfóníuhljómsveitina, og borgarráð Reykjavíkur lagði til að það yrði ekki samþykkt og það var ekki samþykkt. Það stóð lengi á því, að ríkið legði sitt fram, vegna þess að Reykjavíkurborg neitaði að samþykkja aukaframlag vegna umframkostnaðar við rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar. Nú á að lögbinda að ákveðin prósenta af rekstri og ákveðin prósenta af alls konar ferðalögum um landið skuli greiðast að 18% af Reykvíkingum. Bréf það frá Reykjavíkurborg sem vitnað var í áðan, eins og réttilega kemur fram á bls. 6, segir ekkert annað en Reykjavíkurborg sé reiðubúin að halda áfram að starfa að þessu verkefni á sama hátt og áður, sem sagt að ákveða sjálf hverju sinni eftir efnum og ástæðum framlag til Sinfóníuhljómsveitarinnar, en það verði ekki lögbundið á þennan hátt.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. .menntmrh. að halda áfram að ganga með höfuðið ofar skýjum og sjá ekki hvað er að gerast í kringum hann. Við skulum leggja þetta frv., eins og það er nú, fyrir borgarstjórn Reykjavíkur og vita hvað hún hefur um það að segja. Það er alls ekki eins og það var þegar það var rætt í borgarráði Reykjavíkur. Ég á sæti í borgarráði Reykjavíkur og var að mótmæla 50 og eitthvað hljóðfæraleikurum, en þeir eru komnir upp í minnst 65 núna.

Það er náttúrlega málefnasnautt að tala um að borgarstjórn Reykjavíkur viti ekki hvað stendur í frv. Auðvitað veit borgarstjórn ekki og ráðherra ekki heldur hvernig frv. verður endanlega afgreitt sem lög frá Alþingi. Ég held að enginn geti sagt um það enn þá. Þetta verður eins og skömmtunarseðill frá Alþingi til borgarsjóðs Reykjavíkur ef borgarstjórn Reykjavíkur fær ekki að segja sitt síðasta orð þegar það liggur fyrir eins og það kemur til með að verða samþykkt á Alþingi.

Við Reykvíkingar viðurkennum vissar skyldur gagnvart allri þeirri starfsemi sem fer fram í borginni, og við erum að sjálfsögðu stór hluti af þjóðinni. Þess vegna segi ég: Það er ekkert óeðlilegt, ef við viljum halda hér uppi þeim hluta af menningu veraldarinnar, sem sumir virðast telja sinfóníuhljómsveitina, umfram jafnvel brauð og annað sem er lífsnauðsynlegt, að við gerum það úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar allrar og Reykvíkingar taki þá á sig sinn þátt í þeirri starfsemi ásamt öllum öðrum. Einhvern tíma heyrði ég því fleygt í umr. um þetta mál í borgarstjórn, að rekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar væri orðinn svo dýr að það margborgaði sig til að viðhalda þessari menningu — við skulum segja að verk yrðu flutt hér — að flytja stórar hljómsveitir frá útlöndum, flytja sinfóníuhljómsveitina frá London eða New York hingað einu sinni í mánuði með flugvélum, það væri ódýrara. Það væri gaman að fá að vita hvort það er rétt, en það kom fram í umr.

Ég vil benda á að unglingar, börn á öllum aldri, sem fara á íþróttamót í Laugardalshöllinni, hafa þurft að borga 3–5 þús. gkr. í aðgangseyri, verulega miklu meira en fullorðið fólk með góð efni, sem stundar hljómleika sinfóníuhljómsveitarinnar, þurfti að borga á þeim tíma. Af hverju erum við að greiða það niður? Ég man ekki hvaða prósentutala það er sem stundar reglulega hljómleika hljómsveitarinnar frá Keflavíkurflugvelli. Af hverju ættum við að greiða það niður?

Ég tek undir þá till. sem hér hefur verið flutt um að auka hlutdeild aðgöngumiðasölu, auka hlutdeild tekna í kostnaði við rekstur hljómsveitarinnar. Að sjálfsögðu tek ég líka undir þá till. að takmarka fjölda fastráðinna hljómlistarmanna við hljómsveitina. Mér finnst það alveg sjálfsagt.

Það vekur furðu mína hvað eftir annað, og það eru kannske fleiri sem hafa tekið eftir því, hvernig þeir útlendingar, sem koma hingað, geta hagað sér og búið þegar þeir koma hingað. Ég er alveg furðu lostinn. Það er eins og þjóðhöfðingjar séu á ferð. Þetta eru þekktir hljómlistarmenn. Þeir búa hér á dýrustu hótelum og hafa í kringum sig hirð, bæði matar- og kaffiboð. Ég hef gert um það fyrirspurn á hóteli hér hver borgaði þá reikninga, en þar var stór hópur listamanna á ferð. Það var Sinfóníuhljómsveit Íslands. Slíkt gengur ekki. Þetta er bruðl. Og meðan Reykjavíkurborg er ekki betur stödd en það undir stjórn vinstri meiri hlutans, að yfir 80% af heildartekjum borgarinnar eru komið í rekstur á stofnunum og borginni sjálfri og innan við 20% til framkvæmda eða eignabreytinga og þar af þarf að taka 20% af þessu framkvæmdafé í refsivöxtum af borgurunum til að framkvæmdir stöðvist ekki alveg, þá held ég að hæstv. menntmrh. ætti að fara að skoða hug sinn betur og vita hvort borgarsjóður Reykjavíkur hafi efni á slíkum lúxus og að Alþingi þvingi upp á hann 18% af kostnaði, sem er óþekktur. Ég mótmæli þessu. Þrátt fyrir stuðning við sinfóníuhljómsveit sem slíka mótmæli ég þessari verklagsaðferð Alþingis.