05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Flm. (Baldur Óskarsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir till. til þál., sem hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá um að nú þegar verði hafist handa við byggingu fyrirhugaðra íþróttamannvirkja á Laugarvatni, sem samþykki voru af menntmrn. 9. júní 1980, til að tryggja starfsemi Íþróttakennaraskóla Íslands og annarra skóla á Laugarvatni og um leið framtíð Laugarvatns sem mennta- og menningarseturs.“

Kveikjan að því, að þessi þáltill. er hér flutt, er sú, að ég fór fyrir viku austur á Laugarvatn á sérstakan baráttufund sem þar var boðað til af öllum nemendum skólanna á Laugarvatni og kennurum skólanna og fjölda fólks úr byggðarlaginu. Þetta var baráttufundur fyrir því, að þegar yrði hafist handa við byggingu fyrirhugaðra íþróttamannvirkja á Laugarvatni. Þarna var verið að mótmæla því, að ekki skuli í fjárlagafrv. veitt veruleg upphæð til þessara mannvirkja. Þetta var mjög ánægjulegur fundur og þarna skapaðist mikil og góð samstaða allra á staðnum, bæði nemenda og kennara og fólksins í kring. Ég er alveg sannfærður um að þessi mikla og góða samstaða og sá baráttuandi, sem á þessum fundi ríkti, mun áreiðanlega verða til að bjarga þessu máli í höfn, því það var öllum ljóst, sem á þessum fundi voru, og það er áreiðanlega flestum alþm. einnig ljóst, að ef ekki verður hafist handa við þetta mannvirki nú þegar er málið í stórhættu og um leið framtíð Laugarvatns sem skóla- og menntaseturs.

Ég fagna því mjög, að þessari baráttu, sem þarna hófst, skuli nú hafa verið fylgt eftir með eftirminnilegum hætti. Hingað til Reykjavíkur koma nemendur og kennarar skólanna á Laugarvatni og ýmsir staðarmenn til að láta í sér heyra bæði ráðuneyti menntamála og fjármála og hv. Alþingi. Sú ferð þeirra að austan er til þess að undirstrika viljann í þessu máli og undirstrika þá alvöru sem býr hjá nemendum skólanna austan fjalls. Hafi þeir heiður fyrir og þökk, því þarna eru þeir ekki fyrst og fremst að vinna fyrir sjálfa sig, heldur fyrir framtíðina.

Á þessum fundi, sem ég var að vísa til áðan, flutti skólastjóri Íþróttakennaraskóla Íslands, Árni Guðmundsson, mjög ítarlega og merka ræðu þar sem hann rakti sögu Íþróttakennaraskólans og gerði grein fyrir því, hvernig að skólanum væri nú búið. Ég ætla í því, sem ég segi hér, að styðjast að verulegu leyti við það sem kom fram þar í máli hans, en vil segja að aðstaða Íþróttakennaraskólans og hinna skólanna á Laugarvatni til íþróttakennslu er auðvitað fyrir neðan allar hellur og til skammar. Það er svo komið að ekki er hægt að veita nemendum Laugarvatnsskólanna nema helming af lögboðinni íþróttakennslu.

Íþróttaskóli Björns Jakobssonar hóf starf á Laugarvatni haustið 1932. Ég þarf að vísu ekki að vera að rekja hér ítarlega sögu Laugarvatnsskólanna, ég held að öllum hv. alþm. og landsmönnum flestum sé hún svo kunn, en ég vil stikla á nokkrum atriðum varðandi íþróttakennaraskólann sérstaklega. — Íþróttakennaraskóli Björns Jakobssonar tók sem sagt til starfa á Laugarvatni haustið 1932. Skóli þessi varð ríkisskóli 1. jan. 1943. Íslenska ríkið tók þá við rekstri hans og kostaði uppbyggingu hans alla. Árið 1946 var tekið í notkun núverandi íþróttahús á Laugarvatni með íþróttasal sem er 12x24 metrar. Íþróttahús þetta þótti á sínum tíma mikil höll, enda stærst slíkra húsa á Íslandi þá. Sumum þótti nóg um þessa stærð, en fleiri lofuðu þó framtakið og töldu Laugvetninga og landsmenn alla vel að slíku húsi komna. Nú er þetta hús auðvitað orðið allt of lítið. Húsi þessu fylgdu bað og búningsherbergi sem eru þannig að menn verða að fara í sérstaka fjölbragðaglímu hver við annan til þess að komast í bað í þessu húsi. Íþróttahús þetta er séreign Íþróttakennaraskóla Íslands. Á Laugarvatni er svo sundlaug, sem byggð var 1929, og hún er 8 x 12.5 metrar að stærð. Að stofni til er þessi sundlaug notuð enn í dag, að vísu færð í núverandi horf 1944 og viðgerð svo árið 1965. Á þeim fundi á Laugarvatni, sem ég er oft búinn að vitna til, lét skólastjóri héraðsskólans þau orð falla að menn gætu ekki áttað sig á því, hvort mundi fyrr hrynja þakið á þessari sundlaug eða þá gaflarnir færu út og þar með vatnið úr lauginni. Þetta ástand er auðvitað alveg til skammar.

Þetta eru þau mannvirki sem notast er við bæði af Íþróttakennaraskóla Íslands og öllum skólunum þarna. En á Laugarvatni eru fimm skólar, þ. e. héraðsskólinn, menntaskólinn, barnaskólinn og hússtjórnarskólinn fyrir utan Íþróttakennaraskólann. Nemendur þessara skóla eru alls tæplega 400.

Það segir sig sjálft að á þessu verður að verða veruleg breyting. Það hefur mönnum lengi verið ljóst því að þessi íþróttamannvirki, íþróttahúsið og sundlaugin, svara að sjálfsögðu ekki lengur kröfum tímans og fullnægja ekki kennsluþörfinni, eins og ég var áðan að segja.

Barátta fyrir nýju íþróttahúsi og nýrri sundlaug hófst fyrir löngu, strax árið 1965 var þetta á döfinni. Eftir að smíði heimavistarhúss Íþróttakennaraskóla Íslands lauk 1968 komst veruleg hreyfing á málið. Það, sem menn hafa verið að tala um að byggja við Íþróttakennaraskólann, er í fyrsta lagi íþróttahús, í öðru lagi sundlaug, kennslustofuhúsnæði og svo kennaraíbúðir. Áætlaður kostnaður þessara mannvirkja allra var í nóvembermánuði 1980 áætlaður 1982 millj. kr.

Það hefur kostað verulegt stríð fyrir forráðamenn Íþróttakennaraskólans og skólanna á Laugarvatni að fá einhverju áorkað í þessu máli. Þeir eru búnir að fara margar göngur hingað suður til yfirvalda til að reyna að hrinda þessu helsta hagsmunamáli skólanna fram. En því miður hafa þeir mætt verulegri tregðu hjá yfirvöldum. Það er nefnilega þannig, að ýmsir menn, ekki síst þeir sem fara með stjórn menntamála á Íslandi, telja mjög vafasamt að setja Íþróttakennaraskóla Íslands niður að Laugarvatni. Það eru ýmsir sem telja að þessi skóli væri betur kominn hér í Reykjavík í tengslum við Kennaraháskóla Íslands.

Ég verð að segja það, að ef það skref verður stigið er það býsna mikið í mótsögn við þá stefnu sem ýmsir hafa haft á oddi, að það væri nær að dreifa stofnunum um landið en að færa þær hingað til Reykjavíkur. Það er alveg ástæðulaust fyrir okkur að vera að flytja þær, sem starfa með góðum árangri úti um landið, hingað til Reykjavíkur. Það er að sjálfsögðu hægt að koma á nánu samstarfi Íþróttakennaraskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands þó að önnur stofnunin sé austur á Laugarvatni og hin hér í Reykjavík. Þetta er ekki sú ógurlega vegalengd. Þegar sá tími rennur upp, að komið verður bundið slitlag alla leið upp að Laugarvatni, ætti þetta ekki að vera mikið vandamál. Að vísu bólar afskaplega lítið á þeirri vegagerð, en það er önnur saga.

Undirbúningsvinna að byggingu íþróttahúss þarna á Laugarvatni hefur verið í gangi undanfarin ár, og með vitorði menntmrn. 9. júní 1980 samþykkti menntmrh. teikningar 1. áfanga íþróttahúss. Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hafði þá sitt hvað við þessar teikningar að athuga og reyndar málið allt. Það ánægjulega gerðist svo, að á fjárlögum ársins 1978 voru veittar á Alþingi 10 millj. gkr. til þessara íþróttamannvirkja sem höfðu verið í undirbúningi, árið 1980 voru veittar á fjárlögum 50 mill j. gkr. í þessu sama skyni og á fjárlögum 1981 voru 100 millj. gkr. til þessara mannvirkja.

Menn stóðu í þeirri góðu trú, að með þessu hefði Alþingi í raun og veru lýst vilja sínum og markað ákveðna stefnu í málinu. En svo gerist það undarlega, að á fjárlögum þessa árs eru aðeins 250 þús. kr. til þessa íþróttamannvirkis, sem er auðvitað allt of lítið til að geta hafið framkvæmdir og er í raun sama upphæð og skólinn fór fram á til tækjakaupa.

Ef ég lýsi aðeins í stórum dráttum hvaða byggingar þarna er verið að ræða um, þá er það í fyrsta lagi íþróttasalur sem er áætlaður 27 x 45 m að flatarmáli með 7 m lofthæð, sex búningsherbergjum og þremur baðherbergjum, lyftingasal og aðstöðu fyrir húsvörð og annað starfsfólk. Íþróttasalurinn er hugsaður þannig að skipta megi honum í þrjár einingar með tjöldum þar sem hver eining yrði 15x27 m. Í um 3 m hæð frá gólfi er gert ráð fyrir svölum meðfram öllum veggjum, sem nýta má sem hlaupabraut og nota jafnframt því sem aðrar íþróttir eru iðkaðar á gólfi hússins. Að því er mjög mikið hagræði. Gert er ráð fyrir sætum fyrir áhorfendur á framdregnum bekkjum. Yrði gólfflötur íþróttahússins þá 22x45.

Í öðru lagi er svo gert ráð fyrir sundlaug sem er 12x25 m.

22. maí 1981 var haldinn fundur í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir. Fundinn sátu auk nefndarmanna Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi ríkisins og Árni Guðmundsson skólastjóri. Á fundinum samþykkti nefndin byggingu íþróttahúss á Laugarvatni, þó á þann hátt að aðeins yrðu steyptir upp 2/3 hlutar íþróttahússins að sinni, en grunnur og botnplata fyrir allt húsið.

Árni skólastjóri lýsti andstöðu sinni við þessi málalok og taldi þetta skerða nýtingu hússins verulega. T. d. kæmi hlaupabrautin ekki að gagni, einni einingu yrði færra og minni gólfflötur til allra stærri knattleikja og frjálsra íþrótta. Efaðist hann um hagkvæmni slíkrar skerðingar með tilliti til heildarkostnaðar, benti á bráðabirgðagafl, gólfefni með merkingum þyrfti að endurnýja við stækkun. Þessu væri auðvitað hægt að breyta að vilja Alþingis og reisa allt húsið í einu lagi.

Málið hefur svo dregist á langinn, þótt skipulagsyfirvöld heima fyrir svo og skólanefnd héraðsskólans, eigandi lóðarinnar, hafi þegar samþykkt staðsetningu hússins.

Teikningar, hönnunargögn og útboðslýsing voru svo lögð inn til framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins, en þetta útboð hefur enn ekki farið fram, en nauðsynlegt er að það gerist strax, jafnframt því sem á fjárlögum verði tryggt nægilegt fjármagn til þessara framkvæmda.

Ég gæti auðvitað talað um þetta langt mál, en ég sé ekki neina ástæðu til þess. Kjarni málsins er augljós. Ég get þó aðeins bætt því við, að árið 1978 fór menntmrn. fram á, að nemendum Íþróttakennaraskóla Íslands yrði fjölgað í 50, án þess að nokkrar ráðstafanir væru gerðar til að auka rými íþróttakennslunnar. Þetta varð til þess að skerða enn þá frekar íþróttakennslu við hina skólana, að ekki sé talað um aðstöðu til frjálsra æfinga, og er þó unnið í íþróttahúsinu frá því kl. 8 á morgnana og langt fram á nótt.

Kjarni málsins er þetta: Alþingi þarf að hrista af sér slenið, ákveða í eitt skipti fyrir öll að á Laugarvatni skuli Íþróttakennaraskóli Íslands vera og þar skuli rísa myndarlegt íþróttamannvirki sem ekki sé aðeins notað fyrir Íþróttakennaraskólann, heldur alla hina skólana líka, notað af fólkinu í hreppunum í kring, notað fyrir Ungmennasambandið Skarphéðin og notað fyrir æsku Íslands. Það er auðvitað nauðsynlegt að slíkt íþróttamannvirki sé til á góðum stað þar sem hægt er að vera með sumarnámskeið af ýmsu tagi, hægt að bjóða upp á námsaðstöðu fyrir afreksmenn okkar sem þurfa að æfa og þjálfa og stilla saman kraftana, hvort heldur um er að ræða landskeppni eða annan leik. Laugarvatn er tilvalinn staður til þess.

Ýmsir hafa haldið því fram, að framtíð Laugarvatns sé líka óljós vegna þess að miklar breytingar hafa verið að gerast í fræðslumálum okkar á þann hátt, að grunnskólarnir hafa tekið að kenna meira en áður var. Nú er 9. bekkur í mörgum skólum og fjölbrautaskólar hafa risið. Í Suðurlandskjördæmi er um að ræða skóla á Selfossi, sem auðvitað þarf að efla og styrkja, og framhaldsskóla í Vestmannaeyjum af sama toga.

En það hefur sýnt sig, að þrátt fyrir þetta er mjög mikil nauðsyn á að skólastarf haldi áfram á Laugarvatni með sama hætti og undanfarið. Það hefur verið nægjanleg aðsókn þar að öllum skólum, og ég er sannfærður um að ef aðstaða kæmi þar til íþróttaiðkana, eins og við erum hér að ræða um, þá mundi aðsóknin eflast enn og draga að sér fleira fólk á staðinn.

Ég vonast til þess að hér á Alþingi eins og fyrir austan takist breið samstaða um að hrinda þessu þjóðþrifamáli í framkvæmd og það sem fyrst. Ég teldi það alþm. til gildis að taka myndarlega undir þessa till., og ég skora sömuleiðis á þá að leggja myndarlega til þessa mannvirkis á fjárlögum. Þessi þáltill. er sérstaklega flutt til að vekja athygli Alþingis og þjóðarinnar á þessu og til þess að fá sem fyrst ákveðna og eindregna viljayfirlýsingu Alþingis í málinu. Ég á satt að segja von á því, að margir alþm. beri svo hlýjan hug til Laugarvatns að þeir treysti sér til að styðja till. af þessu tagi. Ég trúi ekki öðru en það muni gerast.

Það er alveg áreiðanlegt, að þeir, sem eru hér á pöllunum í dag, og aðrir, sem hafa hafið baráttu fyrir þessu máli alveg sérstaklega að gefnu tilefni, munu fylgjast vel með því, hvernig viðtökur þetta mál fær hér á Alþingi. Ég er sannfærður um að þeir munu ekki hafa neinar hótanir í frammi í því sambandi, heldur muni þeir fylgjast með málinu af hógværð en jafnframt festu, til þess að sýna í verki þann vil ja sem að baki þeim aðgerðum býr sem þeir hafa efnt til bæði nú í dag og fyrir viku austur á Laugarvatni. Ég á satt að segja von á því, að einhugur verði um þessa þáltill. og að hún verði afgreidd fljótt og vel. Ég mælist til þess við þm., að þannig verði að verki staðið.

Ég held að með því, að þessi langþráðu mannvirki rísi á Laugarvatni, séum við í fyrsta lagi að treysta og tryggja starfsemi Íþróttakennaraskóla Íslands, við séum að vinna þarft verk fyrir skólana og héraðið og við séum að vinna þarft verk fyrir æsku Íslands og íþróttamenn landsins sem við erum stolt af mörgum hverjum og viljum búa í haginn fyrir. Þessi mannvirki verða notuð af nemendum, héraðsbúum og íþróttamönnum um allt land allan ársins hring. Ég er alveg sannfærður um að þegar þau hafa risið austur á Laugarvatni munu margir vilja Lilju kveðið hafa.

Ég skora á alla alþm. að sameinast um þetta þjóðþrifamál.