23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4127 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

129. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. meiri bl. (Jósef H. Þorgeirsson):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur haft til athugunar frv. til laga um lokunartíma sölubúða, en frv. þetta gerir ráð fyrir að þær breytingar verði gerðar á ákvæðum laga nr. 17 frá 1936 um samþykktir um lokunartíma sölubúða, að ákveðið verði í 1. gr. að lokunartími sölubúða skuli vera frjáls og í 2. gr. að niður falli lög nr. 17 frá 1936 um samþykktir um lokunartíma sölubúða.

Nefndin hefur sent þetta frv. til allmargra umsagnaraðila, og þar sem umsagnir falla í ákaflega mismunandi farveg tel ég rétt að fara örfáum orðum um þær umsagnir sem borist hafa.

Einn af þessum umsagnaraðilum var hreppsnefnd Mosfellshrepps og hreppsnefndin svaraði og lýsti sig fylgjandi því, að þetta frv. yrði að lögum.

Bæjarstjórn Seltjarnarness lýsti sig í grundvallaratriðum samþykka efni frv., en bendir þó á að nauðsynlegt geti reynst að hafa í gildi reglur, m.a. um lágmarksopnunartíma til að tryggja rétt neytenda svo og reglur er koma í veg fyrir truflun í íbúðahverfum vegna nætursölu.

Bæjarstjórn Kópavogs telur, að ekki sé rétt að fella úr gildi lög nr. 17 frá 1936, og álítur rétt að heimild til setningar reglugerðar um lokunartíma og fleira sé hjá hverri sveitarstjórn, sérstaklega með tilliti til mismunandi aðstæðna í hverju sveitarfélagi.

Verslunarráð Íslands tekur undir þær skoðanir sem fram koma í grg. með frv., en mælir hins vegar með að löggjöf verði sett um þetta efni. Frá Verslunarráðinu komu frumdrög að slíkri löggjöf. Í 1. gr. er m.a. það ákvæði að finna, að afgreiðslutími verslana skuli vera frjáls, en í 3. grein drögum Verslunarráðsins segir svo orðrétt, með leyfi forseta: „Afgreiðslutíma verslana er ekki heimilt að binda í kjarasamningum vinnuveitenda og stéttarfélaga.“

Frá Kaupmannasamtökum Íslands barst umsögn. Ég hygg að sjónarmiðum Kaupmannasamtakanna sé best lýst með því, að þau beina þeim eindregnu tilmælum til hv. Alþingis að sett verði nú þegar lög um afgreiðslutíma verslana þar sem verslunarfólk verði tryggt gegn óhóflegum vinnutíma og verslun gegn stórauknum kostnaði sem óhjákvæmilega kæmi fram í hærra vöruverði.

Kaupmannasamtökin segja að það sé stefna Kaupmannasamtakanna að afgreiðslutími verslana verði ákveðinn með landslögum og verði samræmdur um land allt. Þau gera að tillögu sinni að eftirfarandi grundvallaratriðum verði fylgt við ákvörðun verslunartíma: Í fyrsta lagi verði svokallaður grunntími þar sem allar verslanir séu opnar, í öðru lagi verði um að ræða ákveðinn valtíma þar sem heimilt verði að hafa verslanir opnar ákveðinn tímafjölda á viku hverri umfram grunntímann, og í þriðja lagi gera þau tillögu um tímabundin frávik frá ofangreindum reglum í einstökum byggðarlögum þegar sérstaklega standi á, t.d. vegna atvinnustarfsemi, þjónustu við ferðamenn eða sérstaka mannfagnaði.

Samband ísl. samvinnufélaga segir svo í sinni umsögn, að sambandið áliti eðlilegast að þjónustutími verslana sé ákvarðaður af hverju sveitarfélagi um sig, enda beri sveitarstjórnir ábyrgð á nægri og skynsamlegri þjónustu handa íbúunum.

Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur sent nefndinni mjög ítarlega álitsgerð og lýsir sig andvígt frv. og telur að það sé í alla staði óeðlilegt að hafa ákvæði um verslunartíma með þeim hætti að aðilum vinnumarkaðarins verði ekki heimilt að semja um afgreiðslutíma verslana, eins og segir í áliti Verslunarmannafélagsins að þessir aðilar hafi gert um margra áratuga skeið, en bein ákvæði um opnunartíma mundu gera þá samninga að engu.

Verslunarmannafélagið telur eðlilegt að með löggjöf séu verslunarmenn verndaðir gegn óhóflegum vinnutíma, enda hafi sýnt sig að mjög erfitt hafi reynst að koma á vakaskiptum í verslunum. Félagið bendir á að í Reykjavík eða á félagssvæði VR vinni um 3000 manns í 600–700 verslunum og ef koma eigi á vaktavinnu telur félagið að mundi þurfa að tvöfalda þá tölu starfsmanna. Félagið bendir einnig á að á undanförnum árum hafi Alþingi iðulega talið ástæðu til að setja löggjöf sem fjallar um fjöldamörg hagsmunamál launþega, og nefnir félagið sem dæmi í því efni lög um 40 stunda vinnuviku, lög um orlof, lög um aðbúnað á vinnustöðum og lög um starfskjör launafólks. Því telur félagið að ekki sé óeðlilegt að Alþingi hafi sett heimildarlög sem miði að því að koma í veg fyrir óhóflega langan vinnutíma afgreiðslufólks.

Lokaorð umsagnar Verslunarmannafélags Reykjavíkur eru á þessa leið: „Eins og ljóst er af framangreindu eru fjölmörg rök sem mæla gegn samþykkt þessa frv. Því er stefnt gegn hagsmunum afgreiðslufólks og er í beinni andstöðu við stefnu meiri hluta Alþingis á undanförnum árum, sem veitt hefur verkalýðshreyfingunni ómetanlegan stuðning með setningu fjölmargra laga er varða hagsmuni launþega. Verslunarmannafélag Reykjavíkur skorar því á Alþingi að samþykkja ekki þetta frv.“

Umsögn frá Landssambandi ísl. verslunarmanna er örstutt, en þar segir frá því, að sambandið hafi kynnt sér umsögn Verslunarmannafélags Reykjavíkur og lýsi yfir fyllsta stuðningi við umsögn Verslunarmannafélagsins og skori á Alþingi að samþykkja ekki þetta frv.

Ég hef í örstuttu máli reynt að gera þd. grein fyrir meginefni þeirra umsagna sem nefndinni bárust.

Meiri hl. n. hefur athugað þetta frv., eins og áður segir, og það er skoðun meiri hluta n. að ákvörðun um opnunartíma verslana sé best komið í höndum hverrar sveitarstjórnar fyrir sig og því beri að halda í gildi þeim ákvæðum, sem eru í lögum nr. 17 frá 1936, sem heimila sveitarfélögunum að setja sérstakar samþykktir um opnunartíma sölubúða. Meiri hl. n. leggur því til að þetta frv. verði fellt.