23.04.1982
Neðri deild: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4129 í B-deild Alþingistíðinda. (3713)

129. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minni hl. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. hv. allshn., sem telur mig víst einan að því er þetta mál varðar. Það þarf varla að koma á óvart þar sem ég var 1. flm. að því frv. sem hér um ræðir og fjallar um lokunartíma sölubúða.

Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja, að um margra ára eða áratuga skeið hafa verið allskiptar skoðanir um þetta efni í samfélaginu og hafa þær deilur raunar komið upp t.d. í blöðum því sem næst árvisst, ef ekki oft á ári, um mörg ár. Það frv., sem hér um ræðir, var og er raunar örstutt. Það segir aðeins að lög nr. 17 frá 1936 skuli falla úr gildi, en eftir standa þó ein setning, að opnunartími sölubúða skal vera frjáls. Fyrir þessu eru færð þau rök m.a. í grg. með frv., að einkum í þéttbýli hafi orðið grundvallarbreytingar á samfélagsgerðinni síðan þessi lög voru sett, og þau voru raunar ekki sett 1936, heldur 20 árum fyrr eða 1917. Sú grundvallarbreyting, sem hér er átt við, hefur helst orðið sú, að það gerist æ algengara að bæði maka, þ.e. bæði karl og kona í sambúð, vinni reglulegan vinnudag utan heimilis og af þessum ástæðum séu alls ekki gild rök fyrir því að lögbinda, þó það sé raunverulega ekki gert af löggjafanum, heldur af einstökum sveitarstjórnum eins og löggjöfin gefur heimild til, — að lögbinda þennan opnunartíma, en það er gert mjög víða á þéttbýlisstöðum, og það er bundið við venjulegan skrifstofutíma eða kannske heldur rýmri tíma. M.ö.o.: þau grundvallarrök, sem hníga helst að þeirri breytingu, að þetta sé gefið frjálst, eru sú staðreynd að það er af sem áður var, og það þykir hv. þm. væntanlega og vonandi af hinu góða, að allur þorri kvenna gegni starfi húsmóður í hefðbundnum skilningi þess orðs og hafi þess vegna rúman tíma til að versla á morgnum eða kringum hádegisbilið, eins og gert var hér á árum áður. Það er auðvitað öllum ljóst, að um þetta hafa verið mjög skiptar skoðanir.

Mig langar, herra forseti, til að hlaupa á nokkrum erindum, sem hv. allshn. þessarar deildar hafa borist, þar sem hin einstöku samtök, sem til var leitað, hafa verið að tjá sig í þessum efnum.

Fyrst er það nú, að hv. frsm. Jósef H. Þorgeirsson gerði raunar ágætlega og skilmerkilega grein fyrir þessu í sinni framsöguræðu.

Ef litið er t.d. á röksemdafærslu Kaupmannasamtaka Íslands vísa þau í samþykkt sem þau gerðu á fundi 3. desember á síðasta ári. Þeir segja að þeir lýsi furðu sinni á fram komnu frv. til laga varðandi lokunartíma sölubúða — það er ekkert minna. Á hverju skyldu þeir svo vera að lýsa furðu sinni, sem er, held ég, óvenjulegt orðalag í umsögnum af þessu tagi? Jú, þeir segja síðan, og með leyfi forseta vísa ég í bréf frá Kaupmannasamtökum Íslands: „Eins og aðrar starfsstéttir á það fólk, sem vinnur verslunarstörf, fullan rétt á að skynsamleg löggjöf sé í gildi um atvinnu þess.“ — Sannleikurinn er sá, að ég held að það sé leitun í umsögnum, sem nefndum berst, að jafnstuttri setningu sem felur í sér jafnótölulega margar rangfærslur og þessi umfjöllun Kaupmannasamtaka Íslands gerir. Í fyrsta lagi er það auðvitað alrangt að það gildi ekki eftir sem áður skynsamleg löggjöf. Það gilda sömu lög. Verði þetta frv. að lögum og þessi sérlög um verslanir afnumin gilda auðvitað eftir sem áður öll venjuleg ákvæði um verslunarfólk, þar með ákvæði um 40 stunda vinnudag. Þar gilda sömu lög og um allt annað launafólk í landinu, hvorki rýmri lög né takmarkaðri. Þetta er raunar þekkt röksemdafærsla bæði frá Kaupmannasamtökunum og eins, því verr og miður, frá samtökum verslunarfólks sem láta æ ofan í æ í það skína, að verið sé að leggja til að afnema lög og þetta fólk standi uppi lögverndarlaust, ef frv. þessa efnis verði samþykki. Þetta er rangt.

Sannleikurinn er sá, að þetta eru meiðandi athugasemdir við tilgang þessa frv. og við flm. þess. Og af hverju eru þetta meiðandi athugasemdir? Ég hleyp frá því sem Kaupmannasamtök Íslands segja í niðurlagi umsagnar frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, sem er undirrituð af Magnúsi L. Sveinssyni og hv. frsm. Jósef H. Þorgeirsson vísaði raunar til áðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Því“ — þ.e. þessu lagafrumvarpi — „er stefnt gegn hagsmunum afgreiðslufólks og er í beinni andstöðu við stefnu meiri hluta Alþingis á undanförnum árum, sem veitt hefur verkalýðshreyfingunni ómetanlegan stuðning með setningu fjölmargra laga er varða hagsmuni launþega.“

Hér kemur fram sami óendanlegi hugarruglingurinn og hjá Kaupmannasamtökunum. Halda menn að þó að þessi sérlög um verslanir séu afnumin gildi ekki eftir sem áður almenn lagaákvæði um verslunarfólk? Vitaskuld. Verslunarfólk stendur í nákvæmlega sömu sporum og allir aðrir launþegar í landinu. Mér er ekki grunlaust um, að því miður hafi forustufólk í þessu félagi rangtúlkað þetta frumvarp fyrir sínu fólki, og vísa þá í blað þess, þar sem þetta frumvarp var birt og umsögn þessi undir stórri fyrirsögn: Gegn hagsmunum afgreiðslufólks.

Þessi fullyrðing Kaupmannasamtakanna og svo ítrekun hennar frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur eða talsmönnum þess í þessu efni — ég get ekki vísað til annars en þess sem undir þetta bréf ritar — þetta eru alvarlegar rangfærslur. Ég held að það hafi ekki vakað fyrir mér, hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur eða hv. þm. Árna Gunnarssyni að vera að leggja til frv. sem gerði rétt þessa fólks minni en rétt allra annarra launþega í landinu. Eins og talið er upp í frv. eru í gildi margháttuð almenn lög, t.d. um 40 stunda vinnuvika, svo nokkuð sé nefnt. Vitaskuld koma þau lög til með að gilda eftir sem áður. Það er verið að leggja til að sérlög séu úr gildi numin.

Alvarlegasta rangfærslan, sem aftur og aftur er hamrað á að því er þetta varðar, kemur fram hjá Kaupmannasamtökunum, með leyfi forseta: „Eins og aðrar starfsstéttir á það fólk, sem vinnur verslunarstörf, fullan rétt á að skynsamleg löggjöf sé í gildi um atvinnu þess.“ Drottinn minn! Vitaskuld má taka undir að þetta fólk eigi rétt á skynsamlegri löggjöf eins og aðrar starfsstéttir. Það mun það hafa þó svo að þessi sérlög um verslunina, en ekki um verslunarfólk, séu felld úr gildi í þessum efnum.

Vegna þess að Kaupmannasamtökin svara fyrir sig og gera athugasemdir með þessum hætti, lýsa furðu sinni á framkomnu frumvarpi, er eðlilegt að svolítið sé spyrnt við. Ég spyr: Vakir það fyrir Kaupmannasamtökunum í þessum efnum að hugsa um starfsfólkið fyrst og fremst? Gott og vel. Við skulum gefa okkur að svo sé, að þau séu að hugsa um verslunarfólkið í þessum efnum. En hvað þá með allar sjoppurnar sem eru opnar? Hvað með margháttuð önnur störf sem unnin eru? Af hverju er fólk í þessum tilteknu verslunum sérstaklega tekið út úr og krafist sérlaga um það, eins og er gert á öðrum stað? Niðurstaða mín af þessu — og um þetta mætti auðvitað hafa miklu lengra mál — er afskaplega einfaldlega sú, að í þessum efnum hafi launamannafélag og kaupmannasamtök — eða ráðandi öfl innan þessara félaga skulum við heldur segja — sameinast um að búa til alfalskar forsendur fyrir sínum málstað.

Því má skjóta inn, að sögulega er þetta út af fyrir sig ekkert skrýtið því að Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur mjög verið fyrir vagni þeirra sem hafa mótmælt opnunarlögum eða frelsislögum af þessu tagi. Því má ekki gleyma, að saga þess félags er sú, að allt fram til 1955 var þetta ekki launamannafélag í venjulegum skilningi. Þetta var sameiginlegt félag launamanna og atvinnurekenda í greininni. Stundum hef ég það á tilfinningunni, að það sé þannig sem þessi málstaður er til orðinn, af einhverri misskilinni sögulegri tryggð haldi Verslunarmannafélagið, eftir að það varð hreint launamannafélag, tryggð við þessa gömlu stefnu sína, en það taki hvorki tillit til gjörbreyttra aðstæðna í þjóðfélaginu né nógsamlega tillit til breytinga á félaginu sjálfu.

Vegna þess, sem sagt hefur verið og bæði kaupmenn og verslunarmannafélag segja um hvað þetta frv. hafi í för með sér fyrir launafólkið, endurtek ég að þessi ummæli, ítrekuð aftur og aftur, eru meiðandi fyrir flutningsmenn. Vitaskuld mun eftir sem áður verða að semja um kaup og kjör, og það sem menn vinna fram yfir 40 stunda vinnuviku, vitaskuld er til þess ættast að fólk hafi fyrir slíka vinnu miklu betri kjör, hafi yfirborganir og þær miklar. En það eru samningsatriði aðila á hinum frjálsa vinnumarkaði. Satt að segja virðast mér allar þessar röksemdafærslur hjóm eitt þegar þess er gætt að hér erum við að tala um breiðasta skárann af einhverjum hinum mesta láglaunahóp í landinu.

Hverju sætir það, að árum og áratugum saman hefur afgreiðslufólk í verslunum verið eitthvert mesta láglaunafólk í landinu? Ég hygg að það þurfi ekki að leita langt að skýringum á því. Ég fullyrði að margt af þessu fólki væri tilbúið að vinna skiptivinnu einhvers konar, vaktavinnu, ég tala nú ekki um ef svo semdist að fyrir það hefði það mun betri tekjur en þær sem það hefur núna. Slíkt mun hækka vöruverð, segir einhver. Það er auðvitað rétt. Einhvers staðar mun þessi breyting hækka vöruverðið. En hvað erum við að gera í öllu daglegu lífi oft og iðulega annað en greiða meira fé fyrir betri og aukna þjónustu — og hvað með það? Í þessum efnum sem öðrum getur það vel verið að einhverju leyti, ég held ekki að miklu leyti og ég held raunar litlu leyti. Það getur vel verið að eitthvað af þessu muni koma fram í eitthvað hærra vöruverði. Ég sé út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við það.

Ef horft er til Reykjavíkur, sem þetta mál varðar kannske mest, nágrannabyggðanna hér og Akureyrarsvæðisins þá einnig höfum við, eins og reglur hafa verið, sjoppu- og lúgumenningu á kvöldin. Sannleikurinn er sá, að á þessu er óendanlegur ómenningarbragur og óþarft er að skipa málum með þessum hætti. Slíkt er einnig veigamikil undirstrikun þess hvað það eru falskar röksemdir að hér sé verið að hugsa um verslunarfólkið fyrst og fremst. Hverjir eru það sem afgreiða í þessum lúgum og sjoppum öllum saman? Það er væntanlega alveg eins fólk og það sem afgreiðir í hinum hefðbundnari verslunum. Ef menn meintu eitthvað með þessum röksemdum um vinnudaginn ættu þeir að hafa athugað þetta allt saman betur.

Því segi ég þetta, að ég trúi ekki orði af því sem báðir þessir aðilar segja um að þeir séu fyrst og fremst að ganga erinda verslunarfólksins, vegna þess að ég hef séð of mikið af því, t.d. í málgögnum og í greinargerðinni sem hér er vísað til, að mál þetta er lagt ranglega upp. Það er rangt að segja að þessu frv. sé stefnt gegn hagsmunum afgreiðslufólks. Það er rangt og það er meiðandi að segja að þetta frv. sé í beinni andstöðu við stefnu meiri hl. Alþingis á undanförnum árum, sem veitt hafi verkalýðshreyfingunni ómetanlegan stuðning með setningu fjölmargra laga o.s.frv. Þetta stenst ekki vegna þess að öll hin almennu lög sem í gildi eru og þau eru mörg, munu öll eftir sem áður gilda um þetta fólk. Það eru þessi sérlög sem verið er að tala um.

Þetta er um þann þátt sem að launafólkinu snýr. Hitt þarf ekki að taka fram, að auðvitað er meginforsendan með frv., meginástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt, að þetta eru beinir og augljósir og borðliggjandi hagsmunir neytenda. Eitt af því, sem Kaupmannasamtökin segja í þeirri grg., sem þau sendu hv. allshn., er, með leyfi forseta: „Í nær öllum nágrannalöndum okkar eru í gildi lög um afgreiðslutíma verslana, sem koma í veg fyrir vinnuþrælkun“ — kemur það nú enn — „og mismunandi opnunartíma verslana í sveitarfélögum.“ Þetta er rangt náttúrlega. Kaupmannasamtökin sjálf hafa tekið saman grg. og ég nefni eitt dæmi. Í Frakklandi er þetta alveg frjálst. Hið merkilega er að í Svíþjóð voru strangar reglur um verslunartíma en frá 1972 mega verslunareigendur þar sjálfir ráða opnunartíma verslana sinna og svo eru ýmsar reglur sem þeir sjálfir setja. M.ö.o.: það var jafnaðarmannastjórnin í Svíþjóð sem kom á 1972 reglum eins og þeim sem við hv. þm. Guðrún Helgadóttir og Árni Gunnarsson erum að leggja til að hér verði teknar upp. Það finnst mér vera til umhugsunar. Væntanlega hafa þeir í Svíþjóð ekki verið að setja reglur gegn verslunarfólki, heldur aðeins að búa til nútímalegar reglur sem koma til móts við hagsmuni neytenda og raunar launafólks einnig.

Í einu bréfinu, sem hv. allshn. barst, það var bréf frá Mosfellshreppi, segir svo, með leyfi forseta:

„Í Mosfellshreppi hafa verslanir haft rúman opnunartíma, sem þær hafa ákveðið sjálfar gegn því að greiða tilskilin kvöldsöluleyfi í sveitarsjóð. Ekki er kunnugt um annað en að þjónusta þessi sé vel metin af íbúum hreppsins, og ekki hafa heyrst kvartanir frá starfsfólki um óhóflegan vinnutíma, enda mun þar vera um vaktafyrirkomulag að ræða.“

Þegar þessa er gætt, að þar í vaxandi og þróttmiklu sveitarfélagi er um að ræða að sveitarstjórnin nýtir sér ekki þann rétt sem hún hefur með lögum nr. 17 frá 1936, — ég vil taka það sérstaklega fram að starfsfólk hefur engar athugasemdir eða kvartanir gert — þá spyr ég: Um hvað er verið að tala? Af hverju taka bæði launþegasamtökin og kaupmannasamtökin svona í þetta. Og ég svara þessu. Ég held því fram, að hér sé um að ræða fyrst og fremst hagsmuni ákveðinna afla innan kaupmannasamtakanna, hér sé um að ræða miðlungs- og þaðan af stærri kaupmenn sem eru með marga launamenn í þjónustu sinni og óttist að þeir geti ekki keppt við kaupmanninn á horninu, óttast að þeir þurfi að borga hærri vinnulaun. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi málatilbúnaður sé einfaldlega svona til orðinn og það, sem þessir menn segja um hagsmuni launafólks eða telja að séu hagsmunir launafólks, sé einfaldlega út í bláinn og komi þessu máli ekkert við frá þeirra bæjardyrum séð. Það er ekki það sem þeir raunverulega eru að hugsa um. Mér er Ijóst að það verður dýrara að reka miðlungs- og stærri verslanir verði þetta gefið frjálst, og mér er ljóst að verði þetta gefið frjálst mun það koma sér vel fyrir kaupmanninn á horninu. Hann hefur alls staðar átt í vök að verjast gagnvart stórmörkuðum og öðrum slíkum, og ég dreg enga dul á að þetta frv. er flutt beinlínis til að rétta af samkeppnisaðstöðu litla mannsins gagnvart stórmörkuðum.

Reynsla annars staðar frá sýnir að þetta er rétt röksemdafærsla. Það má nefna umræður um þetta í Frakklandi og það má nefna það sem gerðist í Svíþjóð þegar þeir breyttu. „Litli maðurinn“ — í gæsalöppum sagt og í þessum venjulega búðarskilningi — getur veitt þjónustu utan þessa tíma og bætt sig upp. Hann leggur oft meira á vörurnar. Það er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt við áð hann geri það. Neytandinn velur svo og hafnar.

Ég er m.ö.o. þeirrar skoðunar, að hér sé um að ræða pólitík innan hóps kaupmannanna og þegar menn taka afstöðu í þessum efnum séu þeir að draga taum annars deiluaðila í þeim efnum gegn hinum og þetta komi launafólki ekkert við. Það munu auðvitað gilda öll almenn lög og allar almennar reglur um þetta launafólk eins og allt annað launafólk. Mér er raun að því að þurfa að segja að launþegafélagið — ég hef ástæðu til að ætla það og sterkan grun um það — sé þátttakandi í þessum deilum, þó svo það látist vera að tala um hagsmuni launafólks. Hugsum okkur að hér í Reykjavík t.d. gilda í raun þau lög, að Alþingi heimilar sveitarstjórn að setja reglur sem segja við fólkið í verslunum: Þú átt að vinna frá kl. 9 á morgnana til kl. 6 á daginn. Af hverju setja þá ekki menn svona lög um bílstjóra eða einhverja aðra? Auðvitað dytti ekki nokkrum manni það í hug.

Þetta mál hefur aldrei snúist um hagsmuni launafólksins. Það hefur alla vega ekki verið neitt hreyfiafl, nein frumforsenda í þessum málatilbúnaði öllum. Hér er um að ræða hagsmunamál með eða móti tilteknum aðilum innan samtaka kaupmanna. — Það er um það sem þetta snýst fyrst og fremst.

Herra forseti. Um þetta mál mætti hafa langt mál því að það snertir veigamikinn þátt í því, hvernig þessi samfélagsgerð er upp byggð og saman sett. Eitt er út af fyrir sig furðulegt og kostulegt í þessum efnum, og það er afstaða Sjálfstfl. til þessa máls, Sjálfstfl. sem stofnunar og þm. Sjálfstfl. sem einstaklinga, afstöðu þeirra einnig í bæjarstjórnum, bæði í nágrannabyggðum Reykjavíkur og í bæjarstjórn Reykjavíkur. Þetta allt saman þekkja menn vegna þess að þetta hefur oft komið til í þessum efnum. Hvað er eðlilegra, hvað er skyldara hugmyndum manna um frelsi til athafna en þetta? Hugsum okkur að ungur maður eða ung kona hér í Reykjavík vilji byggja upp lítið atvinnufyrirtæki, setja upp litla verslun á einhverju horni í gamla bænum, Breiðholtinu eða hvar sem er. Eins og gerist leggja menn mjög hart að sér þegar þeir eru að koma upp slíkum smáatvinnurekstri. Hvað er eðlilegra en það, meðan þetta fólk er að byggja upp sitt litla fyrirtæki, ef það vill, að það vinni lengri vinnudag til að fá sér viðskiptavini og stofnsetja sig á þessum nýja stað í þessu nýja hverfi? Ég spyr satt að segja líka: Hvað er eðlilegra og hvað ætti að vera meira í samræmi við stefnu Sjálfstfl., sé hún einhver, en að styðja reglur af þessu tagi? Ég fæ ekki betur séð en sé einhver meining á bak við almenna hugmyndafræði flokks af tegund Sjálfstfl. væri það einmitt að vilja burt með þvingunarreglur af þessu tagi. En þá gerist það, að Sjálfstfl. gengur fram fyrir skjöldu — og auðvitað kemur það ekki nokkrum manni á óvart hér og nú, þetta hefur margoft komið upp í borgarstjórninni og þar áður í bæjarstjórninni í Reykjavík — til að setja reglur um boð og bönn í þessum efnum. Það er út af fyrir sig, að minni hyggju, bæði mjög kostuleg saga og kostulegt að þessi mál skuli gerast með þessum hætti.

En ég lít svo á, að í fyrsta lagi sé hér um að ræða augljósa hagsmuni neytenda, í öðru lagi séu það hreinar rangfærslur að þessu sé með einum eða öðrum hætti stefnt gegn verslunarfólki eða fólki sem afgreiðir í búðum, vegna þess einfaldlega að um þetta fólk munu gilda nákvæmlega sömu almennu lögin og reglurnar og um allt annað launafólk í landinu, en í þriðja lagi, og það er kannske alvarlegasta umræðuefnið fyrir þá hér inni sem hafa talið sig öðrum meiri talsmenn frelsis, lít ég svo á að þessar reglur, jafnvel frá upphafi eða alla vega í seinni tíð, séu til orðnar fyrir miðlungs- og stærri kaupmenn og sé stefnt gegn öðrum sem hugsanlega geti veitt þeim samkeppni með þessum hætti. Það finnst mér satt að segja vera ekki ómerkasti þáttur þessa máls. Ég dreg enga dul á að þetta frv. er m.a. flutt, fyrir utan öll þau almennu sjónarmið sem ég hef nefnt, til að freista þess að lyfta litla kaupmanninum í þeirri erfiðu stöðu sem hann á í gagnvart vaxandi stórmörkuðum. En í þessari umr. væri ákaflega fróðlegt að heyra hvernig hv. þm. Sjálfstfl. rökstyðja þá afstöðu sem fram kemur í nál. því sem hér hefur verið talað fyrir.

Herra forseti. Ég mun ljúka þessu máli. Ég hef óskað eftir að það gangi til atkv. Ég geri mér auðvitað ekki miklar vonir um að það verði samþykkt að þessu sinni, en sú atkvgr. gæti hins vegar orðið þeim fjölmörgu einstaklingum, sem af alls konar ástæðum hafa áhuga á þessu máli út um borg og bý, tilefni til umþenkingar um með hverjum hætti svona málum er ráðið í þjóðfélaginu, hvenær frelsi eigi að ríkja, hvenær eigi að setja reglur sem innihalda boð og bönn. Gæti verið til umhugsunar líka hverjir það eru sem vilja slíkar reglur og stuðla að þeim með atkv. sínum m.a. hér. Ég hygg að skýringanna á því hvers vegna reglur eru settar, sé oft að leita til þess, hverjir það eru sem vilja setja þær.