05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Það er nú einu sinni svo, að íþróttamálin er einn þeirra málaflokka sem mjög verða ávallt út undan hér á Alþingi. Þegar imprað er á íþróttamálum þegja menn gjarnan þunnu hljóði. En það horfir kannske eitthvað öðruvísi við þegar gestir eru komnir í hús og fylgjast með umr.

Ég virði það raunverulega við hv. flm. þessarar till., að hann skyldi sækja þann fund á Laugarvatni sem hann hefur vitnað til. Líklega hafa aðrir þm. í kjördæminu ekki gert það. En það kemur mér dálítið spánskt fyrir sjónir ef hann er nú fyrst að uppgötva vanda Laugarvatns. Ég vænti þess, að hann hafi fylgst með þeim málum sem þar hafa verið að þróast undanfarin tvö ár, eins og ég hef raunar gert og þrástagast á við ýmsa málsmetandi menn hér í þingi að þyrfti að fara að bæta úr. Ég hef ekki efnt til hópferða eða neins slíks í sambandi við þennan málflutning minn, heldur reynt að vinna honum fylgi á bak við tjöldin.

Ég er líka þeirrar skoðunar, að hv. flm. hefði átt að vinna að þessu máli innan síns flokks. Þar er grundvöllurinn til þess. Mér finnst þessi málatilbúnaður eilítið undarlegur allur. Í fyrsta lagi ætla ég að benda á það, að nokkur mistök hafa orðið við gerð þessarar till. Hún er ekki þingleg í alla staði vegna þess einfaldlega, að samkv. henni á Alþingi að álykta að fela ríkisstj. o. s. frv. Alþingi er fjárveitingavaldið, en ekki ríkisstj. Þetta hefði því þurft að orða öðruvísi.

Þá tel ég að með flutningi þessarar till. hafi hv. flm. fyrst og fremst beint geiri sínum að eigin flokksbræðrum, hæstv. fjmrh. og hv. formanni fjvn. og kannske hv. formanni þingflokks Alþb. (Gripið fram í.) Ef hv. flm. þáltill. er með þessu að gagnrýna þm. Alþb. í Suðurlandskjördæmi, sem hann situr nú á þingi fyrir, finnst mér ekki rétt að málum staðið og tel að það hefði mátt fara þá venjulegu leið að leggja fram till. og síðan hefði hv. þm. Garðar Sigurðsson tekið við henni. (GJG: Er hann ekki að gagnrýna þá alla?) Vel má vera að hann sé að gagnrýna allt Alþingi og fjárveitingavaldið, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. En ég vil líka benda á það, að það hefði verið í alla staði eðlilegra og ábyrgara og vænlegra málinu til framgangs að þm. kjördæmisins allir saman hefðu skrifað upp á þessa till., a. m. k. einn þm. úr hverjum flokki.

Þá ætla ég að nefna eitt atriði í viðbót vegna þessa óvenjulega málatilbúnaðar. Það eru fréttir Ríkisútvarpsins af málinu. Sagt var frá þessari þáltill. í fréttum í gærkvöld og í morgun og væntanlegri heimsókn hinna ágætu nemenda frá Laugarvatni hingað í þingið. Þetta eru einhverjir óvenjulegustu starfshættir útvarpsins sem ég hef nokkurn tíma vitað um, og starfaði ég þó á fréttastofu útvarps í 11 ár. (Gripið fram í.) Ef hæstv. forseti vildi þagga niður í þessum hv. þm. og formanni þingflokks Alþb., þætti mér vænt um það. Hann hefur munninn nógu oft opinn hér í þinginu. — Ég tel að slíkur fréttaflutningur af einni einstakri þáltill., sem er boðuð á þennan hátt í fréttum Ríkisútvarpsins, heyri til algerra undantekninga.

Ég ætla ekki að tala meira um málatilbúnaðinn, heldur um till. Ég er efni hennar sammála og það er kjarni málsins. Kjarninn er ekki sá, hvernig menn búa til málið, leggja það fram og gera úr því einhverja sýningu, heldur er það efni till. sem um er að ræða. Og ég endurtek það, að í þessari till. felst auðvitað botnlaus gagnrýni á fjmrh., en hæstv. menntmrh. hefur lýst yfir að hann hafi lagt fram till. um 5.2 millj. kr. framlag til þessa skóla en fjmrh. hafi hafnað þeirri till., ekki tekið hana til greina. Það er þetta sem er hið alvarlega í málinu. Þetta er ríkisstjórnarmál fyrst og fremst. Ríkisstj. kemur sér ekki saman um þennan mikilvæga málaflokk.

Íþróttamál hafa því miður hér á landi sem víðar ekki flokkast undir menningarmál. Þykir mér það mjög miður. Ég vil m. a. benda á það, að staðið hefur í stappi innan Norðurlandaráðs að fá íþróttamál viðurkennd sem menningarmál og flokkuð undir menningarfjárlög Norðurlandaráðs. Ég vil einnig benda á það, að það er ekki bara Laugarvatn sem fer illa út úr fjárlögum ársins 1982, heldur er það íþróttahreyfingin í heild. Ég veit að vísu ekki hversu margir íþróttamenn eru í kringum þá aðila sem samþykkja tölur af því tagi sem er að finna í fjárlögum þessa árs, en mig langar að nefna nokkur dæmi. Ljótast er dæmið um skólann á Laugarvatni. Þar er liðurinn Gjaldfærður stofnkostnaður 75% lægri en hann var á fjárlögum þessa árs, og það er upphæðin sem hefði átt að fara í skólahúsið. Heildarframlögin til Íþróttakennaraskólans eru mínus 16.6 frá fjárlögum þessa árs til 1982. Þetta er virðingin sem núverandi ráðamenn bera fyrir þessari mikilvægu kennslustofnun, Íþróttakennaraskóla Íslands.

Ég vil líka benda á það, að hækkun framlaga til Íþróttasjóðs er ekki nema 28.9% á meðan verðlagsbreytingar eru á bilinu 40–50%. Þetta er virðing núv. stjórnarflokka fyrir íþróttamálum, þeim málaflokki sem langflestir hér á landi stunda og hafa áhuga á. Til ýmissa íþróttamála, svo sem ÍSÍ og íþróttamála af öllu tagi, íþróttamála fatlaðra, Ólympíunefndar, sumarnámskeiða, Skáksambandsins og fleiri slíkra mála, eru framlög yfirleitt rétt um 33% hærri en í gildandi fjárlögum, eða ná þeirri tölu sem hæstv. fjmrh. talar um sem grunntölu í fjárlagafrv., en komast hvergi nærri þeim verðlagshækkunum sem orðið hafa, enda stendur íþróttahreyfingin núna uppi slypp og snauð. Það var nýverið haldinn fundur með forustumönnum íþróttamála hér á landi og þeir voru sammála um að íþróttahreyfingin væri að verða gjaldþrota. Og svo halda menn að hægt sé að efna til einhverrar sýningar og breyta þessu máli með því að láta hrópa húrra eða eitthvað slíkt fyrir framtaki eins manns. Ég get tekið undir það, að þetta framtak hefur þó haft þau áhrif að þessi mál hafa verið rædd hér á þingi. En málatilbúnaður af þessu tagi er ekki mér að skapi.

Ég vil hins vegar taka undir þá kröfu sem ég og fleiri hafa haft uppi í langan tíma, að betur verði gert við þennan skóla, því að mér er vel kunnugt um hvernig ástandið er þar og þarf ekki að tíunda það hér. En á meðan skilningssljó eða skilningslaus stjórnvöld halda á þessum málaflokki er ekki von á góðu. Yfir það verður ekki strikað með einu pennastriki eða einni þáltill. Það dæmi gengur ekki upp. Ég vænti þess fastlega, að hæstv. menntmrh. beiti sér fyrir því, að lagfæring verði fundin á þessu máli. Ég treysti honum til þess, en hann þarf fulltingi m. a. hv. flm. till. til að snúa ofan af hæstv. fjmrh. og fá hann til að skilja þetta mál. Og hann þarf til þess stuðning fleiri manna. Ég vænti þess, að sá stuðningur komi fram í ræðum þeirra manna sem tala hér á eftir. (GJG: Það þarf alls staðar að reka áróður.) Það er gott. Ég vænti þess, að ef svo færi nú að ekki gengi að fá þessa fjármuni á fjárlögum þá gæti kannske einhver af sjóðum Dagsbrúnar í Reykjavík lagt til eitthvert fjármagn, þó ekki væri nema til að reisa 2–3 veggi í þessum skóla. En sem sagt, ég er á móti þeim málatilbúnaði sem hér hefur farið fram, en efnislega tek ég undir þá kröfu flm. till. að í þessu máli verði eitthvað gert.