05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og hv. 2. þm. Suðurl., að á þann fund, sem um er að ræða, var ég ekki boðaður.

Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1979, um haustið 1978, samþykkti Alþingi sérstaka brtt. við framlagt fjárlagafrv. sem gekk út á það að veita 10 millj. kr. til undirbúnings og byrjunarframkvæmda við þann skóla sem hér er verið að tala um, þ. e. íþróttahús og sundlaug. Vilji Alþingis kom greinilega í ljós strax haustið 1978. Hann var ítrekaður við afgreiðslu fjárlaga 1980, en þá voru 50 millj. gamlar veittar til verksins, og enn við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1981, en þá voru 100 millj. gkr. veittar í sama skyni.

Nú aftur á móti ætlar hæstv. fjmrh., — reyndar hefur hæstv. menntmrh. líka legið undir gagnrýni fyrir þetta, en eins og fram hefur komið í máli hans er ekki við hann að sakast, — hæstv. fjmrh. ætlar að hundsa margyfirlýstan vilja Alþingis og svo gott sem fella þessa framkvæmd út af fjárlögum. Þetta hefði aldrei gerst ef skólinn hefði verið á Norðurlandi, ég tala nú ekki um ef það væri á Norðurlandi vestra. Þá hefði engum dottið í hug að þetta væri í hættu. Þangað fara peningarnir án mikillar fyrirhafnar héðan frá Alþingi. En með þessu er hæstv. fjmrh. ekki aðeins, eins og hér hefur komið fram, að stefna tilveru Íþróttakennaraskólans í bráða hættu, heldur öllum skólunum á staðnum. Ég þekki nokkuð vel til þessara mála eða tel mig a. m. k. þekkja vel til þeirra, m. a. vegna þess að tvö af börnum mínum hafa numið við Menntaskólann á Laugarvatni.

Í dag eru alls staðar gerðar miklar kröfur til fullnægjandi íþróttaaðstöðu í skólum og vaxandi kröfur. Sem betur fer er víða unnið að því að lagfæra þetta. En á Laugarvatni standa málin allt öðruvísi. Eins og hér hefur komið fram er aðstaðan þar mjög léleg. Mannvirkin eru gömul og léleg og þar að auki úr sér gengin. Ég skora því á hv. fjvn. og hið háa Alþingi að kippa þessu í lag við endanlega samþykki fjárlaga fyrir næsta ár með myndarlegu framlagi til verksins.

Við megum ekki heldur gleyma þýðingu góðrar íþróttaaðstöðu á þessum stað fyrir allan þann mikla fjölda ferðamanna, sem þangað kemur að sumri til, og alla þá mörgu þéttbýlismenn sem þarna eru í sumarbústöðum. Við megum ekki heldur gleyma því, að þarna er mjög tilvalin aðstaða fyrir íþróttahópa alls konar ef þetta hús fær að rísa.

Eins og fram hefur komið er sú þáltill., sem hér hefur verið lögð fram, í fyrsta lagi óþörf vegna þess að Alþingi hefur a. m. k. þrisvar og reyndar oftar undirstrikað þann vilja sinn að þetta hús verði byggt, og þar að auki á þessi till. heima sem brtt. við fjárlög. Ég er hér með brtt. við fjárlög þar sem tekin er upp till. hæstv. menntmrh. upp á 5.2 millj., og er það í samræmi við þá áfangaskiptingu sem hugmyndir eru um, og vegna þess að hv. 4. þm. Suðurl., Baldur Óskarsson, hreyfði þessu máli hér nú býð ég honum að vera 1. flm. að þessari till. Við þm. Suðurl. munum áreiðanlega standa með honum í því.

Einnig má benda á það, eins og reyndar kom fram hjá hv. 2. þm. Suðurl., að ef áhugi fyrir framgangi málsins er mikill — og reyndar veit ég að hann er það hjá hv. þm. Baldri Óskarssyni, þá hefði hann auðvitað fengið þm. úr öllum flokkum til að vera með sér á þessari þáltill., sem að vísu er að formi til gölluð, en því hefði mátt kippa í lag. Aftur á móti hefur hv. þm. tekist mjög vel upp við að gera þetta þýðingarmikla mál að áróðursmáli fyrir sjálfan sig. Það hefur honum tekist vel. Honum hefur meira að segja tekist, eins og kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., að fá Ríkisútvarpið til þess að taka þetta mál upp í hverjum einasta fréttatíma í gær og alla fréttatíma í dag, eins og um stórkostlegan heimsviðburð væri að ræða, að hv. þm. ætlaði að flytja þetta mál hér á hinu háa Alþingi, og það löngu áður en þm. vissu að málið yrði tekið á dagskrá, svo að einhvers staðar er aðstaðan misnotuð. En þetta er sem sagt að mínu áliti mjög vel af sér vikið áróðurslega séð. Þar hefur honum tekist vel upp. Þetta hefði Garðari vini mínum Sigurðssyni aldrei dottið í hug. Hann hefði aldrei látið sér detta í hug að vinna svona að málinu. Hann hefði unnið að málinu í kyrrþey, fengið okkur alla með sér og áreiðanlega náð jafngóðum árangri, ef ekki betri, fyrir málið. En hvað um það, málið er miklu alvarlegra en svo að það eigi að nota í persónulegum áróðurstilgangi. Ég og auðvitað allir aðrir þm. Suðurl. og ég vona reyndar flestir þm. aðrir munum styðja þetta mál mjög eindregið við afgreiðslu fjárlaga. Við viljum stuðla að því, að margyfirlýstur vilji Alþingis fái að ná fram, hvað sem líður skoðunum hæstv. fjmrh. Ég endurtek tilmæli til hv. 4. þm. Suðurl. Hér er tillaga tilbúin til umfjöllunar.