24.04.1982
Neðri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4152 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er hverju orði sannara, að ég var flm. að því að þetta ákvæði um 12% skyldi vera í frv. eins og það var lagt fram í Ed.

En ég geri þá kröfu bæði til mín og annarra að ganga ekki með steinbarn í maganum eilíflega og að menn geti tekið rökum. Ég hef sannfærst um að það sé ekki ýkjamikið hald í þessari ákveðnu tölu, 12%. Ég er alveg sammála því, sem hér hefur komið fram í umr. og nú siðast þegar menn hafa verið að gera grein fyrir atkv. sínu, að það er auðvitað alveg nauðsynlegt að kappkostað sé að Sinfóníuhljómsveitin afli sér sem mestra sjálfstæðra tekna af tónleikahaldi. Sinfóníuhljómsveitin eða stjórn hennar leitast mjög við að gera þetta. Mig langar til að upplýsa það af þessu tilefni, að s.l. ár samkv. reikningum eru eigin tekjur 16.2%. Þannig er afskaplega lítið hald í svona tölum. Þetta er búið að ganga í gegnum margar umr. í Ed. og Nd. og tvær þingnefndir, menntamálanefndir beggja deilda, hafa talið eðlilegra að hafa ekki neina ákveðna prósentutölu, heldur aðeins það almenna orðalag að kappkosta að gera sem best í þessum efnum. Ég held að það sé, þegar upp er staðið, skynsamlega að staðið, og ég tek þeim rökum sem menntamálanefndir hafa sannfært mig um að séu rétt. Ég segi því nei við þessari till.