05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Á þskj. 70 flytur hv. 4. þm. Suðurl. þáltill. um íþróttamannvirki á Laugarvatni og framtíð Laugarvatns sem menntaseturs. Hér er hreyft stóru og mikilvægu máli sem þarf að ná fram að ganga. En þm. hefði átt að kynna sér málið ofurlítið betur áður en hann leggur svona till. fram sem gerir ekki ráð fyrir neinu umfram það sem búið er að gera í þessu máli áður. Að vísu er hann að tala hér um að tryggðir séu nægir peningar til byggingarframkvæmda. Til að vinna að því hefði hann átt hæg heimatökin að tala við flokksbróður sinn, fjmrh. og aðra sína flokksbræður — eða treystir hann þeim ekki? Allir þm. Framsfl. standa einhuga að þessu máli og vilja hvetja til þess, að það nái sem fyrst fram að ganga. Hér er því að mínum dómi um hreina sýndarmennsku að ræða til að auglýsa sjálfan sig, ana áfram aðeins með sína hagsmuni í huga, en ekki annarra. Með svona málflutningi gæti hann hæglega spillt fyrir málinu, en ekki greitt fyrir því.

Hv. þm. talar um að fela ríkisstj. að sjá svo um, að nú þegar verði hafist handa um byggingu fyrirhugaðra íþróttamannvirkja á Laugarvatni. — Það er algerlega einstakt í þingsögunni að svona séu tillögur orðaðar. Hv. þm. veit þó að nú þegar er búið að samþykkja stað og teikningar að þeim íþróttamannvirkjum sem fyrirhugað er að gera á næstunni, og er því unnt að hefja byggingarframkvæmdir þess vegna. Hvað er það þá sem hindrar að hafnar séu byggingarframkvæmdir? Fjárveiting til byggingarframkvæmdanna er til, eins og segir í grg. með till., 160 gamlar millj., þó að ég geri ráð fyrir að eitthvað hafi verið notað af þeim í hönnun og undirbúning. Það má segja að á þessu ári var þó samþykkt fjárveiting, 100 millj. gkr., til að hefja byggingarframkvæmdirnar. Það sem stendur á er að útboðsgögn eru ekki tilbúin, en verða það innan tíðar. Þar að auki er skammdegið ekki heppilegasti tíminn til að hefja svona framkvæmdir þar sem 400 nemendur dveljast við nám. Hefur því verið ákveðið að bjóða verkið út sem fyrst og að byggingarframkvæmdir hefjist þegar daginn fer að lengja fyrri hluta næsta árs. Það er líka búið að kanna undirstöður og undirbúa staðinn. Verður þá grafið fyrir allri byggingunni og undirstöður steyptar að allri byggingunni og síðan 2/3 hlutar hennar gerðir fokheldir á árinu 1982. Ég veit að í fjvn. er vilji fyrir því, að hægt sé að ná þessum áfanga, og vænti ég þess, að Alþingi láti ekki á sér standa þar sem það hefur áður samþykkt fjárveitingu til byggingarframkvæmdanna.

Ég vil mótmæla því harðlega, sem hv. flm. segir, að yfirvöld fræðslumála í landinu hafi sýnt mikla tregðu við uppbyggingu á nýjum íþróttamannvirkjum á Laugarvatni. Þetta er hrein firra hjá hv. 4. þm. Suðurl. og verður að skrifast á ókunnugleika hans. Menntmrh. hefur jafnan lagt á það mikið kapp að fá fjármagn til nýbygginga og endurbóta á íþróttaaðstöðu á Laugarvatni. Hefur ár eftir ár verið sótt um aukið fjármagn til þess og annarra framkvæmda þar, en árangurinn orði misjafn sem út úr því hefur komið. Nei, ég held að það hafi ekki staðið á yfirvöldum fræðslumála að sækja um fjármagn til uppbyggingar íþróttamannvirkja á Laugarvatni, eins og hæstv. menntmrh. sagði áðan. Það þekki ég líka frá starfi mínu á Alþingi.

Að því er viðvíkur því atriði, sem fram kemur hjá hv. þm., að einhverjir af stjórnendum íþróttamála í landinu séu ekki sammála um að Íþróttakennaraskóli Íslands sé staðsettur á Laugarvatni, þá er sjálfsagt rétt hjá honum að svo sé. En ég hélt að hv. þm. Baldur Óskarsson vissi að það eru fá mál, sem við fjöllum um í okkar landi, sem allir eru sammála um. Aðalatriðið er að ákvörðun hefur verið tekin um það af þeim aðilum, sem með þessi mál fara og hafa ákvörðunarvaldið, að skólinn skuli vera á Laugarvatni og að byggingarframkvæmdir á íþróttamannvirkjum skuli hefjast nú upp úr áramótum, eins og ég hef áður tekið fram.

Ég vil svo, eins og oft áður, undirstrika að á Laugarvatni verður og á að vera í framtíðinni öflugt skólasetur þó að einhverju þurfi að breyta í samræmi við breytta tíma. Vilhjálmur Hjálmarsson, fyrrv. menntmrh., hafði forgöngu um það, þegar hann var menntmrh. að samræma og samstilla skólastarfið á Laugarvatni eftir því sem tök voru á og hélt um það mál marga fundi og ráðstefnur með stjórnendum skólanna á Laugarvatni og mörgum fleiri. Út úr því kom það m. a., að hægt var að fjölga nemendum í Íþróttakennaraskóla Íslands um nálega 50%. Var það gert 1977 og hefur svo verið síðan.

Ég vil svo þakka þann mikla áhuga sem Laugvetningar sýna í verki með fundarhaldi, komu sinni til Reykjavíkur og áskorunum um aukið fjármagn til íþróttamannvirkja á Laugarvatni. Dregur það ekki úr því hugboði mínu, að á Laugarvatni, þeim fallega menningarstað, verði öflugt og farsælt skólalíf á komandi árum.