24.04.1982
Neðri deild: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4154 í B-deild Alþingistíðinda. (3767)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti menntmn. um frv. til l. um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar. Nál. er á þskj. 695 og þar kemur fram að nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Að sönnu er þetta frv. seint fram komið, en engu að síður vona ég að það fáist afgreitt á þessu þingi.

Helstu atriði frv. eða þær breytingar sem gert er ráð fyrir að gerðar verði frá gildandi lögum eru að kirkjuþingsmönnum er fjölgað um fimm. Fjölgað verði um tvo í Reykjavíkurprófastsdæmi og myndað verði nýtt kjördæmi, Kjalarnesprófastsdæmi, en áður voru saman Kjalarnesprófastsdæmi og það sem nú verður Borgarfjarðar-, Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi. Auk þess kjósi prestar í föstum störfum, en án prestakalls, einn kirkjuþingsmann. Þá er kjörtímabilið stytt úr fimm árum í fjögur. Gert er ráð fyrir að kirkjuþing komi saman árlega, en nú kemur það saman annað hvert ár. Að lokum er sú breyting gerð, að vígslubiskupar eigi rétt á fundarsetu.

Eins og ég sagði áðan er þetta frv. seint fram komið og e.t.v. til nokkuð mikils mælst að það fáist afgreitt á þessum síðustu dögum þingsins, en ég vona þó að svo verði. Þetta frv. er vel undirbúið. Það á sér nokkuð langan aðdraganda. Ákvæði þess hafa verið samþykkt á mörgum undangengnum kirkjuþingum, eða allt frá 1976, og þetta hefur einnig hlotið samþykki í þeim héruðum sem þetta varðar mest, þar sem hið nýja kjördæmi er myndað eða kjördæminu er skipt, þ.e. Kjalarnesprófastsdæmi, og Borgarfjarðar-, Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmi. Frv. er sem sagt svo einfalt í sniðum að það ætti ekki þess vegna að þurfa að taka langan tíma hjá hv. Alþingi að fjalla um það. Nefndin mælir eindregið með að það verði samþykkt, og ég vona að það geti fengið afgreiðslu á þessu þingi.