05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Níels Á. Lund:

Herra forseti. Gamalt máltæki segir: Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Svo er að mínum dómi farið með þá þáltill. sem hér er til umr. Hafi markmið með flutningi hennar verið að vekja athygli hv. Alþingis á aðstöðuleysi Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni hefur það tekist og það er vei. Áhugi heimamanna og þeirra nemenda, sem við þetta aðstöðuleysi búa, er augljós og eðlilegur þar sem um svo þýðingarmikið mál er fjallað hér. Hitt er annað mál, að hafi markmiðið með þessari þáltill. verið að flýta framgangi málsins eða greiða götu þess í gegnum hið margumtalaða kerfi læt ég í ljós efa. Ég óttast jafnvel að með því að vísa málinu til nefndar komi til enn einn flöskuhálsinn sem málið þarf að fara í gegnum, kærkominn þeim aðilum, ef einhverjir eru, sem vilja frekari uppbyggingu Laugarvatnsstaðar feiga.

Vissulega kemur það manni spánskt fyrir sjónir, að flm. þessarar till., hv. þm. Baldur Óskarsson, skuli ekki líta nær sér áður en hann flytur þetta mál í hv. Alþingi. Menn spyrja: Á hverju hefur fyrst og fremst staðið? Hvað kemur til að málið er tekið fyrir nú á þennan hátt? Jú, eflaust það, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1982 er ekki varið fjármagni til fyrirhugaðra framkvæmda svo að teljandi sé. Hverjum ætli það sé að kenna, ef þar er einhverjum einum aðila um að kenna, sem ég leyfi mér að efast um? Hver er það sem hefur með fjármál landsins að gera? Hver er það sem undirbýr fjárlög og ræður mestu um hvaða liðir eru skornir niður eða þurrkaðir út? Sá aðili er auðvitað hæstv. fjmrh. Ég hef talið að ef hugur hefði fylgt máli hjá hv. flm., Baldri óskarssyni, hefðu orð hans átt greiðari aðgang að hæstv. fjmrh. á öðrum stöðum en hér á hv. Alþingi.

Eitt er víst, að þingflokkur framsóknarmanna stendur einhuga að uppbyggingu á Laugarvatni og hefur ætíð gert. Raunhæfast hefði verið að flytja brtt. við fjárlögin og hafa hana ríkulega. Ég tel þessu máli hefi verið vel borgið á raunhæfan hátt ef aðrar leiðir hefðu verið farnar en sú sem hér er valin. Að láta málið í nefnd, sem skilar áliti á næsta ári e. t. v., verður frekar til að tefja en til að flýta framgangi þess. En það er í þessu máli sem mörgu öðru, að menn eru e. t. v. sammála um markmið, en ekki leiðir. Það verður hver og einn að meta.

Sem íþróttakennari og gamall nemandi og velunnari Laugarvatns tek ég heils hugar undir flestallt það sem kom fram í máli hv. flm. um aðstöðuleysi Íþróttakennaraskólans og þá jafnframt hinna skólanna þar. Í því sambandi get ég ekki stillt mig um að taka einnig undir orð hv. þm. Alberts Guðmundssonar þar sem hann fjallaði um þessi mál á líkan hátt.

Það hefur alltaf verið skoðun mín, ég hef aldrei farið dult með hana, að á Laugarvatni sé starfsemi Íþróttakennaraskólans best borgið sé honum sköpuð sú aðstaða, sem hann þarf til að sinna því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað, og sé honum sé sómi sýndur, sem honum ber sem Íþróttakennaraskóla Íslands. Það er ekkert launungarmál, að uppbygging á Laugarvatni hefur mætt andstöðu hjá einstökum aðilum. Ég er og hef aldrei verið í vafa um rétta staðsetningu skólans að Laugarvatni. Gæti ég fært mörg rök að því. Það hef ég gert á mörgum fundum og á mörgum stöðum, m. a. fjölmennum fundi íþróttakennara sem haldinn var á Hótel Esju 1972, þar sem fjallað var um þá grein laganna um Íþróttakennaraskólann sem fjallaði um staðsetningu hans á Laugarvatni.

Máltækið segir einnig, að á misjöfnu þrífist börnin best. Vel má vera að sú lélega aðstaða, sem nemendur Íþróttakennaraskóla Íslands hafa búið við undanfarin ár og áratugi, hafi orðið til þess, að frá skólanum hafi komið duglegir kennarar sem hafi staðið sig vel í starfi sínu á stöðum þar sem er bágborin aðstaða til íþróttaiðkana. Hinu má ekki gleyma, að undanfarin ár hafa risið víðs vegar um land fullkomin, stór og glæsileg íþróttahús sem allir fagna og ekki síst þeir sem þeirra fá notið. Það skýtur því nokkuð skökku við það aðstöðuleysi til íþróttakennslu og íþróttaiðkana sem Íþróttakennaraskóli Íslands býr við. Við svo búið má ekki lengur sitja. Það ætti að vera stolt okkar allra Íslendinga að eiga glæsilegan íþróttakennaraskóla, fullbúinn tækjum og öðrum búnaði, með fyrirmyndaraðstöðu. Þar á að mínum dómi að vera miðstöðu íþróttaiðkana, bæði á vetrum fyrir nemendur sem að sumri til þjálfunar íþróttaliópa og keppnislið.

Íslenskir íþróttamenn hafa margoft sannað getu sína, bæði á innlendum og erlendum vettvangi, og vakið verðskuldaða athygli. Þeir hafa átt stóran þátt í góðri landkynningu sem fámenn þjóð í miðju Atlantshafi er nauðsyn. Að okkar íþróttamönnum er á margan hátt vel búið, en einn liður í að bæta aðstóðu þeirra er að byggja upp íþróttaaðstöðu á Laugárvatni.

Í framhaldi af því, að hæstv. menntmrh. lýsti yfir að þingflokkur Framsfl. styddi einróma uppbyggingu Laugarvatns með ríkulegri fjárveitingu, spyr ég hv. formann þingflokks Alþb., Ólaf Ragnar Grímsson, — formaður þingflokks Alþb. og ráðh. þess flokks virðast ekki hafa haft tíma til að sitja yfir þessari umr. þar sem fjallað er um málefni Laugarvatns, og það eru fáir úr þingflokki Alþb. hér í þingsölum. (Gripið fram í: Það vegur þungt hérna einn.) Það vegur nokkuð þungt einn, rétt er það. Þá vænti ég þess, að hann geti á sama hátt og hæstv. menntmrh. lýst yfir að hann muni fá þingflokk Alþb. til að standa einróma með uppbyggingu á Laugarvatni og með ríkulegri fjárveitingum í fjárlagafrv. því sem nú liggur fyrir.

Herra forseti. Það er von mín að þetta mál, sem hér er rætt, megi eiga farsælan endi og sú þáltill., sem hér er til umr., muni ekki verða, eins og stóð á einu spjaldi sem ágætir nemendur báru í dag, stífla í kerfinu. Það er von mín, að það verði samþykki ríkuleg fjárveiting á fjárl. 1982 til íþróttamannvirkja á Laugarvatni. Ég hef von um að svo megi takast, ef marka má orð hv. þm. sem hér hafa talað. Það yrði vegleg gjöf til Íþróttakennaraskóla Íslands á fimmtugsafmæli hans.