14.10.1981
Sameinað þing: 3. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og alþjóð er kunnugt og Alþingi öllu ríkir mjög alvarlegt ástand í atvinnumálum hér á landi. Þetta gildir alveg sérstaklega að því er varðar stöðu sjávarútvegsins. Síldveiðar hafa stöðvast, svo sem kunnugt er, og þó að hæstv. ráðh. láti hafa það eftir sér í viðtölum í blöðunum að lausn sé í sjónmáli, þá eru útvegsmenn og sjómenn og kaupendur ekki sömu skoðunar og segja að málin séu í sjálfheldu. Um stöðu þessara mála fáum við ákaflega litlar upplýsingar. Engum liggur það nær en hv. Alþingi að fá að vita hver sé staða þessara mála. Verður þessi stöðvun löng? Með hvaða hætti er hugmyndin að leysa þá deilu sem þarna er uppi?

Í annan stað er það svo að almennt fiskverð hefði átt að ákveða fyrir hálfum mánuði, en það bólar ekki á neinni ákvörðun. Ekki heldur í þessu máli hafa menn fengið neina vitneskju um það, hver staðan sé eða hvert horfi eða með hvaða hætti sé hugmyndin að greiða úr þessum vanda. Það blasir líka við, að loðnuverð þarf að ákveða, og af þeim upplýsingum, sem menn hafa, að mestu leyti á skotspónum, er vægast sagt ískyggilegt ástand í þessari grein. Það verður ekki séð að neinar ákvarðanir hafi verið teknar til að greiða úr þessum vanda. Útlitið er eins og ekki bara síldveiðarnar séu að stöðvast, heldur getur rekið til hins sama í öðrum greinum sjávarútvegsins, þar er allt í hnút. Auðvitað verður að leysa þetta mál. Við eigum allt okkar undir því og það verður vitaskuld leyst. En hvað á sá dráttur að verða lengi? Hversu lengi eiga menn að búa við óvissu í þessum efnum? Hversu lengi eiga sjómenn, útvegsmenn, fólk, sem vinnur við fiskverkun, að búa við það að vita ekki hver niðurstaðan verður eða hvenær úr þessu verður leyst eða með hverjum hætti? Alþingi á auðvitað kröfu á því að fá að vita hvenær og hvernig verði á þessum málum tekið. Ég verð að segja það, að hingað til hefur hæstv. sjútvrh. og aðrir ráðh. í ríkisstj., þ. á m. hæstv. forsrh., í rauninni engu svarað um það, hvernig fram úr þessu eigi að ráða. Það er langt síðan verðlagsráðsmenn, þeir sem eru í yfirnefnd Verðlagsráðsins, vísuðu ákvörðun um almennt fiskverð í raun og sannleika til ríkisstj. Svörin, sem borist hafa, eru þau, að það sé verið að ræða málin, það sé verið að fjalla um málin, en það hafi engin ákvörðun verið tekin, það sé engin sérstök stefna uppi.

Loðnumálin hafa í raun og sannleika litið sem ekkert verið rædd og er þó ekki síður ástæða til þess að fjalla um þau og heyra viðhorf hæstv. sjútvrh. í þeim efnum svo ískyggilegar sem horfurnar eru. Ef við tökum fyrst það mál sem varðar síldina, þar sem nú hefur komið til stöðvunar. þá hefur ýmislegt athyglisvert komið fram í því máli. Ég vil nefna það fyrst, að það var sett reglugerð um að breyta síldarmatinu. Það hlýtur að vera svo að hæstv. sjútvrh. hafi sett þessa reglugerð. En ég spyr: Hversvegna var hún sett? Hver bað um þessa reglugerð? Ég spyr vegna þess að ég kannast við þetta mál. Það komu fram óskir á sínum tíma úr kerfinu, ekki frá þeim sem vinna í greininni, um að setja þessa reglugerð. Maður hefði getað haldið að síldarmatið væri m. a. til þess að vernda verkendur síldarinnar. Þess vegna þótti mér liggja beint við að spyrja verkendur síldarinnar, — ekki síst þar sem sjómenn og útvegsmenn voru ekki áfram um þessa reglugerðarsetningu, svo að ekki sé sterkar til orða tekið, — spyrja verkendur: Viljið þið fá þessa reglugerð? Teljið þið nauðsyn á þessari reglugerð? Viljið þið beita ykkur fyrir því, að þessi reglugerð verði sett? — Vitið þið hvert svarið var? Svarið var nei. Þeir vildu það ekki. Þeir töldu ekki þörf á því. Ég spyr: Hvers vegna tekur ráðh. það upp hjá sjálfum sér að setja reglugerð af þessu tagi öðruvísi en það hafi verið fyrir ósk frá síldarverkendum, frá síldarkaupendum? Ég spyr hæstv. ráðh.: Kom fram ósk frá þessum aðilum um að setja þessa reglugerð sem veldur nú vandræðum m. a.?

Það er fyllsta ástæða til þess að fá skýr svör við því, hvort þarna hafi kerfið með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar híft sjálft sig upp á hárinu og sett reglugerð sem enginn vildi fá og engin þörf var fyrir, en hefur skapað vandræði.

Nú er það nýjast í þessu síldarmáli, að sjútvrh. lætur hafa eftir sér að það sé partur af ákvörðuninni að það hafi átt sér stað einhver mistök hjá Fiskifélaginu. Hvaða mistök eru það, spyr ég, sem áttu sér stað hjá Fiskifélaginu? Ég hef litið á þær töflur sem upp voru settar af hálfu Fiskifélagsins og hafa verið hafðar til viðmiðunar, ekki bara núna, heldur undanfarin ár. Þær eru settar upp með nákvæmlega sama hætti eins og áður. Mistökin liggja þá ekki hjá Fiskifélaginu. Mistökin liggja í því, að menn hafa ekki kunnað að lesa úr þeim töflum sem hafa þó verið hafðar þarna til viðmiðunar. Ef þetta á að vera skálkaskjól, ef þetta á að vera afsökun í þessu dæmi, þá er rétt að menn hafi það í huga, að samningarnir um síldarverð voru gerðir með atkvæðum kaupenda. Og hvað segja kaupendur núna? Þó þarna hafi verið lesið öðruvísi úr töflum en áður og þeir hafi jafnvel gert það skiptir það ekki máli. Þeir segja: Við getum ekki hækkað verð okkar á þeim grundvelli. — Ég spyr ráðh.: Hvernig stendur á því, að þau mistök gerast að rangt er lesið úr töflum? Hafði ekki ráðh. kynnt sér þessar töflur? Vissi hann ekki með hvaða hætti þær voru settar upp? Kunni hann ekki að lesa þessar töflur?

Spurningin er í þessu máli: Hvað ættar ráðh. að gera? Megum við búast við því að hafa flotann í höfn lengi framvegis? Verður reglugerðin afnumin sem líklegast hefur verið sett í fljótræði? Þetta eru spurningar sem við verðum að fá svör við. Þjóðin á heimtingu á því að fá að vita hvert stefnir í þessum efnum og hvaða ráðagerðir eru uppi.

Það er athyglisvert í sambandi við umræður um almennt fiskverð, að hæstv. ráðherrar, hvort heldur er sjútvrh. eða hæstv. forsrh., tala mikið um að það sé hagnaður á skreiðarverkun og og saltfiski, að vísu sé tap á frystingunni. En svo segja menn: Þetta gerir að meðaltali 2.9% í hagnað. — Hvernig er þetta meðaltal upp á 2.9% í hagnað fundið? Jú, það er ársmeðaltal. Hvaða máli skiptir það í sambandi við verðákvörðun núna hvert ársmeðaltalið er? Er það ekki meðaltalið, er það ekki afkoman í heild hjá greininni á því verðlagstímabili, sem í hönd er að fara, sem skiptir máli? Halda menn t. d. að saltfiskverkun sé hlutfallslega jafnmikil á því verðlagstímabili, sem fer í hönd, eins og yfir árið í heild? Ég vona að engum detti það í hug, svo mikil fjarstæða sem það er. Halda menn í raun og sannleika að það verði veruleg saltfiskverkun á því verðlagstímabili sem fer í hönd, og hvernig saltfiskur verður það? Þegar menn taka meðaltöl af þessu tagi og hafa þau til viðmiðunar, þá geta menn gert stórkostlegar skekkjur. Sannleikurinn er líka vitaskuld sá, að það er fullt af frystihúsum sem eru með ákaflega litla eða jafnvel enga saltfiskverkun. Ekki batnar hagur þeirra þó að það sé einhver hagnaður af saltfiskverkun. Varla er hugmyndin að það eigi að salta í frystigeymslunum. Og hvers konar fiskur er það, hvar lendi hann í gæðum, sem saltaður er núna?

Ég rek þetta vegna þess að það er marghamrað á því, að meðaltalið úr þessum þremur greinum sé plústala. En þá er miðað við ársmeðaltal. Það er ekki verið að horfa á stöðuna eins og hún er núna. Eða halda menn að sjóðirnir séu svo gildir að það skipti ekki máli þó að greinin í heild verði rekin með tapi á forsendum meðaltals sem alls ekki á við á því verðlagstímabili sem nú fer í hönd. Ég held að það sé eins gott að menn viðurkenni að það vandamál, sem menn standa frammi fyrir, er varðandi frystinguna og því verður ekki fleytt á saltfiski og skreið svo að neinu nemi á því verðlagstímabili sem fer í hönd. Þar er tap í frystingunni upp á 2.4% samkv. tölum sem hæstv. ráðherrar hafa farið með. Og þó að menn tali um að oft hafi heyrst harmakvein úr þessu horni, þá er það nú svo að hæstv. ráðherrar hafa staðfest þessar tölur með því að gera þær að viðmiðun. Ef fiskverð hækkar um 9% hækkar þetta tap væntanlega mjög verulega, í kringum 7% skulum við segja. Þetta gerist við þær aðstæður að það er 5.6% tap á útgerðinni í heild. Ég ætla ekki að fara út í það, hversu misjafnlega ýmsar tegundir fiskiskipa standa, en það er augljóst af þeim tölum, sem birtast varðandi afkomu útgerðarinnar, að þörf er á tekjuauka vegna útgerðarinnar, og vitaskuld eiga sjómenn kröfu á að laun þeirra hækki ámóta og hjá öðru launafólki. Er þá ekki gefið að fiskverðið hljóti að hækka? Er þá ekki gefið að þegar það gerist muni frystingin lenda í hrikalegum vanda, hrikalegu tapi?

Hæstv. ráðherrar lýsa því yfir hver um annan þveran, að gengið sé fast, því verði ekki breytt. Hvað er það þá sem stjórnin hefur í huga? Á einu sinni enn að ávísa á tóma sjóði. Og hvað þýðir slík ávísun? Sú ávísun þýðir einungis frestun á gengisbreytingu, nema menn hafi trú á að markaðsverð muni nú fara mjög hækkandi. Eru einhverjar horfur á því, hæstv. sjútvrh., að markaðsverð muni fara mjög hækkandi? Eru horfur á því að því er frystinguna varðar? Ég hef ekki þær fregnir. Það væri gott að heyra það frá hæstv. sjútvrh. ef svo væri. Hefur verð á skreið farið hækkandi? Ekki aldeilis. Það hefur lækkað stórlega og er hægt að birta tölur um það. Eru þá horfur á að saltfiskur muni búa við betra verð en að undanförnu? Ég hef ekki spurnir af því. Ég nefni hér saltfisk og skreið vegna þess að það hefur verið með í umræðunum þó að það skipti ekki meginmáli varðandi það verðlagstímabil sem í hönd fer.

Ef ekki eru horfur á þessu, hæstv. sjútvrh., hvað er þá sú ákvörðun að ávísa á tóma sjóði? Er hún nokkuð annað en frestun á gengislækkun, og er ekki eins gott að segja það hreint út? Og spurningin er: Hver er þá ávinningurinn af því, ef sú á að vera aðferðin að fresta gengisbreytingu? Hefur hæstv. sjútvrh. trú á því, að það sé sérlega gagnlegt í íslensku efnahagslífi að ávísa á tóma sjóði til þess að fresta gengislækkun? Eða er það svo að hæstv. sjútvrh. verði að þóknast duttlungum annarra sem með honum sitja í ríkisstj., sitja í sjálfheldu, en sé að hjálpa til að búa til þá ákvörðun, að genginu verði haldið stöðugu núna í nokkra daga eða vikur eða hvað það nú er, en verði svo að lækka það þeim mun meira seinna? Eða kann ráðh. einhver önnur ráð? Ég man ekki eftir því, að hæstv. sjútvrh. hafi nefnt annað í þessu sambandi en dráttarvexti, að dráttarvextir væru óheyrilega háir. Ber að skilja hæstv. ráðh. svo að stefnan sé sú að reka þessa undirstöðugrein með svo hrikalegu tapi og í slíku fjármagnssvelti að hún eigi að ganga fyrir dráttarvöxtum, að það eigi að vera varanlegt ástand um sinn að engir geti þar staðið í skilum með það sem þeir eiga að borga, heldur eigi að reka greinina á dráttarvöxtum? Og ef þetta er tilfellið, hverjar eru þá horfurnar á því, að greinin geti borgað til baka það, sem hugsanlega kynni að verða vísað á í tómum sjóðum, eða lán sem kynnu að verða veitt? Ég segi: lán sem verða veitt, vegna þess að í þeim brbl., sem sett voru í sumar varðandi þessi efni, er eins konar vísbending um að nú skuli farið að reka Verðjöfnunarsjóðinn með allt öðrum hætti en stefnan hefur verið og til var stofnað og hugsunin í lögunum um Verðjöfnunarsjóð er, nefnilega með því að hann verði eins konar lánasjóður og fari að taka lán hér og þar. Og þá er spurningin: Hvernig á þá að borga þessi lán? Hvernig á að standa undir þeim lánum sem eru tekin með þessum hætti? Ef ekki er fyrirsjáanleg mikil hækkun á útflutningsafurðum, á þá greiðsla lánsins að gerast í gegnum einhverjar gengisbreytingar seinna? Eða er hugmyndin sú, að veð fyrir þessum lánum verði tekið hjá fyrirtækjunum í greininni? Og hvernig eiga þá fyrirtækin í greininni að standa undir þeim greiðslum, sem hér um ræðir, ef stefnan að öðru leyti er sú og útlitið þannig að það eina, sem hæstv. sjúvrh. dettur í hug, er að lækka dráttarvexti vegna þess að það eigi að reka greinina í algerum vanskilum. Varla verður þá aðstaðan sérlega góð til þess að greiða af þessum lánum. Ég held að það þurfi ekki að rifja það upp fyrir hv. alþm. að Verðjöfnunarsjóður frystiiðnaðarins er ekki bara tómur, heldur er gatið, sem hæstv. ríkisstj. lamdi í sjóðinn við upphaf þessa árs og var upphafið að stefnumörkuninni í efnahagamálum, enn ófyllt þannig að þar er viðbótarvanda við að fást.

Það var að vísu svo að með brbl. í sambandi við seinustu gengisfellingu var gert ráð fyrir að minnka þetta gat svolítið, höggva svolítið í þessa skuld, með gengismun sem myndaðist við þá gengisfellingu. En hver er staðan núna, hæstv. sjútvrh.? Staðan núna er sú, að gengi dollarans er lægra núna í íslenskum krónum heldur en fyrir þá gengisbreytingu sem þá var gerð. Gengismunurinn er ekki til. Það er neikvæður gengismunur. Dæmið snýr öfugt. Er þá hugmyndin að ætla þeirri grein, sem er á hausnum, að borga þennan gengismun einhvern veginn úr eigin vösum þegar hann er ekki lengur til? Ég spyr hæstv. ráðh.: Lætur hann sér detta í hug að það sé hægt að fara fram með þessum hætti, að taka upp gengismun þegar hann er ekki til, hann er horfinn. Þróun dollarans. hefur verið með þeim hætti að gengi hans er lægra núna en fyrir þá gengisbreytingu sem þarna var um að ræða.

Þær horfur, sem eru varðandi loðnuveiðarnar, eru vægast sagt ískyggilegar. Það þarf ekki nema lauslegan samanburð á tilkostnaði og afurðaverði til þess að komast að raun um að loðnuútgerðin og loðnuvinnslan, miðað við þessar staðreyndir, eru í raun og sannleika reknar með um 40% tapi. Ætli tekjurnar af afurðunum gætu ekki mælst svo sem 730 ef við lítum á kostnað sem er yfir 1000. Bæði útgerðin og vinnslan eru í tapi og heildartapið á hvoru tveggja mun vera af þessari stærð, um 40% af því verði sem fæst fyrir afurðirnar. Þetta eru hrikalegar staðreyndir, en þetta hefur allt of lítið verið rætt.

Getum við þá stuðst við Verðjöfnunarsjóðinn í þessu tilviki? Nei, það getum við ekki. Honum hefur verið að fullu eytt eins og öllum öðrum sjóðum í tíð þessarar ríkisstj. Það er ekki nóg með að honum hafi verið að fullu eytt, heldur hefur honum ekki tekist að standa við þær skuldbindingar sem hann var búinn að taka á sig. Það var ekki yfirlýst stefna að búa til gat, en sjóðurinn hefur ekki bolmagn til þess að standa við þær greiðslur sem gert var ráð þegar ákvörðun var tekin um loðnuverð á sínum tíma. Á þennan stað er því ekkert að sækja, og í því góðæri, sem við höfum haft í ytri aðstæðum: í markaðsmálum, í gengisþróun, stórhækkandi verði dollarans, hefur ekkert verið tekið til hliðar, öllu hefur verið eytt. Það eru meira að segja gjöf hér og þar, skuldir. Þetta er niðurstaðan af efnahagsstjórninni.

Það má þá spyrja: Verður stefna ríkisstj. að veita lán í þennan sjóð þegar sú nýja stefna er nú uppi, að Verðjöfnunarsjóðinn skuli reka á lánsfé eins og farið er nú að reka ríkið í sívaxandi mæli? Eða verður einhver ríkisábyrgð í þessu tilviki? Eða verður tekið veð í eignum í greininni? Ef svo er, ef meiningin er að ávísa á tóman sjóð, taka lán með einum eða öðrum hætti sem brýtur þvert á markmið Verðjöfnunarsjóðsins, hvernig á þá að borga þetta til baka? Sér ráðh. fyrir sér að verð á afurðum muni hækka um yfir 40% á næstu misserum? Það þarf að hækka yfir 40% til þess að það verði þarna afgangur í greininni til þess að borga af þessu láni. Ég fæ hvergi séð það í gögnum eða af því, sem ég fylgist með, að horfurnar séu slíkar. Eða ætlar ráðh. að beita sér fyrir stórkostlegri lækkun á loðnuverðinu? Er hann að hugsa um kannske 20–30% lækkun á loðnuverðinu? Hver verður staða sjómannanna, sem þessar veiðar hafa stundað, þegar það gerist á sama tíma að loðnumagnið er skorið niður og ef síðan á að bæta því við að lækka loðnuverið um tugi prósenta? Hvaða upphæð skyldi það vera sem vantar, spyr ég hæstv. ráðh., til þess að endar nái saman í þessu dæmi? Mér sýnist í fljótu bragði að hér sé um að ræða 50–70 millj. kr. til þess að endar nái saman bara á þessari haustvertíð. Hver eru þau ráð sem hæstv. sjútvrh. hefur til að jafna þennan mun? Hver eru þau ráð sem hann hefur til þess að borga lán ef á að reka þetta á láni? Og hver verða veðin fyrir því láni ef það yrði tekið? Verður það veð í eignum manna í greininni, eignum í útgerð, í loðnuskipum eða í verksmiðjum — eða verður veðið eins og stundum áður í skattpeningum almennings í landinu? Er stefnan kannske líka í þessu máli að redda bara til sem allra, allra skemmst tíma, kannske fram yfir landsfund eða eitthvað slíkt? Er það kannske meginmarkmiðið hér, einhverjar dagsetningar sem sitja fastar í kollinum á ákveðnum stjórnmálamönnum? Er það það sem allt stendur á? Er það kannske svo að hæstv. sjútvrh. viti hvernig hann á að leysa þetta mál, en hann fær það ekki fyrir meðráðh. sínum?

Ég hef veitt því athygli á undanförnum fáeinum dögum og vikum, að þegar efnahagsmál og málefni útgerðargreina og sjávarútvegsins í heild ber á góma, þá kveinka þeir sér, hæstv. ráðherrar, yfir, því, að gengisþróunin sé svo óhagstæð. En það eru bara nokkrar vikur síðan þeir voru að hrósa sér af stefnu sinni í gengismálum. Hvernig ætla menn að láta þetta dæmi ganga upp? Og liggur ekki á borðinu að sú þróun, sem hefur orðið í gengismálum fyrir tilverknað annarra, hefur verið stórkostleg búbót fyrir íslenska þjóðarbúið? Stefna ríkisstj. í þessum málum hefur í raun og sannleika verið sú að einblína á að láta Reagan forseta Bandaríkjanna hjálpa til við að koma verðbólgunni niður, en gera ekkert sjálf.

Ég get ekki komist hjá því, herra forseti, að minnast aðeins á annað mál í þessu sambandi, í sambandi við sjávarútvegsmálin. Hversu stóran þátt skyldi það eiga í þessu máli hver stærð skipastólsins er? Hversu auðveldara væri þetta mál ekki viðureignar ef ekki hefði verið sett af stað bylgja af innflutningi fiskiskipa? Hversu miklu auðveldara hefði þá ekki verið að láta þetta dæmi ganga upp? Hefði þá ekki tilkostnaðurinn verið þeim mun minni? Datt hæstv. ráðh. þetta aldrei í hug þegar hann setti bylgjuna af stað? Datt honum aldrei í hug að sú stefna, sem hann hefði í skipastólsmálum, mundi koma í bakið á honum síðar? Hversu stór hluti í þessum vanda er það, að skipastóllinn hefur sífellt verið að stækka og skömmtunina verður að auka? Hversu miklu meira mætti ekki láta koma í hvern hlut ef skipastóllinn væri við hæfi miðað við afrakstursgetu fiskstofnanna?

Þau vandamál, sem við stöndum frammi fyrir, eru mikil. Það er hlutverk hæstv. sjútvrh. að ráða fram úr þessum fiskverðsmálum í heild. Er hæstv. ráðh. ráðþrota í þessum efnum eða hefur hann ekki vilja — eða er það afgangurinn af ríkisstj. sem hefur ekki vilja ef ráðh. veit hvað hann vill? Ég spyr, hvort menn hafi ekki viljann, vegna þess að boðað var: Vilji er allt sem þarf. — Og það á auðvitað við í þessu máli ekki síst.

Auðvitað verður leyst úr þessu. Íslenskt efnahagslíf stenst ekki nema þessi hjól snúist. En hvenær og hvernig? Hvað á skaðinn að fá að verða mikill? Ætlar hæstv. ráðh. að beita sér fyrir káklausnum, sem fresta vandanum, bara til þess að þóknast meðráðherrum sínum, en ekki af því að hann viti ekki betur? Telur ráðh. að slíkar aðferðir séu skynsamlegar? Hefur hann ekki kraft og styrk til þess að fá samstarfsaðila sína í ríkisstj. til að standa að almennilegum úrlausnum? Þetta verður þjóðin að fá að vita. Hver er stefnan? Hve lengi á að láta danka? Hve lengi eiga sjómenn, útvegsmenn og fiskverkunarfólk að búa við þessa óvissu? Spurningin er: Hvenær verður fram úr þessu ráðið, hvernig verður það gert, hver er stefnan? Er stefnan bara að fresta?