26.04.1982
Efri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4162 í B-deild Alþingistíðinda. (3800)

211. mál, verðlag og samkeppnishömlur

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég tala fyrir stjfrv. um breytingu á lögum nr. 56 frá 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sbr. lög nr. 13 frá 1979, um breytingu á þeim lögum. Í skýrslu ríkisstj. um aðgerðir í efnahagsmálum, sem lögð var fyrir Alþingi í febrúarmánuði, segir m.a. svo um verðlagsmál:

„Í verðlagsmálum verði við það miðað að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu, samkv. frv. sem lagt verður fram á Alþingi á næstu dögum“ — en það er þetta frv. — „Tekið verður upp nýtt fyrirkomulag sem miðar að því að verðgæsla komi í vaxandi mæli í stað beinna verðlagsákvæða.“

Frv. það, sem hér er lagt fram, er liður í að hrinda í framkvæmd þeirri stefnumörkun ríkisstj. í verðlagsmálum sem fram kemur í skýrslunni. Í því skyni felur frv. í sér breytingu á 8. gr. laga nr. 56 frá 1978, sbr. 59. gr. laga nr. 13 frá 1979, en jafnframt eru gerðar nokkrar aðrar breytingar á lögunum frá 1978, þar sem framkvæmd þeirra hefur leitt í ljós nokkra agnúa sem æskilegt er að nema burt.

Það er rétt að nefna nokkra af þessum agnúum. Vil ég fyrst aðeins ræða hið svokallaða prósentuálagningarkerfi í versluninni, sem hefur tíðkast hér á landi um áratugi, eins og kunnugt er. Það er alkunna að menn eru nú orðið yfirleitt sammála um það, enda liggur það í eðli málsins, að prósentuálagningarkerfið hvetur ekki til hagkvæmra innkaupa þar sem álagningin í krónum talið er þeim mun hærri sem innkaupsverðið er hærra. Ítarlegar kannanir Verðlagsskrifstofunnar hafa leitt í ljós að innkaup til Íslands eru óhagstæðari en innkaup til nágrannalandanna. Menn hafa í raun og veru enga aðra skýringu á þessu en þá, að þetta kerfi hefur það í för með sér að verslunin hefur samið um há umboðslaun erlendis til þess að skapa grundvöll fyrir, að því er hún telur, sómasamlegri afkomu. Ég man t.d. eftir því, þegar ég var um árabil endurskoðandi Sambands ísl. samvinnufélaga, að þá voru umboðslaun Sambandsins verulega há, og sama er að segja um aðra verslun í landinu. Nú leikur grunur á að þessi umboðslaun skili sér ekki nándar nærri til landsins. Ég skal ekki leggja dóm á það, ég hef engin einstök dæmi að nefna í því efni, en það leikur grunur á því. Og í öllu falli hefur þetta kerfi haft það í för með sér, að innkaup til Íslands eru óhagstæðari en til annarra nágrannalanda og af því leiðir að sjálfsögðu að við greiðum meira út úr landinu fyrir vörur en ástæða væri til. Eins og ég sagði áður hafa menn enga aðra skýringu á þessum mismun en þá, að við búum hér við allt annað kerfi en allar þjóðirnar í kringum okkur sem hafa afnumið þetta prósentuálagningarkerfi fyrir áratugum. Á stríðsárunum voru höft og skammtanir í þessum málum yfirleitt hjá flestum þjóðum, en eftir stríðið var þetta afnumið og hefur það verið svo um áratugi.

Hið opinbera verðmyndunarkerfi hefur í ýmsum tilvikum þjappað saman einstaklingum úr einstökum starfsgreinum til að þrýsta sameiginlega á um hækkun verðtaxta og dregið þannig úr samkeppni. Og reynsla yfirvalda er sú, að kröfur þessara hópa um verðhækkanir miðist gjarnan við að rekstur, sem er lakari en í meðallagi, geti starfað áfram án tillits til þess, hvort það er þjóðhagslega æskilegt. Hér hefur vantað hvatningu til hagkvæms rekstrar og góðrar stjórnar fyrirtækja.

Annmarkar þessa ósveigjanlega álagningarkerfis hafa einnig komið fram í þjónustuiðngreinum þar sem dæmi eru um að seldar hafa verið út fleiri vinnustundir en unnar hafa verið, í því skyni að ná endum saman í rekstri. Því er einnig haldið fram, að hin ósveigjanlegu ákvæði hafi dregið úr áhuga stjórnenda viðgerðarverkstæða til að fjárfesta í framleiðniaukandi tækjabúnaði þar eð álagningin miðist við fasta krónutölu fyrir hverja útselda vinnustund. Einnig mun það satt vera, að einhver brögð séu að því, að verslanir hafi minni áhuga á að selja innlenda iðnaðarframleiðslu vegna takmarkaðrar álagningar og haldi þá frekar fram hinum erlenda iðnaði. Það leiðir m.a. af sér að meira er af honum keypt.

Hin ströngu verðlagsákvæði hafa slævt verðskyn neytenda. Neytendur telja að hið opinbera verðlagseftirlit og hinn opinberi stimpill á verðlagsprósentu sé nægileg trygging og vernd fyrir þá fyrir lágu verði og fyrir góðri þjónustu. Það þarf auk þess geysilegan herskara eftirlitsmanna til að tryggja að hinni opinberu álagningu sé fylgt. Það er fjarri því að Verðlagsskrifstofan og starfslið hennar hafi aðstöðu til að fylgja þessu eftir eins og raunar þyrfti fyrst verið er með þetta kerfi. Það þarf, eins og ég sagði, herskara eftirlitsmanna til þess að svo geti orðið.

Það mætti tína til fleiri dæmi. Ég skal láta þessi nægja við þessa umr., en vísa að öðru leyti um þetta og nokkur atriði, sem ég ræði ekki í þessari framsöguræðu, til ítarlegri framsöguræðu sem ég flutti við 1. umr. málsins í Nd.

Sú stefnubreyting, sem felst í yfirlýsingu ríkisstj. og þeim breytingum sem hér er lagt til að gera á verðlagslögunum, tekur mið af framkvæmd þessara mála eins og hún er hvað þróuðust á Norðurlöndum. Hefur þegar verið hafist handa um nokkurn undirbúning að þessum grundvelli í Verðlagsstofnuninni. Eins og fram kemur felur frv. í sér að verðlagsráð geti heimilað að fella verðlagningu undan verðlagsákvæðum þar sem samkeppni að mati ráðsins er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag. Er gert ráð fyrir að eftirlit með þróun verðlags og verðmyndun í þeim flokkum vöru og þjónustu, sem undanþegin kunna að verða verðlagsákvæðum, verði í formi svokallaðrar verðgæslu. Verðgæslan byggist einkum á eftirfarandi fjórum þáttum:

1. Upplýsingasöfnun um verðlag og verðbreytingar á vörum og þjónustu.

2. Athugunum á verðmyndun og verðlagsþróun.

3. Viðræðum og samningaumleitunum við fyrirtæki og samtök með það fyrir augum að reyna að draga úr verðhækkunum.

4. Upplýsingamiðlun til stjórnvalda og almennings um verðbreytingar og verðlagsþróun.

Rétt er að skýra nánar hvað í þessu felst. Breytingin er fólgin í því, að þegar verðlagsráð telur, að samkeppni sé nægileg, og fellir niður prósentuálagningarregluna, þá verðleggja fyrirtækin sjálf vöruna. Hins vegar er skylt að tilkynna til Verðlagsstofnunar breytingar á vöruverði. Hún tekur síðan þessar tilkynningar til athugunar. Þar með gefst Verðlagsstofnun og yfirvöldum ráðrúm til að ganga úr skugga um hvort áformuð verðbreyting sé í samræmi við eðlilegar kostnaðarhækkanir. Tilkynningarskyldunni er ætlað að ná til svo margra tegunda vöru og þjónustu að góð yfirsýn fáist yfir þróun verðlags í einstökum greinum. Til að tryggja að verðlagsyfirvöld fái þær upplýsingar, sem þau telja nauðsynlegar til að fylgjast með verðmynduninni, eru í lögunum mjög ríkar heimildir fyrir þau til gagnasöfnunar.

Ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að frjáls samkeppni milli einkaverslunar og samvinnuverslunar og einnig innbyrðis ásamt virkri verðgæslu og sterkum neytendasamtökum sé líklegasta leiðin til að tryggja lægsta vöruverð, vörugæði og góða þjónustu. Ég vil svo taka það fram, að miðað við aðstæður okkar hagkerfis verður að fara fram með gætni í þessum málum og fá sem flesta til að standa að þessu. Ég vil þó vara við þeirri trú, að þessi stefnubreyting í verðlagsmálum valdi mjög miklu um að ráða niðurlögum hinnar miklu verðbólgu sem hér hefur ríkt um langan tíma. Þar koma að sjálfsögðu margir aðrir þættir efnahagskerfisins til sögunnar. Hins vegar er þessi stefnubreyting eitt af fyrstu skrefunum í þeirri kerfisbreytingu sem ríkisstj. vill gera í okkar efnahagskerfi, sem stuðlað gæti að hjöðnun verðbólgu án þess að ganga á kaupmátt launa. Þá verður að telja það framför í stjórnarháttum, að verðlag á einstökum vörum sé ekki lengur að velkjast á borði sjálfrar ríkisstjórnarinnar.

Áður en ég geri grein fyrir frv. í einstökum atriðum vil ég leggja áherslu á nokkur meginatriði:

1. Alþingi og ríkisstj. marka hina pólitísku stefnu í verðlagsmálum og setja ramma um meðferð þeirra mála.

2. Við það að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun og auka sveigjanleika í verðmyndunarkerfinu með virkri verðgæslu í stað beinna verðlagsákvæða er verið að leggja mikla ábyrgð á hendur verslunarinnar í landinu og fyrirtækjanna, svo og neytenda, Verðlagsstofnunar og verðlagsráðs. Ábyrgð verslunarinnar verður mikil og vel eftir því tekið hvernig tekst til.

3. Fara verður fram með gætni við framkvæmd hinnar nýju stefnu og reyna að mynda víðtæka samstöðu innan skynsamlegra marka.

Það má segja að í raun og veru sé um að ræða fimm meginbreytingar í þessu frv.

1. Samkeppnisnefnd verði lögð niður, en verðlagsráð taki við störfum hennar. Þykir breytingin æskileg þar sem hætta er á að verksvið þessara tveggja aðila á sviði stjórnsýslunnar skarist, ekki síst nú þegar lögin eru að öllu leyti komin til framkvæmda. Þá þykir það horfa til einföldunar og vinnusparnaðar að einn aðill annist framkvæmd laganna í stað tveggja.

2. Lagt er til að sett verði á laggirnar þriggja manna nefnd er undirbúi mál fyrir verðlagsráð í því skyni að hraða málsmeðferð. Er og gert ráð fyrir að nefndin geti tekið ákvarðanir um einstök mál er heyra undir verðlagsráð en ekki er hægt að láta bíða til næsta fundar í ráðinu. Ákvarðanir þessar eru þó einungis til bráðabirgða. Vegna verksviðs nefndarinnar þykir rétt að verðlagsstjóri sér þar í forsæti og að stærstu hagsmunasamtök vinnumarkaðarins eigi þar sinn fulltrúa hvor.

Það urðu smávægilegar breytingar í Nd. á frv. varðandi þessa nefnd. Önnur var sú, að þeir, sem nefndina skipa af hálfu Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins, skuli ekki eiga sæti í verðlagsráði, heldur séu það aðrir menn sem þar komi til. Í öðru lagi var sú viðbót, að samþykki allra nefndarmanna þarf til að taka ákvarðanir í þessari vinnunefnd. Ég álit, að þessar breytingar hafi báðar verið til bóta, og er þeim algerlega samþykkur.

3. Lagt er til að verðlagsráð geti fellt verðlagningu undan verðlagsákvæðum án þess að ríkisstj. þurfi að veita sérstakt samþykki sitt til þess. Þá er og lagt til að Verðlagsstofnun geti skyldað aðila til að tilkynna stofnuninni verðhækkanir ef verðlagsákvæði hafa verið afnumin. Í ákvæðinu er enn fremur sleginn sá varnagli, að verðlagsráð geti gripið til ákveðinna aðhaldsaðgerða, þ. á m. hámarksverðs og hámarksálagningar, ef í ljós kemur að samkeppni er takmörkuð eða önnur tilgreind skilyrði eru til staðar.

4. Lagt er til að í lögin verði sett ný ákvæði um verðútreikninga.

5. Lagt er til að hámarks- og lágmarksfjárhæðir dagsekta, sem verðlagsráð getur lagt á þá er vanrækja að láta í té nauðsynlegar skýrslur og gögn í sambandi við framkvæmd laganna, verði afnumdar.

Frv. fékk ákaflega ítarlega meðferð í Nd. og ég leyfi mér að vísa til nokkuð ítarlegri framsöguræðu sem ég flutti fyrir málinu þar. Ég vil leyfa mér að beina því til þeirrar nefndar, sem fær málið til meðferðar, að hún hraði meðferð þess svo að málið verði samþykkt á þessu þingi.

Að þessari umr. lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.