26.04.1982
Efri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4165 í B-deild Alþingistíðinda. (3803)

302. mál, stimpilgjald

Frsm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 710 hefur hv. fjh.- og viðskn. leyft sér að flytja frv. til l. um breytingu á lögum um stimpilgjald. Frv. þetta er flutt í samráði við hæstv. fjmrh. Efni þess er fyrst og fremst að jöfnunarhlutabréf skuli ekki vera stimpilgjaldsskyld þegar þau eru gefin út. Samkv. núgildandi lögum eru jöfnunarhlutabréf stimpilgjaldsskyld og hefur það valdið því, að menn hafa síður og jafnvel ekki gefið út jöfnunarhlutabréf. Þessi leiðrétting eða hreingerning á því ekki að hafa í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð, en á hinn bóginn stuðla að því, að menn geti með eðlilegum hætti gefið út jöfnunarhlutabréf svo að hlutabréf séu í takt við verðgildi.