05.11.1981
Sameinað þing: 14. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

67. mál, íþróttamannvirki á Laugarvatni

Baldur Óskarsson:

Herra forseti. Það mætti ýmislegt segja um þessa síðustu ræðu hv. þm. Guðmundar G. Þórarinssonar. Hann er þekktur að ýmsu öðru en vera framgjarn og auglýsa sjálfan sig og hefur þess vegna efni á að setja ofan í við menn af mínu tagi, eins og hann lýsti mér áðan. En ég sé enga ástæðu til að fara að kappræða hér um hvaða innri mann ég hef að geyma eða hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson. Það skiptir auðvitað meginmáli, að sá tillöguflutningur, sem ég hef haft hér uppi varðandi íþróttamannvirki á Laugarvatni, hefur hreyft við þinginu með eftirminnilegum hætti, og ég sé ekki betur en þetta mál sé á góðri leið með að komast í endanlega höfn.

Halda menn að ótti þeirra fyrir austan um að þetta muni endalaust dragast hafi verið alveg ástæðulaus? Dettur mönnum í hug að ég sé sá karl að hafa æst upp einhvern lýð á Laugarvatni, búið til voðalegar herferðir og sýningar í því skyni að auglýsa sjálfan mig í sambandi við þetta mál? Nei, ég get fullvissað hv. þm. um að skólastjórar Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni og annarra skóla þar, kennarar og nemendur og staðarfólk hafði áhyggjur af þessu máli. Þess vegna efndi það sjálft og að eigin frumkvæði til baráttufundar sem betur hefði verið sóttur af fleiri þm. en mér.

Ég ætla ekki að efast um það eitt augnablik að þm. Suðurl., sem á undanfórnum árum hafa verið að vinna að þessu máli, hafi lagt sig alla fram og verið heils hugar í málinu. En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, að fólkið fyrir austan hélt að málið væri strandað, og þá var farið þess á leit við mig á sérstökum fundi, sem ég sótti á Laugarvatni og ég er oft búinn að vitna til, að ég eins og aðrir þm. kjördæmisins og aðrir velunnarar Laugarvatns hreyfði þessu máli á Alþingi og alls staðar þar sem væri aðstaða til þess. Og ég sinnti því kalli. Svo geta þeir komið hér allir í einni syrpu, þm. Suðurl. og aðrir, og haldið langar skammaræður um það, hvern mann ég hafi að geyma, ég sé að troða niður skóinn af samþm. mínum o. s. frv. Mér er alveg nákvæmlega sama um það. Það skiptir mig engu máli þó að þeir haldi slíkar ræður, vegna þess að ég var að sinna kalli umbjóðenda minna og ég tel að ég sé með mínu litla lóði á vogarskálina að gera Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni gagn.

Ég er varaþm. og sit hér aðeins í nokkra daga. Þetta er víst síðasti dagurinn sem ég sit á þingi. Ef ég átti að sinna kallinu og koma þessu máli hér á framfæri, sem ekki veitti af, — hvers vegna var ekki búið að því fyrr? — Þá varð ég að gera það með þeim hætti sem ég gerði.

Þegar ég kom austan frá Laugarvatni á föstudagsmorguninn voru þm. Suðurl. á tvist og bast. Hv. þm. Steinþór Gestsson og aðrir þm. Sjálfstfl. voru á landsfundi, Jón Helgason austur í Seglbúðum og svo mætti lengi telja. Mér var tjáð af skrifstofustjóra Alþingis að ef ég skilaði ekki þessari till. um hádegið á föstudag fengi ég hana alls ekki rædda í þessari viku. Ég taldi mér skylt að reyna að gera það, og ég ákvað að flytja hana einn þó að ég hefði auðvitað kosið að fleiri hefðu verið flm. En það er ekki aðalatriði máls hve margir menn flytja þáltill. Aðalatriði máls er hvernig tillögunni er tekið. Eru menn sammála innihaldinu og ætla menn að fara eftir því og vinna að því sem í till. segir? Að vísu segir hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson að þetta sé ljót till., innihaldið sé ljótt, efnið ljótt, frágangurinn ljótur og allt ljótt í sambandi við þetta mál. En hvernig er þetta innihald? Innihaldið er einungis það, að Alþingi fer fram á það við ríkisstj. að nú þegar verði hafist handa við byggingar íþróttamannvirkja sem samþ. voru af menntmrn. í fyrra. Menntmrn. samþ. ekki í fyrra hálft hús, Guðmundur G. Þórarinsson. Það samþ. heilt hús. Það er mannvirkið sem á að rísa og hefði átt að vera risið fyrir löngu.

Það er til skammar að það skuli hafa verið búið að Íþróttakennaraskóla Íslands í öll þessi ár með þeim hætti sem við þekkjum. Hafið þið ekki hlustað á Árna Guðmundsson skólastjóra í fjölmiðlum þegar hann hefur verið að lýsa aðstóðunni og lýsa píslargöngu sinni hingað suður hvað eftir annað til að reyna að koma málinu fram? Því miður hefur Alþingi tekið seint og illa við sér, þó nú sé farið af stað, og yfirvöld menntamála hafa líka gert það.

Ég er mjög þakklátur fyrir þá ræðu, sem hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason hélt áðan, og þann anda, sem þar kom fram, og þau tíðindi, að Framsfl. ætlar í heilu lagi að standa að því, að á fjárlögum ársins 1982 standi: Til Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni 5.2 millj. kr. (Gripið fram í: Hvað gerir Alþb.?) Ég veit ekki til að þingflokkur Alþb. hafi komið saman til fundar til að álykta um málið. Auðvitað hefur hann áhuga. (Gripið fram í: Hvar er fjmrh.?) Ég veit því miður ekki, þó ég sé framkvæmdastjóri Alþb., hvar ráðh. heldur sig hverju sinni.

Varðandi það, að menn eru að tala um slæmt form á málum, vil ég láta hv. Alþingi vita af því, að ég spurði hæstv. fjmrh. hvort hann hefði nokkuð á móti því, að ég flytti þáltill. af þessu tagi, sömuleiðis Geir Gunnarsson formann fjvn. og ýmsa áhugamenn um málefni Laugarvatns hér á Alþingi. Ég held að ég hafi gert gagn með því, vegna þess að þar hefur komið róti á málið. Það er hins vegar fyrir neðan allar hellur að vera að tala hér um þá Laugvetninga, sem hingað koma til að fylgja áhugamáli sínu eftir, í einhverjum óæðri tón og kalla þá sýningarfólk, þetta séu eins og einhverjir gripir, séu bara til sýnis, eins og hv. þm. Árni Gunnarsson talaði um áðan mörgum orðum. Þetta fólk er hingað komið til að lýsa áhuga sínum og það er ekkert athugavert við það, Guðmundur G. Þórarinsson. Það hafa allir leyfi til að koma í þetta hús. Er það nokkuð verra að þjóðin fylgist með því sem hér fer fram? Er það nokkuð verra fyrir hv. þm. að fá að vita hvað fólkið í landinu vill? Það hefur áhugamál. Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut að því.

Hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason, bað mig að nefna menn í menntmrn. sem væru andsnúnir því, að Íþróttakennaraskólinn sé þarna fyrir austan. Ég get nefnt þá menn. Ég kýs heldur og vona að ráðh. fallist á það, að ég geri það við hann prívat og persónulega. Menn í menntmrn. hafa sagt þetta í mín eyru. Þegar þm. Suðurl. og aðrir hafa verið að berjast fyrir því að koma á almennilegu íþróttamannvirkjum þarna fyrir austan hafa ýmsir, bæði úr íþróttahreyfingunni og líka menn í menntmrn. og aðrir, sagt: Íþróttakennaraskólinn á að rísa í Reykjavík. Framtíð Laugarvatns er ekki ljós. Það er vitleysa að vera að eyða miklu fjármagni í mannvirki þarna austur frá. — Þetta veit Árni Guðmundsson skólastjóri Íþróttakennaraskólans mætavel, og þetta vita vonandi allir sem hafa verið að vinna að þessu máli á undanförnum árum.

Svo halda menn að ég geti með einu símtali eða ég veit ekki hverju fengið 400 manns austur á Laugarvatni til að koma hingað — til að hylla mig sérstaklega væntanlega. Hvers konar bull er þetta! Eða ég sé að hringja í fréttastofu útvarpsins að segja fréttamönnum fyrir hvaða fréttir þeir eigi að flytja. Ég hafði ekki hugmynd um þessar fréttir. Ég veit ekki hvaðan þær eru komnar, en ég hygg að þær hljóti að vera komnar austan frá Laugarvatni. Mér þykir það ákaflega trúlegt.

Það má vel vera að ég sé með þessum tillöguflutningi að gera eitthvert asnaspark, klaufaspark og allt það sem hv. þm. Steinþór Gestsson nefndi í sinni tölu. Það verður þá að hafa það.

Ég er ákaflega ánægður með þau orð sem hv. þm. Albert Guðmundsson viðhafði í þessari umr. Ég held að það sé einmitt kjarni málsins. Ég held að þessar aðgerðir, Laugvetninga fyrst og fremst, hafi skapað þann vilja nú allt í einu hér á Alþingi að menn séu tilbúnir að samþ. þegar í stað að Laugarvatnsskóli fái á fjárlögum 5.2 millj. kr. á næsta ári. Það er þá til einhvers barist, ég verð að segja það. Ég hef verið að sinna kalli fólksins vegna þess að það kall er rétt. Og mér er alveg sama hvað ég er kallaður hér í þingsölunum. Það skiptir mig engu máli. Ef ég get lagt mitt litla lóð á vogarskálina í þessu máli, í máli sem ég tel vera rétt og horfa til heilla fyrir fólkið og fyrir þjóðina og landið, þá er það það sem skiptir máli.

Ég vil alveg sérstaklega þakka fyrir þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Níels Á. 1.und, að auðvitað hefði verið æskilegt að fjmrh. hefði verið hér sjálfur að hlusta á umr. og taka þátt í henni. Vonandi kemur hann hér í kvöld og getur þá kannske tekið til máls. En vegna þess að það hefur töluvert verið að honum veist langar mig að spyrja hæstv. menntmrh. hvort það sé ekki rétt að ráðuneyti hans komi til fjmrn. með heildarupphæð til skólabygginga. Er það rangt? (Menntamrh.: Þetta er alveg ákveðin tillaga. Ég get greint frá því strax núna, að það var ákveðin tillaga sem fyrir lá frá mér um 5.2 millj.) Er rangt hjá mér að þegar verið er að gera fjárlög séu ákveðnar heildarupphæðir til mála, en fjmrn. skipti síðan slíkum upphæðum? (Gripið fram í.) Þá hef ég á röngu að standa. Ég hélt að þannig væri unnið, en það leiðréttist þá hér með.

Ég vil ekki vera að lengja þessa umr. miklu meira. Það er ástæðulaust vegna þess að mér sýnist að allir séu á einu mál: Framsfl. í einu lagi, allur samanlagður þingflokkurinn reiðubúinn að leggja til að á fjárlögum 1982 verði varið 5.2 millj. til byggingar íþróttamannvirkja á Laugarvatni, Alþfl. í einu lagi, Albert Guðmundsson og sjálfsagt ýmsir fleiri. Þá verð ég að segja að það er til einhvers barist.

Ég þakka alþm. þessar góðu undirtektir, og ég þakka Laugvetningum fyrir komuna hingað. Ég vil þveröfugt við það sem Guðmundur G. Þórarinsson gerði áðan þegar hann var með ónot út í það fólk sem hér kom. Ég þakka því komuna. Það eruð þið sem hafið unnið þetta mál. Það eruð þið sem hafið gert það að verkum með baráttuaðgerðum ykkar að þetta mál er sennilega í höfn.

Við skulum vonast til þess, að allir, líka hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, — allir alþm. megi hafa af málinu nokkurn sóma þegar upp verður staðið. Það er auðvitað hneyksli hvernig að Íþróttakennaraskólanum er búið. Það er hneyksli að lögboðin íþróttakennsla skuli ekki fara fram við skólana á Laugarvatni. Það verður að ráða á því skjóta bót. Ég vonast til, eins og ég gerði í upphafsræðu minni, að þm. snúi allir bökum saman í þessu máli. En að vera að hengja hatt sinn á það, hvernig þessi till. er flutt eða hvernig hún er orðuð, og gera úr því eitthvert stórkostlegt mál, það finnst mér satt að segja aumur málflutningur. Kjarni málsins er að íþróttamannvirkin á Laugarvatni eiga að rísa. Um það skulu alþm. standa saman.