26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4170 í B-deild Alþingistíðinda. (3820)

207. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 10 frá 1960, um söluskatt. Þetta nál. er frá minni hl. fjh.- og viðskn. Málið hefur verið nokkuð rætt í nefndinni, en með leyfi forseta ætla ég að lesa upp nál. eins og það er á þskj. 689:

„Á s.l. ári skipaði samgrh. nefnd til að endurskoða tekjuöflun til vegagerðar af umferðinni. Skilaði nefndin fyrir nokkru ítarlegum skýrslum og tillögum um breytta tekjuöflun, sem nú eru til athugunar hjá samgrn. og fjmrn.

Undirritaðir nm. telja sjálfsagt að endurskoða hlutdeild Vegasjóðs í óbeinum sköttum sem lagðir eru á bensin. Í því sambandi kemur til greina sú leið, er frv. gerir ráð fyrir, eða að taka tillit til þess við ákvörðun ríkisframlags samkv. fjárlögum. Í því sambandi vísast til meðfylgjandi umsagnar fjmrn.

Með tilvísun til ofanritaðs leggja undirritaðir nm. til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Ég vil benda hv. þdm. á fskj. sem er prentað með nál., en þar kemur fram m.a. að telji Alþingi þörf á að auka þessi fjárframlög sýnist eðlilegast að slík ákvörðun fari fram með venjulegum hætti án þess að til mörkunar á tilteknum söluskattstekjum komi, enda sú leið mun einfaldari að því markmiði sem að er stefnt samkv. þessu.