26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4171 í B-deild Alþingistíðinda. (3822)

259. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 68 frá 10. okt. 1967, um Iðnlánasjóð, sbr. fleiri breytingar sem tilteknar eru í heiti frv. og varða breytingu á lögum um sjóðinn, og er frv. flutt að höfðu samráði við Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna.

Frv. þetta felur í sér þrjár meginbreytingar. Í fyrsta lagi er lagt til að iðnlánasjóðsgjald verði lækkað um 90%, þ.e. úr 0.5% af aðstöðugjaldsstofni í 0.05%. Í öðru lagi er lagt til að lánstími og lánshlutfall verði rýmkað verulega, þannig að hámarkslánstími verði 25 ár í stað 15 ára samkv. gildandi lögum og að hæsta leyfilegt lánshlutfall hækki úr 60% í 70%. Í þriðja lagi er lagt til að ákvæði í núgildandi lögum um Iðnlánasjóð um sérstaka veiðarfæradeild verði fellt niður. Sú deild byggðist á sínum tíma á sérstöku gjaldi, sem innheimt var af innfluttum veiðarfærum, en sú gjaldtaka féll niður fyrir nokkrum árum. Lagt er til að lækkun iðnlánasjóðsgjaldsins komi til framkvæmda á árinu 1983 á aðstöðugjaldsstofn ársins 1982. Lækkun iðnlánasjóðsgjaldsins mun bæta rekstrarskilyrði iðnaðarins, og hækkun lánshlutfalls og lenging lánstíma eru einnig breytingar sem ganga í sömu átt.

Iðnlánasjóður er sá fjárfestingarlánasjóður sem hvað fyrst tók upp verðtryggingu á sínum útlánum. Með þessari aðgerð og fleiri hefur tekist að varðveita höfuðstól sjóðsins þannig að í lok seinasta árs nam eigið fé hans 137 millj. kr. Það er samdóma álit iðnrn. og samtaka iðnaðarins og ríkisstj., að við þessar aðstæður sé unnt og rétt að starfrækja Iðnlánasjóð sem gegnumstreymissjóð, þ.e. að hann sinni sínu hlutverki með lántökum. En þá þarf að hafa auga á því í sambandi við lánsfjárheimildir á næstu árum til sjóðsins, að þær verði svo rúmar að nægi til þess að sinna brýnni þörf. Með væntanlegri lögfestingu þessa frv. yrði stigið skref til að bæta starfsskilyrði iðnaðarins. Nauðsynlegt er að fleiri þættir fylgi í kjölfarið.

Frv. þetta er komið frá hv. Ed. og um það varð þar samstaða. Ég vænti þess, að það verði einnig hér í þessari hv. deild þannig að frv. verði að lögum fyrir lok þessa þings. Ég legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.