26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3824)

259. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Mér kemur dálítið á óvart að heyra málflutning hv. 4. þm. Austurl. í sambandi við flutning þessa frv. Ég get að vísu tekið undir það með honum, að auðvitað er matsatriði hvenær aðstæður eru fyrir hendi til þess að gera breytingu sem þá sem hér er lögð til. En það er mat jafnt samtaka iðnaðarins sem ríkisstj. að þessar aðstæður séu fyrir hendi, og ástæðan fyrir því, að metið er réttmætt að létta því, sem hv. þm. kallaði skyldusparnað, af iðnfyrirtækjum í formi iðnlánasjóðsgjaldsins um 90%, er sú, að tekist hefur að ávaxta pund þessa sjóðs með verulega öðrum hætti en annarra atvinnuvegasjóða, eins og skýrt kemur fram í skýrslum fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar yfirstandandi árs, töflu 14, minnir mig, þar sem er yfirlit um þetta, þar sem sést öflug eiginfjárstaða Iðnlánasjóðs, andstætt við það sem því miður gildir um Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þeim sjóðum er lögum samkv. lagt til umtalsvert fjármagn úr ríkissjóði, en Iðnlánasjóður fær þar mjög litið í sinn hlut, hefur ekki notið lögverndar að því leyti og þar hefur verið dregið saman í framlögum til hans eins og annarra sjóða, þannig að ríkisframlagið til Iðnlánasjóðs er mjög óverulegt á þessu ári, mig minnir aðeins 500 þús. Þetta hefur verið kleift og má teljast bærilegt fyrir sjóðinn sem slíkan. Þó að út af fyrir sig sé ekki réttlæti í því með tilliti til annarra lánasjóða atvinnuveganna, þá hefur þetta verið kleift vegna þess, hvernig Iðnlánasjóður, stjórn hans og forstöðumenn hafa haldið á málum varðandi ávöxtun á lánsfé úr sjóðnum. Og ég tel, andstætt við það sem fram kom h já hv. 4. þm. Austurl., að þetta sé í senn réttmæt og eðlileg ráðstöfun nú þegar eiginfjárstaða Iðnlánasjóðs er svo sem raun ber vitni, höfuðstóllinn í lok síðasta árs 137 millj. kr.

Ástæðan fyrir því, að ekki er gert ráð fyrir að fella þetta með öllu niður, er að ríkið leggur þó lítils háttar til sjóðsins. Og það var einnig um það samstaða við samtök iðnaðarins; að ekki yrði gengið lengra að þessu leyti. Ég má segja að þetta tengist einnig innheimtu á iðnaðarmálagjaldi sem innheimt er samkv. sérstökum lögum af ríkissjóði og er til hagræðis fyrir samtök iðnaðarins. Því varð það að ráði að ganga ekki lengra að þessu leyti.

Af iðnlánasjóðsgjaldi hefur runnið allt að 10% til sérstakra hagræðingarrannsókna varðandi iðnaðinn, sem veitt hefur verið samtökum iðnaðarins, og er gert ráð fyrir að svo verði áfram þó að sú upphæð, sem þar kemur til skipta, sé að sjálfsögðu sem svarar þessu lægri í framtíðinni miðað við að þetta verði lögfest.

Ég tel ekki eftir neinu að bíða með að stíga það skref sem hér er lagt til, og tel að forsendur séu þar fyrir hendi og það gildi verulega annað um Iðnlánasjóð og iðnfyrirtækin, sem í hann hafa greitt, að þessu leyti heldur en um aðra stofnlánasjóði atvinnuveganna sem sannarlega þyrftu að athuga sinn gang. Raunar hefur verið breytt ávöxtun lánsfjár frá þeim sjóðum til verðtryggingar, en neikvæð staða eftir sem áður og um verulegt ríkisframlag að ræða til þeirra sjóða þar sem væri mjög þröngt fyrir dyrum ef það væri ekki. En eins og ég sagði er þetta vissulega matsatriði. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því, hvenær þetta sé tímabært, og varðandi lántökurnar tel ég enga goðgá að taka erlend lán miðað við að þeim sé ráðstafað til arðbærrar fjárfestingar. Og fjárfestingar Iðnlánasjóðs eru metnar af stjórn hans, hvaða fjárfestingar eru lánshæfar og arðbærar taldar, þannig að þó að bætt sé við lánsfé til sjóðsins til þess að vega upp á móti því sem skerðist vegna niðurfellingar iðnlánasjóðsgjaldsins, þá tel ég að þar sé ekki verið að stofna til óeðlilegra skuldbindinga.