26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4173 í B-deild Alþingistíðinda. (3825)

259. mál, Iðnlánasjóður

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er rétt, ég get borið um það, að Iðnlánasjóður er einn af ef ekki einn best rekni atvinnuvegalánasjóður ásamt með kannske Lánasjóði sveitarfélaga og Framkvæmdasjóði. Ég beið aðeins eftir því, að hæstv. iðnrh. nefndi Fiskveiðasjóð og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Hvað halda menn að þetta fordæmi þýði þeirra vegna? Það liggur alveg augljóst fyrir að þeir munu krefjast þess, að það verði farið í sama kjölfarið, siglt í sama kjölfarið, og samtök útvegsins verða óðar í bili komin á hálsinn á hæstv. sjútvrh. að afnema alla þá fjölmörgu pinkla sem á þá mösulbeina meri hafa verið lagðir um áratuga skeið. Sama er að segja um Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég hygg að það mál hafi verið sérstaklega rætt á síðasta Búnaðarþingi. Ég hygg einnig að bændur sjálfir, sem þurfa að greiða þetta, hafi þó ekki verið svo bjartsýnir að leggja til að leggja þetta af með öllu strax, en hugsi til þess. Við það, að þetta er afnumið fyrir Iðnlánasjóð þarf engum blöðum um það að fletta, að þess muni verða krafist af þessum samtökum, að sams konar álögum verði létt af þeim. Og það er auðsýnt mál, að þarna hafa samtök iðnaðarins þrýst hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. til þess að láta að þessum óskum sínum. Menn eru hættir að þola allan ágang og þrýsting. Þeir láta undan öllu sem á fjörur þeirra rekur. Mér er sem ég sjái framan í hæstv. sjútvrh. þegar Kristján Ragnarsson leggst á bakið á honum með sín samtök. Eigi að refsa útvegsmönnum fyrir illa rekinn Fiskveiðasjóð, þá er verið að hengja bakara fyrir smið, vegna þess að það eru aðeins örfá ár liðin síðan fulltrúar hagsmunaaðila komu að stjórn þess sjóðs. Og það er áreiðanlegt, að hann hefur stórrétt við í stjórnun, sá sjóður, síðan þeir eignuðust aðild þar að.

Það eru gamlar syndir sem hvíla á forráðamönnum Stofnlánadeildar landbúnaðarins, eldgamlar syndir, þar sem sjóðsstjórnin sá sér löngum og löngum fært að taka lán og endurlána þau með ódýrari hætti og lægri vöxtum en hún tók þau. Þetta er liðin saga. En mér er stórlega til efs að bændur telji að þeir eigi að borga fyrir þær syndir nú, en muni þess vegna krefjast þess eindregið, að samsvarandi verði gert þeirra vegna. Og útvegurinn allur, þá líst mér á, eins og komið er fyrir Fiskveiðasjóði Íslands. sem satt að segja er illa staddur svo að ekki sé meira sagt, mjög illa staddur, og langt frá því að Stofnlánadeild landbúnaðarins hafi rétt svo við sem þyrfti.

En ég stilli dæminu einfaldlega svona upp fyrir framan hv. þdm. Það fjármagn, sem Iðnlánasjóði var ætlað í ár, þóttust menn skera við nögl. Af hverju? Af því að menn treystu sér ekki í hærri lántökur erlendis. Ef þetta gjald hefði verið búið að fella niður, þá hefði annaðhvort þurft að skera 16 millj. kr. af ráðstöfunarfé Iðnlánasjóðs, eins og það er í ár, eða bæta við erlendum lántökum upp á 16 millj. kr. Ætli sé ekki ráð að hugsa sig um aðeins andartak? Ætli það komi ekki annað hljóð í strokkinn þegar menn fara að setja saman lánsfjáráætlun fyrir næsta ár á hausti komanda? Ætli menn þykist þá ekki þurfa að grípa til allra tiltækra ráða til þess að fjárhagsstaða og útlánageta Iðnlánasjóðs sem og annarra sjóða verði með þeim hætti, að atvinnugreinarnar megi við það búa? Það þarf enga spádómsgáfu til að segja þetta fyrir. Að sjálfsögðu verðum við í hinum mestu þrengingum, enn meiri þrengingum en við vorum í s.l. haust og undanfarin ár, af því sem erlendu skuldirnar vaxa svo gífurlega sem raun ber vitni og við neyðumst til þess að draga úr þeim. Á sama tíma sem svo er komið fyrir okkur ætla menn að fara að leggja niður innlenda tekjuöflun, frjáls framlög til stofnlánasjóðanna.

Ég hygg nú, að ef menn fá að hugsa sig um, þá sjái þeir að þetta er ekki rétt nú. Ég er ekki fjarri því að úr rætist fyrir iðnaðinum, og vitanlega verður þessi sjóður rekinn áfram af mikilli hagsýni. Þá er ég ekkert fjarri því, að það þurfi ekki að liða mörg ár þar til við getum athugað þetta af fyllstu alvöru. En þá verða menn líka að vera viðbúnir því að önnur hagsmunasamtök sigli í sama kjölfarið. Gera menn sér þetta alveg ljóst? Þá þekkja menn ekki til innviðanna í þessu þjóðfélagi ef þeir gera sér ekki þetta ljóst. A.m.k. ættu fulltrúar verkalýðsins að geta sagt sér það því hver étur úr annars aski þegar eitthvað kemur upp á borðið.