26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4176 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

272. mál, Kísiliðjan

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um aukningu hlutafjár í Kísiliðjunni hf. Frv. þetta er komið frá hv. Ed. sem afgreiddi málið af sinni hálfu án breytinga, að ég hygg, frá því sem það var lagt fram af ríkisstjórninni.

Samkv. 1. gr. frv. er ríkisstj. heimili að yfirtaka kröfur að jafnvirði allt að 1.3 millj. bandaríkjadollara í íslenskum krónum á hendur Kísiliðjunni hf. og leggja þá fjárhæð fram til aukningar hlutafjár ríkissjóðs í fyrirtækinu. Gert er ráð fyrir að aukning hlutafjár ríkissjóðs verði með þeim hætti að ríkissjóður taki að sér að greiða fjögur lán, sem nú hvíla á Kísiliðjunni, og eru þau talin upp í frv. Samtals eru þessi lán að upphæð í bandaríkjadölum talið 1 290 460 eða um 13 millj. ísl. kr.

Annar aðaleigandi Kísiliðjunnar hf., Manville, mun yfirtaka lán að upphæð 262 500 bandaríkjadali, sem Manville veitti Kísiliðjunni fyrir nokkrum árum. Samhliða þessu verða gerðir nýir samningar milli Kísiliðjunnar hf. og Manville um söluþóknun og greiðslu fyrir tækniþekkingu. Í samningi um söluþóknun er kveðið á um 25% gjald en í reynd hefur gjald þetta verið mun lægra frá byrjun. Er áformað að semja um 12%, og hugsanlega verða fleiri breytingar gerðar á sölusamningi.

Í tæknisamningi um fyrirtækið er kveðið á um að Kísiliðjan greiði Manville 6% tækniþjónustugjald, en í reynd hefur verið greitt 2% tækniþjónustugjald og er ætlunin að fastsetja það í nýjum samningi.

Þær ráðstafanir, sem ég hef greint frá, hafa það að markmiði að treysta rekstrargrundvöll Kísiliðjunnar hf. Fulltrúar iðnrn. og Manville hafa átt viðræður um málefni Kísiliðjunnar að undanförnu, og varð niðurstaða þeirra viðræðna í samræmi við það frv. sem hér er rætt og lagt var fyrir Alþingi sem stjfrv.

Þess má geta, að Kísiliðjan varð sérstaklega hart úti á síðasta ári vegna gengisþróunar, þar sem hún flytur nær eingöngu út á Evrópumarkað og þær gengissveiflur, sem urðu á alþjóðamörkuðum á gjaldmiðlum, komu mjög hart niður á fyrirtækinu. Fyrirtækið þurfti á sinum tíma að leggja í verulegan kostnað vegna skakkafalla af völdum jarðeldsumbrota á Kröflusvæðinu, sem náðu yfir á svæði Kísiliðjunnar, og gat þar lagt til af eigin fé umtalsverðar upphæðir á sínum tíma. En þessi hagstæða þróun gekk til baka á allra síðustu árum, eins og ég hef getið um, og því er nauðsynlegt að styrkja fjárhagsstöðu fyrirtækisins með þeim ráðstöfunum sem hér er gert ráð fyrir.

Þessu frv., ef lögfest verður, sem ég vænti að verði hér á þinginu, fylgir breyting á eignarhlutdeild í fyrirtækinu. Eignarhlutur ríkissjóðs hækkar úr 51.6% í 63%, en eignarhlutdeild Manville, áður Johns Manville, lækkar úr 47.8%, sem það nú er í, í 36.5%. Auk þess eiga sveitarfélög á Norðurlandi eystra smávegis hlutdeild í Kísiliðjunni, sem nú er 0.6% og yrði hlutfallslega aðeins lægri, eða 0.5%, ef þau auka ekki hlut sinn í fyrirtækinu. Það er hins vegar mál sem getur verið til athugunar áframhaldandi. Ekki hefur verið sérstaklega rætt við sveitarfélög á svæðinu um það, hvort þau kjósi að auka hlut sinn í Kísiliðjunni, en ég tel eðlilegt að þeim gefist kostur á að gera það og það verði kannað við framhaldsmeðferð, eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Það er algerlega opið að taka á því máli eftir að frv. þetta hefur verið lögfest.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. iðnn.