26.04.1982
Neðri deild: 71. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3842)

37. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Vegna þess, sem hæstv. fjmrh. sagði varðandi virðisaukaskattinn, vil ég endurtaka það sem ég sagði áðan, að þetta mál hefur verið til umfjöllunar um margra ára skeið og það eru til álitsgerðir um virðisaukaskatt sem gerðar hafa verið fyrir fjmrn. Þess vegna hefði að mínum dómi verið miklu eðlilegri framgangur þessara mála á árinu 1980, að hæstv. fjmrh. hefði fram haldið þar sem frá var horfið hjá öðrum sem unnið höfðu að þessu máli á undan honum. Mér er hins vegar ljóst að það eru ýmis atriði sem athuga þarf í þessu máli, eins og hann vék að áðan. Það eru allar þær undanþágur sem eru á söluskattinum í dag. Það er ekki aðeins skattheimtan sem hér um ræðir. Það er líka verðlagið. Ef hugsað væri um virðisaukaskatt þar sem undanþágur væru engar, þá yrði að sjálfsögðu hækkun á þeim vörum sem nú eru undanþegnar söluskatti. Á hitt má benda, að það er ekki einhlítt að þar sem virðisaukaskattur hefur verið tekinn upp hafi ekki verið undanþágur og þá einmitt í sambandi við matvöruna. Það ætti þess vegna ekki að hræða menn svo mjög frá því að skoða þetta mál ofan í kjölinn og reyna að móta sér stefnu varðandi virðisaukaskattinn.

Hæstv. ráðh. vék að því frv. sem hann hefur flutt um staðgreiðslu og flutt hafði verið á árinu,1978 af þáv. ríkisstj. þegar ég gegndi embætti fjmrh. Hann fann eins og ég þá að undirtektir Alþingis voru ekki ýkjamiklar í sambandi við það að hverfa yfir til staðgreiðslukerfis, sér í lagi þar sem þær fyrirframgreiðslureglur, sem gilda í dag, gera það að verkum, að staðgreiðsla er framkvæmd eða svo til. Það er a.m.k. ekki nema í undantekningartilfellum sem ekki er hægt að ná henni fram. Vitaskuld gerist það þar sem miklar sveiflur eru í tekjum manna á milli ára, en það kemur líka til með að gerast þar sem um er að ræða staðgreiðslu. Munurinn er hins vegar sá, að dæmið verður gert upp eftir á og þeir, sem ekki hafa náð því að koma sinni skattgreiðslu fyrir til viðmiðunar réttum tekjum, verða að greiða til viðbótar þegar uppgjör fer fram. Hins vegar hafi menn ætlað sér of miklar tekjur, þá kemur til endurgreiðslu.

Þá er hitt atriðið sem hér hefur verið, fyrirframgreiðslan og heimild til hennar eftir því hverjar tekjubreytingar eru almennt á milli ára. Það ákvæði var sett inn í lög 1972 eða 1973. Ég man ekki nákvæmlega hvort árið það var. En það var gert — og um það var full samstaða hér á Alþingi — til þess að reyna að ná fram þeim áhrifum, sem staðgreiðslunni er ætlað að hafa, án þess að hverfa til staðgreiðslukerfisins, því að sé horfið að því í eitt skipti geta menn ekki snúið til baka. Hins vegar er ljóst að af þeim, sem hafa haft kynni af staðgreiðslukerfi eins og það hefur verið í okkar næstu nágrannalöndum, eru þeir miklu fleiri sem telja að ekki hefði verið rétt að hverfa til þess.

Hitt er spurningin, og það held ég að Alþingi ætti að skoða mjög vel, hvort ekki er hægt að breyta svo verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að beinu skattarnir verði eingöngu til sveitarfélaganna og þá lagðir á sem brúttóskattar. Þá er mjög auðvelt að koma staðgreiðslunni við, eins og raunar er nú um útsvar til sveitarfélaga. Þetta mundi einfalda dæmið bæði fyrir sveitarfélögin og fyrir ríkið. Ég held að þessi athugun þyrfti að fara fram áður en menn hugsa sér að hverfa til staðgreiðslukerfisins. Þá væru sveitarfélögin styrkt og þeirra forusta í fleiri málum kæmi til en er í dag.

Ég vildi aðeins láta þetta koma hér fram af því að hæstv. fjmrh. vék að virðisaukaskattinum og staðgreiðslukerfinu. En staðreynd málsins er sú, að í þessum málum hefur ekkert verið unnið þennan tíma frá haustinu 1978. Allt, sem hefur verið gert í þessum málum, er að auka á skattheimtuna sem svo — að dómi þeirra sem þetta frv. flytja — verður til þess, að skil til ríkissjóðs eru ekki nægjanlega góð. Þá er leiðin, sem þeir vilja fremur fara, að fá ný refsiákvæði, fá nýjar heimildir til útgáfu reglugerða í stað þess að leitast við að draga úr skattheimtunni og nýta þær upplýsingar og greinargerðir sem fyrir liggja, vinna úr þeim og koma með eitthvað raunhæft í þessum málum í stað þess sýknt og heilagt að vera með nýja og nýja skattheimtu.