26.04.1982
Neðri deild: 72. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3846)

215. mál, skattskylda innlánsstofnana

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það er nú ekki fjölmennt hér í deildinni þegar fram er haldið umr. um frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana. Ég skal ekki heldur gera kröfu til þess, að hæstv. fjmrh., sem mælti fyrir þessu frv. áðan, verði sóttur. Ég held að ef þessi umr. héldi ekki áfram nú tefði það svo fyrir starfsemi þingsins að mér sé ekki unnt að láta standa á því sem ég ætla að segja. Ég teldi þó rétt, eins og kom fram hjá forseta, að kannað væri hvort ráðh. væri ekki í húsinu og gæti verið hér.

Frv. til l. um skattskyldu innlánsstofnana, 215. mál, er sjálfsagt eitt hið sérkennilegasta sem hæstv. núv. ríkisstj. hefur lagt fram sem lið í þeim skattadarraðardansi sem hún stendur fyrir. Eins og frv. lítur út eftir umr. í Ed. er lagatexti þess sjö greinar upp á tæpa hálfa aðra síðu.

Síðan koma ákvæði til bráðabirgða, en þau ákvæði taka yfir nærri tvær síður. Þetta sýnir auðvitað hvers konar vinnubrögð eru hér á ferðinni, enda kom það fram í ræðu hæstv. fjmrh. sem ekki var býsna löng. Í þeirri ræðu sýndist hann ekki telja ástæðu til að gera hv. Nd. grein fyrir þessu máli meir en svo að til þess eyddi hann 5–10 mínútum. Það kom fram í máli hans að bráðabirgðaskattlagning yrði árið 1982 og bráðabirgðaskattlagning yrði árið 1983, þ.e. greiðslur upp í skattlagningu sem síðar yrði svo athuguð nánar árið 1984.

Frá því að frv. var lagt fram í hv. Ed. og þar til það nú er til l. umr. í hv. Nd. hafa verið gerðar á frv. mjög miklar breytingar. Það má segja að þar hafi verið tekið að hluta tillit til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið frá þeim aðilum sem gerst þekkja og við þessi lög eiga að búa, þau atriði hafa verið lagfærð, en það eru undantekningaratriði eins og ævinlega. Hins vegar sýna best vinnubrögð við þetta frv. þau fskj. sem eru til meðferðar og fylgja nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed., fskj. í frá Sambandi ísl. viðskiptabanka og Sambandi ísl. sparisjóða, fskj. II frá Seðlabanka Íslands, fskj. III frá Seðlabankanum, fskj. IV og V töflur frá Seðlabankanum, fskj. VI frá Búnaðarbanka, Iðnaðarbanka, Verslunarbanka, Samvinnubanka, Alþýðubankanum og Sambandi ísl. sparisjóða og VII. fskj. frá Iðnaðarbankanum hf. Þegar þessi fskj. eru öll lesin og skoðuð kemur glöggt fram að hér er gripið til skattlagningar sem er algerlega óunnin, tillögu um skattlagningu sem nánast verður að breyta á hverju ári héðan í frá, og er það í samræmi við það sem hæstv. fjmrh. sagði áðan.

Hann gat um að þetta frv. ætti að gefa ríkissjóði 40-50 millj. kr. Mér skilst að fram hafi komið að sú tala væri jafnvel ívið hærri. Í hv. Ed. er til meðferðar skyldusparnaðarfrv. sem á að gefa ríkissjóði eða Byggingarsjóði 35 millj. kr. tekjur. Allt er þetta í þá hít sem hæstv. núv. ríkisstj. eys svo úr og sýnist ekki ætla að vera á því neinn endir.

Þegar þessi umr. fer fram hefur Þjóðhagsstofnun látið frá sér fara upplýsingar um tekjuskatt á næsta ári út frá þeirri áætlun, sem fjárlög gerðu ráð fyrir, og þeim upplýsingum, sem Þjóðhagsstofnun hefur nú þegar fengið um tekjubreytingu á milli áranna 1980 og 1981, og reiknað út þá hversu miklar skatttekjur ríkissjóður muni hafa umfram það sem áætlað er í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Hér munu vera um að ræða 58 millj. kr.: í tekjuskatt 56.5 millj. og 1.5 millj. í sambandi við sjúkratryggingagjald. Skattheimtan á árinu 1982 mun því gefa ríkissjóði 58 millj. kr. meira í tekjur en gert er ráð fyrir. En það virðist samt sem áður ekki duga til, því að eins og menn vita er gert ráð fyrir erlendum lántökum á þessu ári með þeim hætti að þær hafa aldrei verið meiri og hæstv. fjmrh. nýbúinn að taka stærsta lán sem tekið hefur verið.

Það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að láta bankastofnanir greiða skatta, og það er ekki heldur svo að þær greiði ekki skatta. Hæstv. fjmrh. orðaði það svo, að eðlilegt væri að þeirra starfsemi væri skattskyld eins og annar rekstur í landinu, og vitnaði til þess, að þessar stofnanir væru skattskyldar í nágrannalöndunum. Ég vil benda á að þær greiða skatt hér líka. Landsútsvar greiða bankarnir, fasteignaskatta til sveitarfélaga greiða þessar stofnanir, gjaldeyrisskatt greiða gjaldeyrisbankarnir, launaskatt, lífeyristryggingar, slysatryggingar, atvinnuleysistryggingar og vinnueftirlitsgjald. Það er þá ekki rétt með farið þegar verið er að ræða þessi mál og það er orðað að þessar stofnanir greiði ekki skatta. Það er hins vegar spursmálið um tekju- og eignarskatt sem um er að ræða. Hingað til hafa viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir verið undanþegnir skyldu til að greiða tekjuskatt og eignarskatt. Þeim hefur samkv. lögum, eins og ég sagði áðan, hins vegar verið gert að greiða landsútsvar.

Ef til þess á að koma að þessar stofnanir greiði tekju- og eignarskatt þarf að mínum dómi að vanda miklu betur til þess en gert er með því frv. sem hér er til umr. og hefur verið afgreitt frá hv. Ed. Ótalmörg atriði koma þar til greina. Það er ýmislegt, m.a. hvernig þau skattalög eru sem gilda frá og með 1. jan. 1979, sem getur réttlætt skattlagningu þessara stofnana. En þá verður að sjálfsögðu að skoða með hvaða hætti þessir aðilar skila sínum rekstri og hvernig farið skuli með tekjustofna. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að skattlagning banka og sparisjóða er ekkert annað en skattlagning sparifjáreigenda, hvort heldur það eru þeir, sem innstæður eiga, eða þeir, sem skipta við bankana og greiða þeim vexti af þeim lánum sem þeir þar hafa fengið. Afkomumöguleikar þessara stofnana verða að sjálfsögðu að vera fyrir hendi. Það er tvímælalaust eitt það skynsamlegasta, sem hægt er að gera, að eiga vel stæðar peningastofnanir fyrir það atvinnulíf sem við viljum hafa í landinu. Framlagning frv. eins og þessa er að sjálfsögðu eingöngu út frá því sjónarmiði að afla tekna fyrir ríkissjóð, og þá skiptir ekki neinu máli hvernig að er staðið. Það er verið að útvega ríkissjóði fjármagn til eyðslu.

Þetta frv. þarf að dómi okkar sjálfstæðismanna miklu meiri athugunar við, þ.e. þessi hugmynd um skattlagningu banka og sparisjóða. Meðal þeirra atriða, sem þar koma til skoðunar, er t.d. vaxtamismunur, mismunur á innláns- og útlánsvöxtum. Þar kemur til greina þóknun sem tekin er fyrir ýmsa þjónustu. Þar kemur til greina rekstrarkostnaðurinn og ráðstöfun á eigin fé, hvort það hefur verið fest í fasteignum eða öðrum verðtryggðum fjármunum eða er bundið í venjulegum útlánum. Á undanförnum árum hafa viðskiptabankarnir ekki haft heimild til að ákveða vexti af inn- og útlánum né heldur hafa viðskiptastofnanirnar haft heimild til að setja af sjálfsdáðum gjaldskrá fyrir þá þjónustu sem þær veita. Stjórnvöld hafa því í raun og veru haft afkomu þessara stofnana í hendi sér.

Það væri eftir á að hyggja hægt að halda því fram, að það hefði gilt einu hvort viðskiptabankar í heild væru undanþegnir tekjuskatti og eignarskatti eða ekki. Það liggur hins vegar ljóst fyrir, að þegar þeim er ætlað að greiða tekju- og eignarskatt verða þeir fjármunir ekki sóttir til annarra en þeirra sem við peningastofnanirnar skipta. Á meðan skattalög höfðu ekki verið löguð að almennum verðbreytingum hefði tekjuskattsskylda bankanna þó leitt til eyðingar eigin fjár þeirra á skömmum tíma. Á þessu er ekki sama hætta nú og áður, eftir að verðbreytingarfærslur komu til skjalanna með þeim lögum sem nú gilda. Á hinn bóginn liggur það ljóst fyrir, að skattlagning banka þarfnast nákvæmrar yfirvegunar og þar verður að taka tillit til margvíslegra sérstakra atriða í rekstri banka og setja viðeigandi reglur um reikningsskil þeirra. Ég vil t.d. nefna í þessu sambandi vaxtayfirfærslur á milli ára, niðurfærslur á viðskiptakröfum, fyrningar vafasamra lána og skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðum. Það er einnig álitamál, hvort verðbreytingarfærslur ættu að fylgja sömu reglum og nú eru í skattalögum eða hvort þær ættu að fylgja öðrum reglum sem væru taldar eðlilegri og sérstæðari fyrir þessar stofnanir. Þá ber brýna nauðsyn að mínum dómi til að settar séu fastar reglur um eiginfjárstöðu þessara stofnana svo að tryggt sé að skattgreiðslur leiði ekki til óviðunandi eiginfjárstöðu banka og sparisjóða.

Þá er náttúrlega grundvallaratriðið, þegar undirbúin er skattlagning banka og sparisjóða, að það gildi sömu reglur um allar innlánsstofnanir. Það hefur nú, eins og ég gat um áðan, sýnt sig á brtt. þeim sem fluttar voru af meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. og samþykktar, að það frv., sem lagt var fram, hefði gersamlega farið með eiginfjárstöðu minni sparisjóðanna. Til þess að geta staðið við frv. hefðu þessar stofnanir orðið að grípa til sparifjár fólksins og nota það til að greiða í ríkissjóð. Á þetta var bent m.a. og það lagfært. Mér sýnist af þessu ákvæði, sem nú er komið, að nokkrir stærstu sparisjóðirnir muni greiða skatt til ríkisins. Hér er að sjálfsögðu verið að mismuna stofnunum eftir því hvernig þær standa, og það sýnir að þarna er ekki réttur grunnur notaður til að byggja skattheimtuna á. Það er ekki hægt að láta þessi skattalög eða þessa löggjöf gilda um allar þessar stofnanir, svo vitlaust er frv. í upphafi.

Það hefur verið spurt um það, og sjálfsagt fást við því svör í þeirri nefnd, sem fjallar um þetta mál, hvort ætlunin sé að auka vaxtabil til að standa undir þessari skattlagningu. Kemur fram í umsögn Seðlabanka Íslands, að til þess að gera það þyrfti að auka vaxtabilið um það bil 0.7–0.9%, eftir því hvort afurðalánavextir eru þar meðtaldir eða ekki. Að öðrum kosti er verið að rýra með þessari skattlagningu eiginfjárstöðu innlánsstofnananna. Það hafa ekki fengist nein svör og fengust ekki nein svör um hvort það er ætlun ríkisstj. að mæta þessari skattlagningu með hækkun útlánsvaxta eða hvort á að mæta henni með lækkun vaxta á sparifé eða þá að það sé hugsun þeirra að ganga á eiginfjárstöðu banka og sparisjóða og þá sjáum við auðvitað hvar það endar.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta frv. að þessu sinni. Ég er þeirrar skoðunar, að skynsamlegast væri að því væri vísað til ríkisstj. og málið fengi þar ítarlegri athugun. Það er, eins og ég sagði áðan, ekkert sem segir að ekki sé hægt að láta banka og sparisjóði greiða tekju- og eignarskatt eins og þeir greiða önnur gjöld til hins opinbera. En þar verður a.m.k. að haga málum þannig að það sé ekki verið að ganga á eigið fé þessara stofnana, þessar stofnanir fái með eðlilegum hætti að styrkja eiginfjárstöðu sína, að löggjöfin sé þannig úr garði gerð að hún geti gilt fyrir allar þessar stofnanir, hún sé ekki grundvölluð á þeim þáttum efnahagsreiknings stofnananna að löggjöfin geti ekki gilt nema um ákveðnar stofnanir. Og svo er það atriði, að um leið og lagður er á tekju og eignarskattur geri menn sér grein fyrir með hvaða hætti þessum stofnunum verður heimilað að mæta þeim greiðsluauka sem þær þar verða fyrir.

Ég skal, eins og ég sagði áðan, ekki fjölyrða um þetta mál. Ef það heldur áfram göngu sinni verður það að sjálfsögðu ítarlega skoðað í fjh.- og viðskn. og gefst tækifæri til að ræða málið í hv. deild við 2. og þá fleiri umræður.