26.04.1982
Efri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4191 í B-deild Alþingistíðinda. (3850)

292. mál, kirkjuþing og kirkjuráð

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um kirkjuþing og kirkjuráð íslensku þjóðkirkjunnar. Vegna fjarveru hæstv. dóms- og kirkjumálaráðh. vildi ég mæla hér nokkur orð fyrir frv.

Þetta frv. var lagt fyrir hv. Nd., hefur gengið þar í gegn og var þar samróma fylgi við frv. Frv. er samið af kirkjulaganefnd, en í henni eiga sæti þeir dr. Sigurbjörn Einarsson, fyrrum biskup, dr. Ármann Snævarr hæstaréttardómari og Baldur Möller ráðuneytisstjóri, en núverandi biskup, Pétur Sigurgeirsson, hefur tekið sæti fyrirrennara síns í nefndinni.

Með frv. er farið fram á nokkrar breytingar á núgildandi lögum. Meginbreytingarnar eru þessar: Kjörnum kirkjubingsmönnum verði fjölgað um fimm. Bætt verði tveimur við í Reykjavíkurprófastsdæmi, og er greint nánar á bls. 5 í grg. frv. í hverju fjölgun er fólgin. Þá er lagt til að kjörtímabil verði fjögur ár, en ekki fimm eins og nú er. Í þriðja lagi að vígslubiskupar eigi rétt til setu á kirkjuþingi. Í fjórða lagi að kirkjuþing komi saman ár hvert, en ekki annað hvert ár eins og verið hefur, en á hinn bóginn verði starfstími kirkjuþings allt að 10 dögum, en ekki allt að hálfum mánuði eins og nú er.

Nokkrar fleiri breytingar eru í frv. sem gerð er grein fyrir í allítarlegri grg., bæði almennri og við einstakar greinar.

Ég vænti þess, að frv. fái góðar undirtektir í þessari hv. deild eins og í Nd., og legg til að því verði vísað til 2. umr. og menntmn.