26.04.1982
Efri deild: 73. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4192 í B-deild Alþingistíðinda. (3864)

290. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Í umr. um mál þetta hér á dögunum, Húsnæðisstofnun ríkisins, komu fram, eins og við er að búast, ýmsar athugasemdir og mismunandi sjónarmið varðandi þennan málaflokk. Ég hygg að best sé að menn fái svör við þeim spurningum í nefndarstörfum frekar en ég sé að fara yfir það mál í einstökum atriðum hér.

Ég leit svo til að frv. fengi efnislega góðar undirtektir bæði hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni og hv. þm. Kjartan Jóhannssyni. Þeir fundu að því að málið væri ekki á lista ríkisstj. yfir svokölluð forgangsmál sem ætti að afgreiða á þessu þingi. Því er til að svara varðandi þetta atriði, að ég taldi ekki viðkunnanlegt að setja jafnstórt mál og þetta, sem ekki var einu sinni komið í nefnd, á þennan lista eins og hann var lagður fram af hæstv. forsrh. á fundi með forsetum og formönnum þingflokka nú fyrir nokkrum dögum. Hitt er hins vegar ljóst, að sé samstaða um þetta mál er það ekki einasta æskilegt, heldur væri mjög nauðsynlegt húsnæðiskerfisins vegna af margvíslegum ástæðum að þetta mál næði fram að ganga. Ég minni á það í þessu sambandi, að meginhlutinn af þeim brtt., sem hér er um að ræða, er fluttur að fengnu samhljóða samþykki húsnæðismálastjórnar, þannig að um frv., eins og það liggur hér fyrir, er mjög góð og víðtæk pólitísk samstaða enda þótt nokkur ágreiningur sé um húsnæðismálin að ýmsu öðru leyti.

Með tilliti til þessa, herra forseti, vil ég leyfa mér að fara fram á við nefndina, að hún athugi mjög gaumgæfilega hvort hún getur ekki á þeim fáu dögum, sem eftir lifa þinghaldsins, afgreitt málið svo að það verði að lögum á þessu þingi, en slíkt tekst auðvitað því aðeins með stærri mál af þessum toga að um þau sé tiltölulega góð samstaða.