27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4205 í B-deild Alþingistíðinda. (3872)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Á þskj. 122 hef ég leyft mér að beina fsp. til fjmrh. varðandi afgreiðslu ríkisstj. á frv. til l. um breyt. á lögum um söluskatt. Fsp. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Hvenær er að vænta afgreiðslu ríkisstj. á frv. til l. um breyt. á lögum nr. 10 frá 22. mars 1960, með síðari breytingum, um söluskatt, þar sem gert er ráð fyrir að sá hluti kostnaðarverðs vöru, sem stafar af aðkeyptum flutningi hennar milli staða innanlands, skuli ekki mynda stofn til söluskatts, en frv. var vísað til ríkisstj. 20. maí s.l. eftir 2. umr. málsins í Ed.?“

Þessi fsp. var lögð fram 25. nóv. 1981 og er mér það sönn ánægja að fjmrh. nú loksins telur sér fært að svara þessari fsp.

Það má ætla að tilgangur Alþingis með því að vísa frv. til ríkisstj. sé sá, að alþm. þykist ekki á þeirri stundu þegar umr. fer fram um málið í stakk búnir til að taka viðkomandi mál til endanlegrar umfjöllunar, en með því að vísa málinu til ríkisstj. séu þm. að gefa ríkisstj. ákveðinn umþóttunartíma til að taka málið til umfjöllunar og finna viðeigandi og heppilega lausn á viðkomandi máli. Einu slíku máli var vísað, eins og fyrr segir, til ríkisstj. 20. maí s.l., þ.e. fyrir 11 mánuðum, eftir 2. umr. Ég hef ekki orðið var við að það hafi komið frá ríkisstj. eitt eða neitt um þetta mál eða heyrst af umfjöllun þess í ríkisstj. Það er einmitt þessi grafarþögn um málið sem var orsök þess að ég og hv. alþm. Guðmundur Bjarnason bárum fram þá fsp. sem prentuð er á þskj. 122 og ég óska svars hæstv. fjmrh. við.