27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4206 í B-deild Alþingistíðinda. (3873)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrirspyrjendur spyrjast fyrir um hvenær sé að vænta afgreiðslu ríkisstj. á ákveðnu frv., sem afgreitt var frá Alþingi á þann hátt að því var vísað til ríkisstj. á s.l. vetri eftir að málið hafði verið rætt við 1. og 2. umr. í annarri deild. Sú skoðun er nokkuð útbreidd, að vísun frv. til ríkisstj. sé neikvæð athöfn af hálfu Alþingis, enda er það mála sannast að svo hefur stundum verið litið á af hálfu margra, og vafalaust hefur mikill meiri hluti þeirra mála, sem hefur verið vísað til ríkisstjórna í gegnum áratugina, ekki fengið neina sérstaka afgreiðslu þar. Ég lít ekki svo á að vísun til ríkisstj. sé neikvæð athöfn. Ég lít svo á að það sé hvorki jákvæð né neikvæð athöfn, heldur sé ósköp einfaldlega óskað eftir að málið sé tekið til nánari athugunar, og í þessu tilviki hefur það verið gert. Það hefur vissulega tekið nokkurn tíma, enda málið töluvert flókið.

Ég vil láta þess getið hér, að núv. ríkisstj. er eindregið þeirrar skoðunar, að stuðla þurfi að jafnara vöruverði í landinu, og kemur þetta skýrt fram í þeim yfirlýsingum sem frá ríkisstj. hafa komið. Ég vil einnig rifja upp, að á árinu 1973 var kosin sérstök þingnefnd sem átti að hafa það verkefni að gera tillögur um verðjöfnun vöruflutninga innanlands. Þessi nefnd skilaði mjög ítarlegri skýrslu á árinu 1976 og tillögur nefndarinnar voru í fjórum liðum og auk þess mörgum undirliðum. Það er þó eftirtektarvert, að engin af tillögum nefndarinnar gerði ráð fyrir að þessi leið væri valin, sú leið sem er hér til umræðu, þ.e. að reynt sé að ná þessum árangri með því að fella niður söluskatt af flutningskostnaði, heldur eru þar margar aðrar leiðir nefndar.

Fjmrn. hefur haft til gaumgæfilegrar athugunar þá leið sem frv. gerir ráð fyrir. Það er að mati rn. margt sem þarf að athuga nánar áður en sú leið, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, er valin. Það, sem einkum skal bent á í þessu sambandi, eru eftirfarandi staðreyndir:

Í fyrsta lagi eru mjög víðtækar undanþágur nú frá söluskattsálagningu. Í því sambandi nægir að nefna öll matvæli, áburð, fóðurbæti og olíu. Aðgerðir af því tagi, sem umrætt frv. gerir ráð fyrir, hafa því engin áhrif á verð þessara vörutegunda, þ.e. söluskattsfrjálsra vörutegunda.

Í öðru lagi er verðjöfnun nú þegar ríkjandi á ýmsum vöruflokkum, t.d. landbúnaðarafurðum, olíuvörum, sementi, áfengi og tóbaki. Af sömu ástæðu hefðu aðgerðir af umræddu tagi engin áhrif til jöfnunar á vöruverði.

Ljóst er að umrætt undanþáguákvæði, sem í þessu frv. fólst, mundi flækja mjög allan verðútreikning, auk þess sem gera yrði mjög strangar kröfur til sundurliðunar bókhalds og bókhaldsgagna hjá verslununum. Hætt er því við að þessi atriði mundu leiða til verulegs kostnaðarauka fyrir dreifbýlisverslun. Þeir, sem þetta mál hafa skoðað á vegum rn., hafa ekki treyst sér til að fullyrða hvort vegi í raun þyngra óhagræði verslunarinnar annars vegar af þessari breytingu eða sú lækkun á vöruverði sem af henni mundi leiða.

Sem dæmi í þessu sambandi mætti nefna að við útreikning á verði vöru þarf kaupmaður fyrst að gera sér grein fyrir því, hver flutningskostnaðurinn er á hverri vörutegund. Verið getur að um blandaðar vörusendingar sé að ræða þannig að sumar séu söluskattsfrjálsar og aðrar söluskattsskyldar þannig að þá þarf að finna hver flutningskostnaðurinn er fyrir hverja vörutegund fyrir sig.

Ef nefnt er dæmi um áhrif þess, að flutningskostnaður væri dreginn út úr söluskattsstofni, mætti gefa sér þá einföldu forsendu, að verslun á Akureyri seldi húsgögn sem keypt væru af heildsala í Reykjavík og flutt með bíl til Akureyrar. Verslunin á Akureyri verslar eingöngu með söluskattsskyldar vörur. Ef menn gefa sér að verðið frá heildsala í Reykjavík væri t.d. 18 þús. kr. og flutningsgjaldið væri 720 kr. fengist álagningargrunnur sem næmi 18 720 kr. Við þetta bætist þá smásöluálagning, sem gæti numið 2.808 kr., og er þá stofn til álagningar sölugjalds orðið 21.528 kr., en síðan er við venjulegar aðstæður bætt sölugjaldi við og fæst þá út smásöluverð með söluskatti. Ef aftur á móti reikna á út verðið eftir þeirri aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, væri verðið frá heildsalanum 18 þús. kr. og flutningsgjaldið 720 og síðan kæmi með sama hætti smásöluálagning upp á 2 808 kr. þannig að smásöluverð án söluskatts yrði það sama, 21 528 kr. En hér yrði breyting á í útreikningi. Nú yrði að draga frá flutningsgjaldið upp á 720 kr. og fengist þá stofn til álagningar söluskatts sem næmi 20 808 kr. á þessa upphæð ætti síðan að reikna sölugjaldið sem yrði þá önnur upphæð, 4 890 kr., og síðan ætti þá að bæta flutningsgjaldinu við aftur og væri þá upphæðin orðin 720 kr. hærri og næmi þá 26 418 kr.

Það er alveg augljóst af þessu dæmi, sem hér er nefnt, að verðútreikningur hverrar vöru yrði allverulega miklu flóknari þar sem liðum í verðútreikningi mundi fjölga úr 7 í 10. Flutningsgjaldið væri sem sagt dregið fyrst út, tekin millisumma og flutningsgjaldi aftur bætt við eftir að sölugjald hefði verið reiknað út. Í öðru lagi þarf að draga flutningsgjaldið frá sölu við ákvörðun á söluskattsskyldri veltu, sem er viðbótarfyrirhöfn í þessu samhengi þó að kannske sé hún ekki ýkjamikil, og þá er spurningin: Hvað breytist útsöluverð úr verslun við þær tilfæringar sem nú hafa verið nefndar? Jú, útsöluverð á þeirri vöru, sem hér hefur verið nefnd, lækkar úr 26 587 kr. í 26 418 kr. eða um 169 kr. Verðlækkunin er aðeins 0.64% og verða menn þá að meta hvort mönnum finnst að sá árangur sé í einhverju hóflegu samræmi við þá gífurlegu fyrirhöfn sem lögð hefur verið á smásalann í þessu tilviki.

Hér var, eins og segir áður, gert ráð fyrir að eingöngu væri verslað með söluskattsskyldar vörur, en ef einnig er verslað með vörur, sem undanþegnar eru söluskatti, verður málið miklu flóknara. Í venjulegri matvöruverslun er einkum verslað með hreinlætis- og snyrtivörur, öl og gosdrykki, sælgæti og tóbak. Þessar vörur eru allar söluskattsskyldar. (Forseti hringir.) Herra forseti, ég er rétt að ljúka máli mínu. — Sá sem selur bæði söluskattsskyldar og söluskattsfrjálsar vörur skal útfylla sérstakt fylgiskjal og láta það fylgja söluskattsskýrslu. Ef frv. verður að lögum þarf að fjölga dálkum í hægri hlið þessa fylgiskjals vegna flutningsgjalds út og inn. Útfylling þess verður um leið fyrirhafnarmeiri og mun þó þykja ærin fyrir.

Ég hef rætt þetta mál við fulltrúa frá ríkisskattstjóra og frá skattrannsóknastjóra og þeir hafa tjáð mér að undanþága af þessu tagi mundi veikja enn frekar en orðið er alla möguleika á virku söluskattsyfirliti, þar sem reglur um verðútreikninga og bókhald yrðu verulega miklu flóknari en nú er og mundi því vera talsverð hætta á auknum undanskotum frá réttum skilum söluskatts. Af þessari ástæðu ítreka ég það, sem ég nú þegar hef sagt, að það verður að skoða þessa leið miklu betur en gert hefur verið áður en ákvörðun er tekin um að velja hana til verðjöfnunar hjá innlendri dreifbýlisverslun. Ég vil segja það aðeins að lokum, að að því verður unnið á vegum ríkisstj. á næstunni.