27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4209 í B-deild Alþingistíðinda. (3876)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Guðnason):

Herra forseti. Í fsp. vísaði ég til ákveðins frv. og spurði hvað ríkisstj. hefði gert. Ekki var það ætlun mín beinlínis að það væri barist í þessu frv. sér á parti, heldur það, eins og ég gat um áðan, að gefa ríkisstj. ákveðinn umþóttunartíma til að taka málið til umfjöllunar og finna viðeigandi og heppilega lausn í því máli. Það er mjög nauðsynlegt því að það verður mjög mikill ójöfnuður á milli landsmanna eftir búsetu þegar þessi háttur hefur í för með sér að flutningsgjöld skuli mynda stofn til söluskattsálagningar. Það er nóg að dreifbýlið þurfi að borga aukalega flutningskostnað þó að ríkið geri sér ekki þennan ójöfnuð eftir búsetu að féþúfu með því að leggja 23.5% söluskatt á þann mismun.

Eins og hér hefur verið bent á af öðrum hv. þm. kemur þessi mismunur mjög illa við og er raunar ógnvaldur við dreifbýlisverslunina. Það fer ekki hjá því, ef um verulegt magn er að ræða, að menn freistast til að fara suður í Reykjavík, kaupa hjá heildsalanum hér og flytja það á eigin vegum um langar leiðir víðs vegar um landið og sleppa þannig við þennan söluskatt. Ég tel að þetta sé hrein ógnun við dreifbýlisverslunina.

En ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans þó seint hafi komið, og ég skora jafnframt á hæstv. ríkisstj. að finna einhverja lausn á þessu máli. Ég veit að málið er ekki alveg einfali, en ég veit líka að tækninni í verslun sem annars staðar fleygir fram þannig að þetta gerist að meira eða minna leyti með vélum, en ekki að menn séu með blað og blýant að reikna. Ég er ekki í neinum vafa um að allir þeir ágætu menn, sem í ráðuneytum okkar vinna, ef þeir leggja sig niður við það, muni finna framkvæmanlegar leiðir sem þjóna þeim tilgangi sem hér er rætt um. Mér þykir nóg að landsbyggðarmenn verði að búa við dýrari vöru vegna þess að flutningsgjald leggst á vöruna þó að ríkið sé ekki að gera sér þann mun að féþúfu með því að leggja söluskatt á mismuninn.