27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4210 í B-deild Alþingistíðinda. (3878)

119. mál, afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á frumvarpi um söluskatt

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki fyrst og fremst flækjan í þessu máli sem er þess valdandi að ekkert gerist. Ég held að hér sé fyrst og fremst um það að ræða og spurningin sé um það, að ríkisvaldið vilji ekki missa þennan spón úr sínum aski, þó að vísu sé ekki mikill, og ég held að það eigi hér mjög vel við, sem hæstv. forsrh. sagði og eru löngu lendfleyg orð, að vilji er allt sem þarf í þessu máli eins og raunar fleiri. Hér er spurningin um hvort stjórnvöld vilja gera tilraun til að jafna kjör fólks í landinu með hliðsjón af búsetu til þess að sem sambærilegastar aðstæður séu um allt land. Ég held því að það sé fyrirsláttur eins og oftar, bæði frá stjórnmálamönnum — í þessu tilfelli hæstv. fjmrh. — og embættismönnum, að mál séu svo flókin að engar leiðréttingar sé hægt að gera.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs við þessa umr. í tilefni þess, að á s.l. hausti gerði Alþýðusamband Vestfjarða þá kröfu til ríkisvaldsins, að felldur yrði niður söluskattur af flutningskostnaði. Viðræður áttu sér stað um þetta ásamt fleiri kröfum sem ASV gerði til stjórnvalda við hæstv. forsrh. tvisvar sinnum, og tvívegis fengu aðilar skeyti frá hæstv. forsrh. varðandi þessi mál. Síðara skeytið var innlegg í lausn þeirrar kjaradeilu sem á Vestfjörðum var milli Alþýðusambands Vestfjarða og Vinnuveitendasambands Vestfjarða, og samningar voru undirskrifaðir 15. febr. s.l. Í lok þess skeytis frá forsrh. segir, með leyfi forseta:

„Þá verður það mál skoðað, hvernig unnt er að jafna aðstæður fólks vegna búsetu, m.a. með jöfnun flutningskostnaðar.“

Nú spyr ég í áframhaldi af þessu skeyti hæstv. forsrh., sem ég skoða sem túlkun hæstv. ríkisstj. allrar og fyrirheit um að mál verði athuguð og leiðrétt, — ég spyr hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., sem mun að einhverju leyti hafa verið falið að athuga þetta mál: Hvað hefur verið gert í sambandi við þetta ? Er vinna í gangi í anda þess, að hér verði leiðrétt, eða hefur ekkert verið gert? Ég óska að fá skýr svör því að hér er um að ræða innlegg í lausn kjaradeilu, og a.m.k. velflestir Vestfirðingar trúðu því, að með slík gögn í höndum sem innlegg í kjaradeilu mætti treysta því a.m.k. að málið yrði gaumgæfilega athugað og komist að niðurstöðu. Ég spyr því enn hæstv. ráðh.: Hvað hefur verið gert í þessu máli? Er von á að lausn á því finnist þannig að í þessum þætti, þó ekki sé stór, verði líka leitað leiðréttinga og komið í veg fyrir áframhaldandi ójöfnuð milli fólks með hliðsjón af búsetu í landinu?