27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í fsp. hv. þm. er óskað eftir upplýsingum um utanlandsferðir á vegum Alþingis, ríkisstj. og ríkisstofnana að meðtöldum ríkisbönkum og síðan tekið fram í þrem liðum hverra upplýsinga er óskað, sundurliðaður kostnaður á ýmsa lund. Þegar eftir að fsp. barst forsrn. var öllum þeim stofnunum og aðilum, sem hér eiga hlut að máli, skrifað og beðið um upplýsingar og svör við því sem spurt er um. Frá flestöllum hafa borist svör, en rn. hefur ekki talið rétt að láta prenta þá skýrslu, sem hér er óskað eftir, fyrr en lægju fyrir svör og upplýsingar frá öllum þorra þeirra sem óskað er upplýsinga frá. Eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt hafa m.a. ekki komið svör frá þeim aðila sem fyrstur er nefndur og upp talinn í fsp. hans. Ég hef látið áður í ljós, að strax þegar það liggur fyrir er ekkert því til fyrirstöðu eða setja svörin í prentun, en meðan ekki liggja fyrir upplýsingar frá þessum fyrsta aðila, sem þar er nefndur, er harla erfitt að ganga endanlega frá þeirri skýrslu.