27.04.1982
Sameinað þing: 80. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4214 í B-deild Alþingistíðinda. (3884)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Í framhaldi af þeim fsp., sem hv. 1. þm. Vestf. hefur flutt, vil ég minna á að í 32. gr. þingskapalaga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef óskað er skriflegs svars sendir ráðherra forseta það eigi síðar en sex virkum dögum eftir að fsp. var leyfð.“

Í byrjun þessa mánaðar flutti ég tvær fsp. til hæstv. landbrh. Önnur var um kostnað í sambandi við Búnaðarþing og hin var um kostnað í sambandi við lög frá 1979 um afleysingaþjónustu í sveitum. Það er að verða mánuður síðan þessar fyrirspurnir voru fluttar. Það var óskað eftir skriflegum svörum vegna þess hve liðið var á þing og ég vænti þess ekki að koma málunum að á dagskrá með venjulegum hætti. Nú hafa engin svör enn þá borist við þessum fsp. og ég sem fyrirspyrjandi er orðinn uggandi um að þau berist ekki fyrir þinglok, hvort sem þau verða fyrir eða eftir næstu helgi. Hæstv. landbrh. er ekki í salnum, en ég vildi vænta þess, að hæstv. forseti ítrekaði við hann að í 32. gr. þingskapalaganna segir að slík svör eigi að berast sex virkum dögum eftir að fsp. var leyfð. Sá tími er löngu liðinn og þrefalt eða fjórfalt svo, sýnist mér.