27.04.1982
Sameinað þing: 81. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 4218 í B-deild Alþingistíðinda. (3896)

364. mál, utanríkismál 1982

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Mér er það mikið ánægjuefni að geta skýrt hv. alþm. frá því, að seint í gærkvöld átti Hans G. Anderson, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, símtal við mig frá New York, en þá var nýlokið atkvgr. um brtt. á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði að öll mál á Hafréttarráðstefnunni hefðu þróast okkur Íslendingum í vil, allar brtt., sem gátu haft neikvæð áhrif á okkar stöðu í hafréttarmálum, hefðu ýmist verið felldar eða dregnar til baka. Þetta eru mikil og ánægjuleg tíðindi fyrir okkur Íslendinga. Það er því óhætt að fullyrða að 200 sjómílna efnahagslögsaga sé orðin viðurkenndur alþjóðaréttur.

Þó er enn ekki endanlegt hversu margar þjóðir kunna að verða aðilar að hafréttarsáttmálanum vegna þess að þær sætti sig ekki við úrslit einstakra mála. Stefnt er að því að endanleg atkvgr. verði n.k. föstudag á Hafréttarráðstefnunni og ef allt fer vel verði hafréttarsáttmáli þá tilbúinn til undirritunar og staðfestingar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að gera ítarlega og ágæta skýrslu og framsöguræðu hæstv. utanrrh. almennt að umræðuefni. Í skýrslunni er sérstakur kafli frá viðskrn. um utanríkisviðskipti. Ekki er ástæða til að endurtaka það, sem þar segir, né ræða um einstök atriði í sambandi við þróun utanríkisviðskiptanna og hvernig horfir í þeim málum í dag. Ég vil þó leyfa mér að ræða nokkuð um utanríkisviðskiptin og fyrirkomulag utanríkisviðskiptamála.

Nú eru liðin rúm tvö ár síðan ég tók við starfi viðskrh. Ég tel mig geta fullyrt að á þessum tíma hafi utanríkisviðskipti okkar yfirleitt verið hagstæð þrátt fyrir mikla efnahagsörðugleika í viðskiptalöndum okkar og hækkun á olíuverði. Útflutningsframleiðslan hefur verið mikil og sala á helstu afurðum okkar hefur yfirleitt gengið vel.

Þó voru erfiðleikar á sölu grásleppuhrogna í fyrra og einnig nýttist ekki til fullnustu sá síldarafli sem hefði mátt veiða, vegna ónógra sölumöguleika á því verði sem þurfti að fá fyrir síldina. Erfiðleikar á sölu grásleppuhrogna stafa bæði af óvanalega mikilli framleiðslu tvö síðustu árin og einnig að lágmarksverð var ákveðið í dollurum, en gengi dollarans hækkaði miðað við gjaldmiðil markaðslandanna, Danmerkur og Þýskalands. Það er vissulega til alvarlegrar íhugunar þegar ekki tekst að selja saltsíld til hefðbundinna markaðslanda vegna tilkostnaðar við að framleiða síldina hér heima. Það er mikil síld í sjónum, en verðbólgan veldur því að við getum ekki framleitt hana á því markaðsverði sem hægt er að fá fyrir hana. Verðbólgan er því mikill skaðvaldur fyrir efnahagslífið og framvindu efnahagsmála og þar af leiðandi fyrir lífskjörin í landinu.

Í fyrra gætti einnig sölutregðu og verðlækkunar á áli og járnblendi vegna efnahagserfiðleika viðskiptalandanna. Hækkun Bandaríkjadollars á síðasta ári samanborið við Evrópugjaldmiðla hefur haft talsverð áhrif á utanríkisviðskiptin. Þjóðhagslega er hagstætt fyrir okkur Íslendinga að Bandaríkjadollarinn styrkist því að mikill hluti útflutningsins er reiknaður í dollurum. Hins vegar mun þessi gengisþróun hafa dregið nokkuð úr sölu á íslenskum afurðum til Vestur-Evrópu, en jafnframt hafði hún í för með sér örvandi áhrif á innflutning þaðan. Við þessar aðstæður, þegar tek jur landsmanna hækkuðu miklu meira en erlent verðlag, var ekki við öðru að búast en innflutningur mundi aukast mikið, eins og átti sér stað á síðasta ársfjórðungi síðasta árs. Þessi röskun á gengi helstu gjaldmiðla kom nokkru róti á viðskiptin og er ekki enn séð fyrir afleiðingar þess. Þessi þróun mála hefur t.d. haft býsna alvarlegar afleiðingar á samkeppnis- og útflutningsiðnað okkar og valdið miklum erfiðleikum á því sviði.

Fyrir þjóð, sem er eins háð utanríkisviðskiptum og við Íslendingar, eru frjáls alþjóðaviðskipti mikið hagsmunamál. Mér er ekki kunnugt um að viðskiptahömlur í markaðslöndunum hafi að neinu marki torveldað sölu á framleiðsluvörum okkar. Innflutningur á skreið til Nígeríu var frjáls allt árið, en hafði áður verið háður miklum takmörkunum. Nú nýlega hafa yfirvöld lagt hömlur á skreiðarviðskiptin og veldur það mikilli óvissu um sölu á skreið á þessu ári.

Fyrir utanríkisviðskipti okkar skiptir fríverslunarsamstaða Evrópulanda mjög miklu máli. Með aðild Íslands að EFTA og fríverslunarsamningi við Efnahagsbandalagið er tryggður opinn markaður fyrir flestar útflutningsvörur okkar í 16 Evrópulöndum. Tollar hafa verið felldir niður á flestum útflutningsafurðum okkar í þessum löndum.Hefur það í reynd þýtt verulega hækkun á skilaverði til útflytjenda. Þau tollfríðindi, sem við höfum þannig orðið aðnjótandi í aðildarríkjum EFTA og Efnahagsbandalagsins, hafa, miðað við útflutninginn í fyrra, verið metin á 184 millj. kr. eða nærri því 20 milljarða gkr. Það vill stundum gleymast, hversu mikinn hag við höfum af þessu samstarfi, því að það þykir miklu síður fréttnæmt, sem vel er gert og ber árangur, heldur en umkvartanir þeirra sem telja sig verða fyrir óhagræði af þeim viðskiptasamningum sem gerðir eru. Okkar hagur af þessu samstarfi er samt ótvíræður, og við verðum að reyna að komast hjá að gera ráðstafanir sem geta veikt þetta samstarf. Við erum ekki einir í heiminum og þótt litlir séum er fylgst með því, að staðið sé við gerða samninga. Við ætlumst auðvitað til þess, að aðrir geri slíkt hið sama.

Ég sagði í upphafi að utanríkisviðskiptin hefðu yfirleitt verið okkur hagstæð. Samt er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að vöruskiptajöfnuðurinn á síðasta ári var talsvert óhagstæðari en árið áður og heldur en spáð hafði verið seinni hluta síðasta árs. Ein skýringin er sú, að útflutningur á loðnuafurðum minnkaði mikið frá því sem áður var. Í fyrra voru loðnuafurðir samtals 8.5% af heildarútflutningi, en árið áður, árið 1980, voru þær 16.1%. Nú eru allar horfur á því, að útflutningur loðnuafurða verði mjög lítill á þessu ári. Hér er því um að ræða mikið áfall fyrir efnahagslíf okkar, og ekki verður séð hvaða útflutningur gæti bætt upp þetta tjón. Ekki er enn hægt að spá neinni verðhækkun á áli og járnblendi, en þó er reiknað með að útflutningsmagn þessara málma verði meira í ár en var í fyrra.

Hvað viðskiptin í heild snertir er þó á einu sviði hægt að minnast á jákvæða þróun. Það er hin mikla lækkun á verði olíuvara sem vonast er til að haldist a.m.k. út þetta ár. Þetta er vissulega nokkur bót, en hrekkur samt skammt til að jafna þá miklu byrði sem á okkur var lögð með hækkun olíuvaranna árið 1979.

Þegar á heildina er litið er ég nokkuð ánægður með olíuviðskiptin síðan ég fór að hafa afskipti af þeim málum. Það hefur reynst skynsamlegt að halda áfram að gera samninga við Sovétríkin um olíuviðskipti, þótt ég hafi talið rétt að draga nokkuð úr þeim frá því sem áður var. Nú eru um 60% af okkar olíuviðskiptum við Sovétríkin. Þá hafa olíubirgðir í landinu aukist á þessum tíma. Í viðskrn. hefur verið lögð mikil vinna í þennan málaflokk. Starfandi er samstarfsnefnd rn. og olíufélaganna sem fylgist náið með þessum málum. Við höfum dreift nokkru meira olíuviðskiptunum en áður var, höfum keypt af Bretum, Portúgölum og ýmsum vestrænum olíufélögum. Möguleikum á framtíðarviðskiptum við Breta og Norðmenn er haldið opnum, en reynt að kaupa þar sem verðið er hagstæðast.

Í dag samþykkti ríkisstj. að lagt yrði fram stjfrv. um heimild til að Ísland gerðist aðili að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég er þeirrar skoðunar, að slík aðild mundi auka öryggi okkar í olíumálum, gæti stuðlað að hagstæðum olíuviðskiptum og væri okkur einnig til gagns á öðrum sviðum orkumála. En frv. fjallar fyrst og fremst um neyðarbirgðir olíu og aðra þætti olíumála.

Öðru hverju birtast skrif um verðlag á olíuvörum sem eru bæði villandi og ónákvæm. Menn undrast t.d. að þegar verðlag lækkar á erlendum mörkuðum skuli það ekki þegar lækka hér innanlands. Í fyrsta lagi eigum við 2–4 mánaða birgðir af olíuvörum hér á landi og það tekur tíma að selja þær. Í öðru lagi eru allar olíuvörur seldar í dollurum. Ef bensín væri t.d. selt í dollurum hér innanlands kæmi lækkun fram þegar birgðir hafa verið seldar. En bensínið er ekki selt í dollurum, heldur í íslenskum krónum, og dollarinn hefur hækkað ört þannig að bensínið kostar fleiri krónur jafnvel þótt það hafi kostað færri dollara. Í þriðja lagi eru lögð ýmis gjöld á bensínið, t.d. 32% gjöld sem renna beint í ríkissjóð, 22% sem renna til vegamála og 1.1% til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Á árinu 1981 námu sjávarafurðir 78% af heildarútflutningi Íslendinga, og voru freðfiskflök eins og áður drýgsta útflutningsvaran. Samtals var selt úr landi fyrir 6536 millj. kr. Það er ástæða til þess að spyrja, af því að það er oft rætt um fiskiskipaflotann og um sjávarútveginn, hvers vegna sjávarútvegurinn sé í reynd svo sterkur sem hann er, þar sem 78% af 6536 millj. kr. voru útfluttar sjávarafurðir á síðasta ári. Það er auðvitað vegna þess að við eigum öflugan, nýtískulegan fiskiskipastól og hrein bylting hefur átt sér stað í fiskvinnslunni. Fiskiðjuver hafa ristið allt í kringum landið, yfirleitt búin nýjasta tæknibúnaði og hagræðingu. Þótt enn þurfi að gera betur og það miklu betur hefur ákaflega mikið færst í rétta átt á undanförnum árum. Fiskiðjuverin eru yfirleitt rekin í tengslum við fiskiskip sem afla hráefnisins. Til viðbótar við þetta hafa svo komið til hagstæð viðskipti með saltfisk og skreið. Það er ástæða til að undirstrika það, hversu gífurlega sterkur atvinnuvegur sjávarútvegurinn er og hversu mikið ríður á fyrir íslensku þjóðina að hann sé það þegar hann stendur undir 78% af heildarútflutningi landsmanna.

Stærstu og þýðingarmestu markaðslönd okkar voru á síðasta ári þessi: 1. Bandaríkin, en þangað fluttum við út fyrir 1 361 073 000 kr. 2. Bretland, þangað var útflutningurinn rúmlega 933 millj. 3. Nígería með rúmlega 858 millj. 4. Portúgal með rúmlega 702 millj. 5. Vestur-Þýskaland með tæplega 421 millj. 6. Sovétríkin með 403 millj.

Þegar þetta er haft í huga er auðvitað ljóst að Bandaríkin eru okkar langsamlega þýðingarmesta markaðsland. Í fyrsta lagi er útflutningur þangað langmestur. Síðan koma til viðskipti við varnarliðið þannig að heildarviðskipti við Bandaríkin eru gífurlega mikil.

Viðskrh. Noregs, Arne Skauge, bauð mér í opinbera heimsókn til Noregs í vikunni eftir páska. Víð ræddum ítarlega viðskipti milli landanna og viðskipti á alþjóðlegum vettvangi. Sé ég ástæðu til að fara örfáum orðum um þær viðræður.

Kindakjöt hefur verið okkar aðalútflutningsvara til Noregs. Á árunum 1977–1980 fluttum við um 2500 tonn af kjöti til Noregs á ári hverju. Árið 1981 féll þetta niður í 1076 tonn, og fyrir nokkru var frá því sagt, að þeir mundu vegna offramleiðslu á kjöti í Noregi ekkert kaupa af okkur í ár. Þess vegna ræddi ég þetta ítarlega við kollega minn sem viðskiptamál milli þjóðanna. Hann lofaði að taka málið upp og athuga vandlega um kaup á 600 tonnum af kjöti á þessu ári. Er mér kunnugt um að hann hefur þegar tekið það mál upp við landbrh., en lyktir málsins eru óráðnar enn þá.

Þá voru rædd sameiginleg hagsmunamál Íslands og Noregs um frjáls viðskipti sjávarafurða innan EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu og til Nígeríu. Þótt Íslendingar og Norðmenn séu stundum keppinautar á alþjóðlegum mörkuðum hafa þeir þó sameiginlegra hagsmuna að gæta til að tryggja frjáls alþjóðleg viðskipti þar sem bæði löndin eru mjög háð utanríkisviðskiptum.

Þá var rætt um dagskrármál í EFTA vegna inngöngu Portúgals og Spánar í Efnahagsbandalag Evrópu, sérstaklega með tilliti til að tryggja áfram fríverslun við Portúgal og jafnframt fríverslun við Spán.

Þá var rætt um hugsanleg olíuviðskipti í framtíðinni, en við höfum næga olíu annars staðar frá á þessu ári á hagkvæmu verði og að teknu tilliti til almennra viðskiptahagsmuna. Öllum dyrum er haldið opnum til lengri framtíðar ef hagkvæmt þykir.

Þá urðu langar umræður um ríkisstyrki Norðmanna til iðnaðar og sjávarútvegs og skattlagningu þeirra greina. Vegna húsgagnaiðnaðar létu Norðmenn í té skýrslu að minni beiðni. Í þeirri skýrslu kemur fram að útflutningur Norðmanna á húsgögnum til Íslands hefur vaxið úr 6.5 millj. norskra kr. 1978 í 12.6 millj. norskra kr. á síðasta ári. Íslenskur útflutningur til Noregs á þessu sviði hefur aðeins vaxið úr 0.1 millj. kr. í 0.2 á sama tíma.

Í sem stystu máli nýtur húsgagnaiðnaðurinn í Noregi lánafyrirgreiðslu frá Byggðasjóði í afskekktum héruðum. Á tímabilinu 1978–1982 hefur verið veitt fé af opinberri hálfu, 5–8 millj. norskra kr. á ári, til endurskipulagningar, hagræðingar, markaðsleitar erlendis og iðnþjálfunar. Er þetta fimm ára áætlun. Að dómi Norðmanna er um óverulega aðstoð að ræða þar sem iðnaðurinn verður að greiða háan launaskatt, allt að 16.8%, mismunandi eftir svæðum.

Þá var ítarlega rætt um stuðning Norðmanna við sjávarútveginn. Hann hefur verið mjög mikill og veldur okkur miklum áhyggjum. Nýja ríkisstjórnin í Noregi stefnir að því, að hver atvinnugrein beri sig án stuðnings. Hefur því verið dregið úr stuðningi við sjávarútveginn. Í fyrra var fjárveiting til stuðnings sjávarútvegi 1400 millj. norskra kr., en á þessu ári hefur hann lækkað í 962 millj. norskra kr. Þannig hefur verið dregið úr stuðningi um nærri því 1/3.

Að lokum vil ég segja nokkur orð vegna niðurlags skýrslu utanrrh., þar sem starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru sagðir þeirrar skoðunar að taka þurfi stjórn utanríkisviðskiptamála úr höndum viðskrn. og fela utanrrn. hana. Þetta er gamalkunnugt mál. Ég er í sjálfu sér ekkert að lá starfsmönnum utanrrn. þótt þeir hafi hug á því að færa út kvíarnar. Um breytingu á starfssviði sendiráða er hins vegar ekki að ræða því að þau hafa í áratugi unnið í góðri samvinnu við viðskrn. að þessum málum. Í þessum þýðingarmiklu málum má ekki persónulegur metnaður einstakra starfsmanna ráða ferðinni, heldur einungis það sjónarmið, hvernig verði.,best unnið að utanríkisviðskiptamálum með hag landsins fyrir augum. Í mínum huga er enginn vafi á því að yfirstjórn utanríkisviðskiptanna á að vera í einu rn. eins og hún hefur verið hér á landi.

Einn þýðingarmesti þáttur utanríkisviðskipta er stjórn innflutnings- og gjaldeyrismála og þar með framkvæmd á gildandi viðskiptasamningum og þátttaka í fríverslunarsamstarfi innan EFTA og við Efnahagsbandalagið. Þessi mál eru mjög nátengd starfssviði Seðlabankans og gjaldeyrisviðskiptabankanna og hafa því af eðlilegum ástæðum verið í höndum viðskrn. síðan það var stofnað árið 1939. Varla ber að skilja ósk starfsmanna utanrrn. þannig, að þeir vilji einnig leggja þessi mál undir utanrrn., en án þess verður ekki um að ræða neina heilsteypta stjórn viðskiptamála.

Ég vil eindregið vara við því, að farið verði inn á þá braut að skipta utanríkisviðskiptamálum á milli tveggja ráðuneyta sem mundu verja miklum tíma og kröftum í að skiptast á bréfum og metast á um starfssvið. Við höfum verið blessunarlega lausir við slíka tvískiptingu sem hefur verið verulegt stjórnarfarslegt vandamál hjá nágrannaþjóðum okkar. Eftir mjög miklar umræður og athuganir ákváðu bæði Norðmenn og Svíar fyrir nokkrum árum að fela einu rn. öll utanríkisviðskiptamálin. Í Noregi er það viðskrn. og í Svíþjóð samsteypa sem kölluð er viðskipta- og utanríkisráðuneyti. Í báðum þessum löndum er það viðskrh. sem fer með yfirstjórn þessara mála, eins og reyndar á sér stað í langflestum viðskiptalöndum okkar.

Því hefur hvergi verið haldið fram, að núverandi fyrirkomulag, sem byggist á nánu samstarfi viðskrn. og sendiráðanna, hafi ekki skilað eðlilegum árangri miðað við það fámenna starfslið sem að þessum málum hefur unnið. Utanrrn. hefur fylgst vel með öllu, sem farið hefur á milli viðskrn. og sendiráðanna, og hefur viðskrn. haft ánægjulegt samstarf við utanrrn. Í okkar fámenna stjórnkerfi er mjög auðvelt að vinna saman þótt um starfsmenn tveggja ráðuneyta sé að ræða. Ég get einnig talað af eigin reynslu þegar ég dreg í efa að samstarf innan utanrrn., milli varnarmáladeildar rn. og aðalskrifstofunnar, sé nokkru nánara en samstarf utanrrn. og viðskrn. Hins vegar álit ég að sá galli sé á núverandi skipan, að starfsmenn utanrrn. fái margir hverjir ekki nægilega reynslu af því að vinna sjálfir að viðskiptamálum meðan þeir starfa hér heima. Á þessu má þó ráða bót með því að láta starfsmenn utanrrn. vinna um tíma, t.d. 1–2 ár, í viðskrn. Þessi hugmynd hefur oft verið rædd, en af hálfu utanrrn. hefur því verið borið við, að ekki væri hægt að sjá af neinum starfsmönnum til viðskrn. vegna anna.

Nú nýlega hefur utanrrn. verið boðið að lána starfsmann í viðskrn. í stað þess starfsmanns viðskrn. sem innan skamms tekur við störfum viðskiptafulltrúa við sendiráðið í London. Um þriggja ára skeið var einn af starfsmönnum viðskrn. staðsettur í sendiráði Íslands í París. Þessi ráðstöfun gafst vel og hefur greitt fyrir viðskiptum á meginlandinu. Sá starfsmaður er nú tekinn við starfi í viðskrn. reynslunni ríkari, og nú fer annar starfsmaður viðskrn. til London. Ég og utanrrh. erum sammála um að þessa starfsemi ætti að auka.

Ég vil að lokum endurtaka þá eindregnu skoðun mína, að stjórn utanríkisviðskiptamála verði að vera á einum stað, í einu og sama rn. Ef sá vilji er fyrir hendi hjá ríkisstjórn og Alþingi að endurskipuleggja Stjórnarráð Íslands með því t.d. að fækka ráðuneytunum um helming tel ég að vel gæti komið til greina að sameina utanrrn. og viðskrn. Annars held ég að viðskiptahagsmunum okkar verði best þjónað með óbreyttri skipan.